12745567_10208358617780116_8404129107318354139_n

Í dag er lítil stelpa 8 ára, það eru orðin heil 8 ár síðan að hún Katrín Steina dóttir mín kom í heiminn. Ég get sagt eins og allir sem börn eiga að það er alveg sama hvaða dagur það er eða hvað ég er að gera, alltaf er þessi litla skotta ofarlega í huga mér.

Eins og allir sem börn eiga vita þá er það alveg sama hvað gengur á, tilvera þessara litlu sála er alltaf flögrandi um hugsanir okkar, allt umlykjandi. Það er svolítið skrítið þegar maður spáir í það, alveg sama hver þú ert, sama hvað þú ert að gera. Allt sjónarhorn á heiminn verður annað þegar lítill afleggjari sjálfs þíns mætir í heiminn, þá verður einhvern veginn allt öðruvísi.

Ég vona að dagurinn verði dóttur minni eftirminnilegur og fullur glaðra minninga. Ég vona að hún eigi fullt af vinum sem halda uppá afmælið með henni. Ég vona að hún eigi góða vini sem fagna deginum með henni.

Sannleikurinn er sá að ég hef ekki hugmynd um það hvort að hún er með afmælisveislu, hvort að margir koma, eða hvort að hún sofnar í kvöld rjóð og stolt, árinu eldri verandi orðin 8 ára, og þá auðvitað sko bráðum 9 ára.

Þetta er enn einn afmælisdagurinn í lífi dóttur minnar, Katrínar Steinu, þar sem ég er ekki til. Þetta er afmælisdagur, sá sjötti í röðinni þar sem ég er ekki til. Mamma hennar, móðuramma hennar, og móðurafi hennar tóku þá ákvörðun fyrir Katrínu Steinu að engan föður skyldi hún eiga. Það var í september 2010. Nánar tiltekið 3. september 2010.

Tveimur vikum fyrr höfðum við Katrín Steina hoppað og skoppað um húsdýragarðinn. Föstudagurinn 13. ágúst 2010 var síðasti dagurinn sem Katrín Steina mátti hitta pabba sinn, hún vissi það ekki þá og ekki pabbi hennar heldur. Tveimur vikum seinna þegar ég ætlaði að ræða við mömmu Katrínar Steinu um hvenær ég ætti að sækja hana þá kom skellurinn. Rétt undir kvöldmat þann 3. september 2010 gaf mamma Katrínar Steinu mér loforð. „Þú færð aldrei að hitta dóttur þína aftur!!“ Og svo var skellt á.

Síðan þá er ég búinn að berjast og berjast við kerfið með kjafti og klóm til að standa vörð um réttindi dóttur minnar um að verða ekki fórnarlamb geðþóttaákvörðunar mömmu sinnar og rænd uppruna sínum. Í stuttu máli þá er ég búinn að vinna alla úrskurði sem hægt er að vinna hérlendis að einum undanskildum: Hvar forræðismálið sem ég höfðaði á hendur móður Katrínar Steinu skyldi haldið.

Eftir að Barnaverndarnefnd og Sýslumaður höfðu komist að þeirri niðurstöðu að ég væri fullkomlega hæfur til að vera pabbi Katrínar Steinu þá var úrskurðuð full umgengni. Ég fékk allt í topp, aðra hvora helgi, langar helgar, önnur hver jól, önnur hver áramót, aðra hverja páska, langt sumarfrí. Allt þetta þrátt fyrir að þráfaldlega hafi því verið haldið fram af móður Katrínar Steinu sem og móðurömmu hennar og móðurafa að ég, pabbi hennar, væri stjórnlaus, stórhættulegur, útsmoginn geðsjúklingur sem ætti að vera vistaður á stofnun. Þrátt fyrir þetta sáu Barnavernd og Sýslumaður ekkert sem rökstuddi þetta og rétt eins og öll börn þá væri Katrín Steina ekki eingetin og hún ætti pabba. Og Katrín Steina á að fá að þekkja pabba sinn og hans fjölskyldu.

