Sema Erla Serdar smallSamkvæmt Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna eru meira en 60 milljónir á flótta í heiminum í dag. Helmingurinn af þeim er börn. Vegna aukinna átaka, borgarastyrjalda og ofbeldis í Mið-Austurlöndum og Afríku hefur hlutfall þeirra sem óskað hafa eftir alþjóðlegri vernd vaxið svo um munar síðustu ár og ljóst er að ekkert lát verður þar á næstu árin.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna áætlar að meira en ein milljón einstaklinga hafi komið sjóleiðina til Evrópu árið 2015. Það er dropi í hafið ef litið er á heildarmyndina. Meira en helmingurinn af þeim sem hafa komist lífs af yfir til Evrópu eru konur og börn en 30% þeirra sem drukknuðu á Miðjarðarhafinu í fyrra voru börn. Mikil aukning hefur verið á því að ungar stúlkur og fatlaðir einstaklingar leggi á flótta og ljóst er að ástandið er grafalvarlegt.

Evrópa stendur frammi fyrir gríðarlegri áskorun. Lík rekur upp á strendur Evrópu, örvæntingarfullir hælisleitendur krækja sér undir lestarvagna, gaddavírsgirðingar eru settar upp innan landamæra Evrópu, eigur flóttamanna eru teknar af þeim, fjölskyldum er gert erfitt að sameinast, ofbeldisfullar árásir eru gerðar á flóttamannamiðstöðvar, hrækt er á börn, ráðist er á flóttamenn og aðra sem ekki eru innfæddir og getuleysi evrópskra stjórnvalda veldur áhyggjum.

Samhliða því vex þjóðernishyggja og fordómar aukast í evrópskum samfélögum, samtök og stjórnmálaflokkar sem ala á útlendingaandúð og múslimahatri eru stofnaðir og þeir sem þegar voru til stækka hratt. Reiðin beinist að ákveðnum hópum í samfélaginu og mismunun virðist vera meginstefið í áróðri þeirra sem ala á ótta og andúð í garð náungans.

Þar er Ísland engin undantekning.

Fólksflutningar eru ekki nýtt fyrirbæri og geta ástæðurnar fyrir þeim verið margvíslegar.Flestir þeirra sem flytjast á milli landa gera það til þess að sækja sér menntun eða vinnu. Aðrir eru að flýja átök, ofbeldi, stríðsátök eða aðrar hörmungar eins og lýst er hér að ofan.

Þannig eru hátt í 10% af íslensku þjóðinni skilgreindir sem innflytjendur. Hingað koma einstaklingar, menn, konur, börn og fjölskyldur sem óska eftir alþjóðlegri vernd. Auk þess hefur Ísland skuldbundið sig til þess að taka á móti svokölluðum kvótaflóttamönnum sem eru að flýja stríðsástand og hingað hafa á síðustu mánuðum komið nokkrar flóttafjölskyldur frá Sýrlandi.

Á umrótartímum eins við stöndum frammi fyrir núna er mikilvægt að muna að íslensku samfélagi hefur ekki og mun ekki stafa ógn af innflytjendum, fjölmenningu eða flóttamönnum sem hingað koma, sem eiga ekkert skylt við hryðjuverkamenn, nema að því leyti að þeir eru að flýja vígamenn hryðjuverkasamtaka í Sýrlandi og nágrannaríkjunum.

Um er að ræða menn, konur og börn sem ekki hafa gert neinum neitt nema að hafa fæðst í Sýrlandi. Um er að ræða milljónir manna sem eru fórnarlömb stríðs sem þau eiga engan þátt í að hafa skapað. Þrátt fyrir það er búið að brennimerkja þau, láta þeim líða eins og þau séu óvelkomin og byrði fyrir þennan og hinn sem kvartar undan því að verið sé að ráðast á trú þeirra og menningu með því að taka á móti flóttamönnum, sem er einmitt það sem hryðjuverkamennirnir vilja – að sundra okkur, að ýta undir ótta og hatur, að brjóta upp friðinn og samstöðuna í samfélaginu.

