Ingi Freyr Vilhjálmsson skrifar —

Bók Styrmis Gunnarssonar, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, um kalda stríðið er opinberandi að ýmsu leyti. Mest hefur eðlilega verið rætt um þá uppljóstrun Styrmis að hann hafi sem blaðamaður Morgunblaðsins safnað upplýsingum um starfsemi sósíalista á Íslandi sem rötuðu bæði til forsvarsmanna Sjálfstæðisflokksins og eins til bandaríska sendiráðsins. Erfitt er að líta á þessa upplýsingaöflun með öðrum hætti en sem landráð, sama þó Styrmir segist ekki hafa vitað að upplýsingarnar hafi ratað þessa leið og neiti að kalla þetta njósnir.

 

Þarna er blaðamaðurinn Styrmir Gunnarsson kominn í hlutverk njósnara; hann er og kominn í hlutverk sem samræmist engan veginn starfi hans sem blaðamanns þar sem hann aflaði upplýsinga fyrir innlend pólitísk öfl og eins erlent stjórnmálalegt vald. Styrmir var því ekki eingöngu blaðamaður þegar hann sinnti þessari upplýsingaöflun. Hann var pólitískur útsendari pólitískrar valdastofnunar á Íslandi og eins erlends ríkisvalds.

 

Ef Styrmir hefði aðeins safnað upplýsingunum frá ónafngreindum heimildarmanni sínum úr röðum sósíalista til að nota þær í blaðaskrif í Morgunblaðið þá hefði það eingöngu verið góð blaðamennska. Metnaðarfullir blaðamenn vilja finna sér eins marga góða heimildarmenn og þeir geta og sem standa eins nærri uppsprettu þeirra upplýsinga sem þeir vilja komast yfir og mögulegt er. Styrmir var í tengslum við „deep throat” innan Sósíalistaflokksins og mjólkaði hann eins og hann gat. Upplýsingarnar skiptu máli fyrir fréttaöflun á þeim tíma þó þær skipti litlu máli í dag. En upplýsingarnar voru hins vegar ekki bara til heimabrúks á Mogganum.

 

Eitt af því sem bók Styrmis skildi eftir í mínum huga var furða mín á því að þessi maður, þessi pólitíski agent, hafi verið ritstjóri stærsta og mest lesna dagblaðs á Íslandi í 36 ár, frá 1972 til 2008. Hvaða segir það okkur um stöðu íslenskrar blaðamennsku á seinni hluta tuttugustu aldar að einn þekktasti blaðamaður og ritstjóri landsins hafi verið njósnari fyrir innlend og erlend pólitísk öfl? Joseph Pulitzer sagði, eins og frægt er orðið, að „dagblöð ættu ekki að eiga neina vini”. Kannski er þetta ein besta staðhæfing um eðli réttnefndrar blaðamennsku sem til er: Dagblöð eiga ekki að vera neinum háð og þau eiga ekki að strjúka neinum meðhárs. Styrmir Gunnarsson þverbraut þetta prinsipp: Hann átti ekki bara pólitíska vini heldur vann beinlínis fyrir þá sem og erlent ríkisvald.

 

Ég hef lengi haft þá skoðun á Styrmi að hann hafi í raun aldrei verið blaðamaður í raunverulegum skilningi heldur frekar einhvers konar kommissar eða PR-maður í líki blaðamanns. Síðustu tvær bækur hans renna enn traustari skoðun undir þá söguskýringu. Þær hjálpa líka til við að sýna hvað saga íslenskrar blaðamennsku er í raun ömurleg. Á Íslandi er afar takmörkuð hefð fyrir almennilegri blaðamennsku; almennilegri blaðamennsku sem ekki er stýrt af flokkspólitískum hagsmunum eða hagsmunum einhverra afla í viðskiptalífinu. 

 

Ég veit ekki af hverju þetta er en mér finnst þetta vera rannsóknarefni í sjálfu sér. Af hverju er íslensk blaðamennska svona léleg og af hverju er svona grunnt á einhverju sem kalla má blaðamennskumenningu á Íslandi? Eitt svar liggur í því að blöð eins og Morgunblaðið, Þjóðviljinn, Alþýðublaðið og Tíminn voru flokksblöð sem var stýrt af mönnum eins og Styrmi Gunnarssyni. Íslensk blaðamennskuhefð og -saga er grunn og ristir rétt í yfirborðið; hún hefur í gegnum tíðina fyrst og fremst verið hagsmunadrifin sem leitt hefur af sér tilhneigingu til misnotkunar. Hagsmunaðilinn vill fyrst og fremst traustan hliðvörð á fjölmiðli sínum til að gæta hagsmuna sinna í hvívetna, einmitt menn eins og Styrmi Gunnarsson. 