Ég vann alla úrskurði, þeir voru allir kærðir af móður Katrínar Steinu, Ég vann það allt.

Fyrsta daginn sem Katrín Steina átti að koma til mín voru liðin tæp 2 ár sem kerfið hafði tekið sér í að komast að því að ekkert væri hæft í ásökunum móður Katrínar Steinu. Í tvö ár var dóttir mín málsnúmer á borði embættismanna sem tóku sinn tíma í að elta draugasögur. Tvö ár voru rænd af dóttur minni vegna seinagangs kerfisins.

Fyrsta daginn sem Katrín Steina átti að koma til mín var ég bæði spenntur og kvíðinn. Ég hugsaði með mér: Hvað ef hún kemur? Hvað á ég að gera? Hvað á ég að segja?. Allan tímann vissi ég að í heift sinni mundi móðir Katrínar Steinu vanvirða þetta eins og allt annað.

Dagurinn kom, Barnaverndarnefnd hringdi í mig og sagði mér að ekki næðist í móður Katrínar Steinu og því litið hægt að gera.

Ég fylgdi öllu fast eftir, allar fyrirhugaðar heimsóknir urðu að vonbrigðum. Vonbrigði sem ég var orðinn alltof vanur.
Þegar móðir Katrínar Steinu hafði gerst nógu oft brotleg til þess að forsendur fyrir aðför og inngripi væru nægar þá hóf ég aðgerðir, samdægurs. Stefndi henni fyrir héraðsdóm til forræðis, krafðist álagningar dagsekta fyrir brot á umgengisúrskurði. Stefndi henni fyrir ærumeiðingar, kærði hana fyrir rangar sakargiftir. Vísvitandi falskan framburð sem ætlað var að hafa áhrif á réttarúrskurð. Þessi þvæla þarf að stoppa. Þetta gengur ekki lengur. Með beyskt bragð í munni steig ég þessi skref. Það var ekkert annað hægt, það varð að stoppa þessa vitleysu.

Ég greip í tómt, hlaðinn sönnunargögnum, að ég hélt, vonaði ég að kerfið mundi standa vörð um mannréttindi dóttur minnar. Það varð alls ekki… alls, alls ekki!

Móðir Katrínar Steinu hafði brugðið sér til Danmerkur, skráð lögheimilið hjá vinkonu sinni og hugðist flytja út. Harðákveðin í fyrirætlun sinni að ræna Katrínu Steinu æsku sinni og uppruna. Bara til þess að ná sér niður á mér. Mér er enn þann dag í dag hulin ráðgáta hvað veldur þessu.

Hver stofnunin á fætur annarri byrjaði nú að vísa hver á aðra eða hreinlega segja mér að vera úti. Sýslumaðurinn í Reykjavík fór þar fremstur í flokki.

Hún er flutt út, hún er utan okkar lögsögu. Þú verður að fara til Danmerkur. Og engin af þessum stofnunum vísaði mér á við hvern ég ætti að tala í Danmörku. Ég þurfti að grafa allt upp sjálfur.

Kærur felldar niður, málum vísað frá, allt gert til að gera ekki neitt. Hæstiréttur meira að segja dæmdi gegn eigin dómafordæmi til þess að tryggja það að þetta væri ekki að þvælast inni í íslensku stjórnsýslunni.

Ég fór til Danmerkur, nokkrum sinnum. Til að gera langa sögu stutta þá var ég beðinn um að láta af kröfu minni um umgengni. Statesforveltningen, sú stofnun sem sér um svona mál í Danmörku var afar hjálpsöm. Á síðasta fundi mínum með þeim var tónninn alvarlegur, þau höfðu þungar áhyggjur af því hvaða áhrif það hefði á Katrínu Steinu ef umgegni yrði komið á með aðför. Svo ákveðin er móðir Katrínar Steinu að ræna barnið uppruna sínum og rótum að eitthvað hefur gengið á. Eftir tveggja klukkustunda rökræður fram og til baka var fundi slitið. Starfsfólki Statesforveltningen var mikið niðri fyrir, þau höfðu djúpar og þungar áhyggjur af þessu..

