Í DV í dag, 18. 06.2017, er frétt af því að Margrét Friðriksdóttir, ritstjóri ‘Stjórmálaspjallsins’, ætli að kæra blaðamann Stundarinnar fyrir umfjöllun um Svein Gest Tryggvason og tengsl hans við þjóðernissinna og ný-nasista á Íslandi.

Segir Margrét vegið að sér með rógi og bornar séu á hana sakir sem ekki eigi fyrir sér fót í raunveruleikanum.

Komið hefur fram á Sveinn tjáði sig nokkuð á vef hennar, og hefur verið viðloðandi hann lengi, og að þau hafi átt samskipti á vefnum.

Hún ætlar sér sumsé að kæra þessa tengingu blaðamanns Stundarinnar, fyrir að segja satt og rétt frá.
Nú hefur vefur Margrétar, Stjórnmálaspjallið, verið einn helsti vettvangur hatursmanna útlendinga, og þá sérstaklega múslima, hér á landi.Hefur hún þar veitt vinkonu sinni Arnþrúði Karlsdóttur töluverða samkeppni. Þar inni hafa helst sóðakjaftar internetsins fengið að leika lausum hala, og þekktar nafnlausar netbullur og -níðingar fengið frían völl, fyrir lygar,uppspuna og persónuárásir, en alkunna er einnig að vogi fólk sér að koma fram með minnsta vott afmálefnalegri umfjöllun og gagnrýni, er þeim viðstöðulaust verið hent út.
Svo algengt er þetta hjá Margréti, að stofnuð hefur verið sérstök síða fólks sem hent hefur verið út af Stjórnmálaspjallinu.

Skoðanir Margrétar í þjóðernis- og kynþáttamálum eru vel þekktar, og hefur hún verið liðsauki Þjóðfylkingarinnar og tengir hún gjarnan tilveru sína við kristna trú, og þreytist seint að vitna, (í sundurslitnu skilningsleysi) í ritningarnar.
Margir segja þetta upphlaup Margrétar enn einn spaugilegi kaflinn í sögu hennar sem síðuhaldari Stjórnmálaspjallsins, og vissulega er þetta grátbroslegt…en þetta fékk mig til að hugsa aðeins um þetta á alvarlegri nótum, en mér hefur verið hugsað dálítið um skrumara og lúðrablásara þeirra undanfarið vegna hávaðans í þeim.
Ábyrgð þeirra sem veita ofbeldismönnum vettvang til teljast málsmetandi, ástæðu til að ætla að pláss sé fyrir ofbeldi þeirra, er mikil.

Í gegnum tíðina hafa framámenn þeirrar hugmyndafræði aðskilnaðarins sem margrét aðhyllist, og síða hennar er helsti vettvangurinn fyrir, beitt fyrir sig ofbeldisfullum bullum og brjálæðingum á meðan þeir eru að koma sér til valda, standi þeir í slíku brölti. Einnig eru ofstækisfullir ritmiðlar áberandi vopn þeirra, en internetið hefur tekið við af prentsmiðjum í dag, og mýgrútur er af síðum einsog Stjórnmálaspjallinu, víðsvegar um heiminn…enda eru valdasjúkir fasistar og aðskilnaðarsinnar enn við lýði.

Erlendis eru ofbeldisfullir hópar rasista og nasista á feitum spena hjá stjórnmálamönnum aðskilnaðaraflanna, og er þeim beitt, bæði beint og óbeint, gegn innflytjendum og andstæðingum þjóðernishyggju af fullkomnu ábyrgðarleysi.
Morð á þingmönnum, fjölmiðlafólki, innflytjendum og sífjölgandi árásum á hælisleitendur, með ofbeldi og íkveikjum eru svo dæmi um hvað gerist í framhaldinu. Lögregluyfirvöld í nokkrum ríkjum Evrópu hafa gefið það út, að uppgangur öfga-hægriafla séu helsta aðsteðjandi ógnin í þeirra löndum, þaðan sé helst að vænta ofbeldis.
Hér á landi hafa svo því miður sprottið upp illa gefnir einstaklingar, sem telja sig getað leyst þessi ofbeldis- og brjálsemisöfl út læðingi, án ábyrgðar og án minnstu hugsunar um framhaldið.

Hin Íslenska Þjóðfylking, nasistafélagið Vakur, útvarp Saga, lýðskrumarar úr pólitíkinni og stjórnsýslunni…og Stjórnmálaspjallið, eru dæmi um það sem kyndir undir brjálseminni og ofbeldinu, dæmi um hið stórkostlega ábyrgðarleysi sem er falið í aðskilnaðarstefnunni, sem veröldin hefur fyrir löngu hafnað, en þeir sem voru fylgjandi henni áður, ss eins og í S.Afríku, eru það enn, og meðan fólk skilgreinir sig enn út frá trúarbrögðum og uppruna, verður líklega svo.

*Við og Þeir*.

Það sem hinsvegar hefur breyst, er eitt og annað, sumt til góðs, annað ekki. Upplýsingaflæðið er heill hafsjór, en er morandi af falsi og uppspuna á sama tíma.

Tjáningar- og málfrelsið er í hávegum haft…en gefur fólki á sama tíma ranghugmyndir, eins og þær að meðan maður tjáir sig, SKULI vera þögn í ‘salnum’, og andsvör eða gagnrýni kölluð þöggunartilburðir, og grátkórinn fer af stað með sinn söng um frelsið sitt stórskerta.

En frelsi fylgir ábyrgð. Vissulega má túlka ábyrgðarleysið sem ákveðið frelsi, rétt eins og siðblinduna, en við þykjumst nú betri en svo, altént í minni sveit. Orðin eru ekki ábyrgðarlaus, og orðin eru máttug, og þau geta verið mönnum vopn.

Bæði þeim sem nota þau, sem þeim sem veita þeim vettvang. Undirritaður kannast við það frá báðum endum, og ekki get ég neitað því að hafa brýnt klærnar nokkrum sinnum. Umræða um tjáningarfrelsið er eldfim, og verður það í bili að minnsta kosti, á meðan fólk eins og Margrét grætur undan mætti orðanna, oftar en ekki að ástæðulausu, eins og hún gerir með þessu upphlaupi sínu.

Hún er að læra mikilvæga lexíu, orðum fylgir ábyrgð, og frelsi er ekki það sama og ábyrgðarleysi.Vettvangur fyrir óhefta ofstækisfulla og frjálsa (les. ábyrgðarlausa) umræðu verður hluti af ofstækinu og ofbeldinu. Margréti væri nær að hugleiða þátt sinn í að koma firringunni upp á yfirborð jarðar. Áður en það kostar fleiri mannslíf.

Latest posts by Haraldur Davíðsson (see all)

Ábyrgð orðanna

| Haraldur Davíðsson |
About The Author
-