 

Hið merkilega er að Styrmir hélt áfram að stýra Mogganum í tæp 20 ár eftir lok kalda stríðsins. Miðað við orð fyrrverandi starfsmanna blaðsins þá var hann ennþá sami agentinn allan tímann, hliðvörður flokksins og hagsmuna hans. Fyrrverandi blaðamaður Moggans, rithöfundurinn Sindri Freyssson, sagði til dæmis um hann árið 2012 eftir útgáfu síðustu bókar hans: „Styrmir kenndi mér ekkert – nema að hann væri einn af viljugum dátum kalda stríðsins og varðhundur flokksins og hagsmuna ákveðinna valda – og peningaklíku sem honum var þóknanleg og hann var þóknanlegur. Hann drap í því skyni allnokkrar fréttir sem ég skrifaði og gátu komið illa við þessa vini hans.” 

 

Á tímabilinu 1972 til ársins 2008 unnu allir blaðamenn Morgunblaðsins undir þeim manni sem Sindri lýsir með þessum hætti. Ætli Styrmir hafi verið góður mentor fyrir unga blaðamenn sem byrjuðu að vinna á Mogganum? Skilningur hans og þekking á réttnefndri blaðamennsku er afar takmörkuð þar sem hann hefur aldrei stundað hana sjálfur. Nú er Styrmir að reyna að vera einhvers konar nestor íslenskrar blaðamennsku, eftir allt sem á undan er gengið, og fær eigin spjallþátt á RÚV og heldur þar einræður um samfélagsmál. 

 

Bók Styrmis er nefnilega líka opinberandi um og fyrir íslenska blaðamennsku og þá sérstaklega Morgunblaðið sem hann ritstýrði. Opinberun Styrmis um eigin njósnir og þann undarlega bræðing blaðamennsku og stjórnmála sem hann stundaði er áfellisdómur yfir honum sjálfum en einnig blaðinu sem hann starfaði á. Ritstjóri Moggans, Eyjólfur Konráð Jónsson, fól Styrmi upplýsingaöflunina og miðlaði þeim svo áfram til forsvarsmanna Sjálfstæðisflokksins og bandaríska sendiráðsins. Hvaða dóm er hægt að hengja á slíkt blað sem sem spyrðir saman fréttaöflun og upplýsingaöflun fyrir stjórnmálaafl og erlent ríki í köldu stríði? Hlutverk dagblaða er ekki að stunda njósnir. 

 

Styrmir getur ekki kallast blaðamaður eða ritstjóri, ekki í hefðbundinni merkingu þeirra orða jafnvel þótt hann hafi skrifað fréttir og ritstýrt blaði. Að sama skapi getur dagblað sem öðrum þræði birtir fréttir og á sama tíma stundar njósnir fyrir stjórnmálaflokka og ríki ekki talist réttnefnd dagblað í hefðbundnum skilningi þess orðs. Bæði voru Styrmir og Morgunblaðið á gráum mörkum blaðamennsku og stjórnmála í kalda stríðinu og líklega miklu lengur ef marka má bók Styrmis og upplýsingar sem fram hafa komið um starfshætti hans eftir það. Þessi blanda er í fáum orðum sagt eitruð eins og ferill Styrmis sýnir ágætlega fram á.

 

Arfleifð Styrmis á Mogganum kann hins vegar að virðast bjartari í augum einhverrja þegar litið er til baka vegna þess að blaðið hefur versnað til muna sem pólitískt áróðursrit eftir að hann lét af störfum – ef undan er skilið stutt tímabil þar sem Ólafur Stephensen ritstýrði blaðinu og náði að gera það í sennilega fyrsta sinn í sögunni að „alvöru“ og lítt háðu dagblaði sem bar af hér á landi. Sú skíma er hins vegar auðvitað villuljós. 

Greinin birtist á vefsvæði Inga Freys Vilhjálmssonar og er endurbirt hér með leyfi.

Á gráum mörkum blaðamennsku og stjórnmála

| Greinar |
About The Author
- Ritstjórn