Ég var bókstaflega beðinn um að sleppa takinu, láta af kröfu minni um að hitta og faðma dóttir mína… Ég samþykkti, það voru kominn 4 ár sem ég hafði ekki séð barnið mitt. Endalausir réttarsalir, fundir með fólki sem með aðgerðarleysi sínu gerði illt verra.

Ég samþykkti að sleppa takinu. Úrskurðurinn var almennt orðaður og engin umgengni úrskurðuð fyrir dóttur mína sökum fjandskapar milli foreldra.

Eftir 5 ár og þegar ég var 7 milljónum fátækari komst ég að því að málsnúmerið sem er á möppunni hjá Katrínu Steinu er nákvæmlega bara það í augum kerfisins, málsnúmer og ekkert annað. Að traðka og traðka á réttindum barna er bara hin sjálfsagðasti hlutur svo framarlega sem það er gert af móður viðkomandi barns. Þetta er óskiljanlegt með öllu.

Núna á 8 ára afmælisdaginn þinn, Katrín Steina mín, ert þú mér efst í huga þegar ég sofna á kvöldin, þú ert í draumum mínum og þegar ég vakna ertu það fyrsta sem ég hugsa um.

Núna ertu 8 ára litla gullið mitt, orðin svo stór að þú ert sennilega farin að fatta að eitthvað er bogið við tilveruna. Af hverju áttu ekki pabba eins og allir hinir krakkarnir??

Í dag ætla ég að gefa þér smá gjöf, ég ætla að segja þér leyndó. Konan mín, yndisleg kona sem þú átt eftir að kynnast henni, hún sagði við mig eftir að úrskurðurinn kom: „Friðgeir, nú ertu frjáls, nú ertu frjáls til að fara þínar leiðir, kerfið gerir ekki neitt, þú ert búinn að fullreyna allt. Nú ertu frjáls til að gera það sem þú gerir best. Finndu leið sem enginn hefur farið áður. Þú hefur gert það 100 sinnum áður með allt milli himins og jarðar. Fyrir Katrínu Steinu, finndu leið.“
Katrín Steina mín, litla ljósið mitt, ég er ekki að ná að breyta því hvernig hún mamma þín er. Þú getur það ekki heldur. Ekkert af þessu er þér að kenna Katrín Steina mín. Og það besta sem þú getur gert er að fyrirgefa mömmu þinni.

Þar sem ég get ekki breytt mömmu þinni þá ætla ég að breyta heiminum. Ég fann leið. Einn daginn verður alveg sama hvað kerfið gerir, mamma þín gerir, móðuramma eða móðurafi gerir. Pabbi á alltaf inni að geta gert „Skák og Mát!“.
Afmælisgjöfin mín til þín, Katrín Steina, mín er ekki flókin. Ég ætla að breyta heiminum, ég er byrjaður á því. Og þegar þú færð gjöfina þá sérðu hvað hægt er að gera bara með því að vera heiðarleg við sjálfa þig, hrein í hjartanu, einlæg í því sem þú ætlar þér. Þá sérðu að það er hægt að breyta heiminum.

Það er meira af honum pabba þínum sem rennur um æðar þér en aðrir vilja viðurkenna. Það eru margir búnir að segja mér það. Til hamingju með daginn, Katrín Steina mín, þetta tekur smá tíma í viðbót. En hann pabbi þinn er á leiðinni.

Kv, pabbi

Þessi póstur birtist á fb síðu Friðgeirs Sveinssonar og er hér birt með hans leyfi.

Ég vann alla úrskurði, þeir voru allir kærðir

| Greinar |
About The Author
- Ritstjórn