Það er mikilvægt að muna að við erum öll fyrst og fremst fólk, sama hvar við fæðumst, hvernig við erum á litinn eða hvað við trúum á. Við eigum öll sama rétt á mannréttindum, réttlæti og velferð. Það besta sem við getum gert núna er að hjálpast að, taka vel á móti þeim sem hingað koma og gera okkar besta til þess að tryggja að allir sem hér eru fyrir og þeir sem hingað koma verði virkir þátttakendur í samfélaginu. Þar skipta móttökurnar mestu máli.

Ef vel á að takast til þurfa stjórnvöld og aðrir viðeigandi aðilar, fjölmiðlar og almenningur að vinna saman. Það er td. eðlilegt að í fjölmenningarsamfélagi fái allir hópar að halda sinni eigin menningu, tungumáli og einkennum en tileinki sér á sama tíma ríkjandi menningu. Til þess þarf m.a. gott aðgengi að upplýsingum og því er ábyrgð yfirvalda mikil þegar kemur að því að tryggja að þeir sem hingað koma geti tileinkað sér ríkjandi hefðir og venjur, reglur og skyldur. Ljóst er að mun betur megi gera í þeim málum.

Ábyrgð fjölmiðla og kjörinna fulltrúa er líka mikil. Vald þeirra er mikið og þeir vita það. Þeir setja svip sinn á samfélagsumræðuna og geta þar með, meðvitað eða ómeðvitað, ýtt undir staðalímyndir hjá fólki, hvort sem þær eru góðar eða slæmar, en slæmar staðalímyndir ýta undir fordóma og ótta. Í síðustu skýrslu sinni hvatti ECRI íslensk stjórnvöld til að koma fjölmiðlum í skilning, án þess að ganga á ritstjórnarlegt frelsi þeirra, um mikilvægi þess að tryggja að umfjöllun í fjölmiðlum stuðli ekki að neikvæðu viðhorfi og andúð í garð minnihlutahópa, þ.m.t. innflytjenda, múslima og gyðinga. Ekki er hægt að segja að því hafi verið framfylgt að miklu leyti.

Loks þarf almenningur að vera tilbúinn að leggja sig fram til þess að gera þetta ferli sem auðveldast fyrir alla. Til þess að það takist þurfum við að vera opin fyrir því að kynnast einhverju nýju og jafnvel kenna öðrum eitthvað nýtt. Við þurfum að gera meira að því að hittast, eyða tíma saman, spyrja, kenna, aðstoða og sýna að okkur er ekki sama hvort um annað. Við getum eflaust öll lært af slíku fyrirkomulagi.

Það er íslensku samfélagi til gæfu að hingað flytjist fólk til þess að finna starfskröftum sínum, hugviti og hæfileikum farveg. Það er Íslandi til sóma að leggja sitt af mörkunum og aðstoða þá sem hafa þurft að flýja heimaland sitt vegna átaka. Þátttaka nýrra íbúa er mikilvæg fyrir samfélagið í heild sinni og því er mikilvægt að leita leiða til að jafna stöðu einstaklinga og hópa í fjölmenningarlegu samfélagi og stuðla þannig að félagslegu jafnrétti og réttlæti og koma í veg fyrir vaxandi rasisma og þjóðernisrembing.

Það er núna sem við ákveðum hvernig samfélag okkar og komandi kynslóða verður. Það samfélag sem við byggjum og skiljum eftir fyrir næstu kynslóð á ekki að vera samfélag sem elur á þjóðernisrembingi, fordómum og ótta við nágrannann heldur samfélag sem byggist á umburðarlyndi, samstöðu og réttlæti. Leyfum öfgunum ekki að sigra. Hjálpumst að við að skapa samfélag friðar og samstöðu.

 

Sema Erla Serdar

Sema Erla Serdar

29 ára stjórnmála- og Evrópufræðingur sem berst fyrir friði, frelsi og jafnrétti þegar hún er ekki að horfa á fótbolta eða leika við hundana sína.

Formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi. Fyrrverandi formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar. Ungur jafnaðarmaður!
Sema Erla Serdar

Latest posts by Sema Erla Serdar (see all)

Að skapa samfélag friðar og samstöðu!

| Sema Erla Serdar |
About The Author
- 29 ára stjórnmála- og Evrópufræðingur sem berst fyrir friði, frelsi og jafnrétti þegar hún er ekki að horfa á fótbolta eða leika við hundana sína. Formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi. Fyrrverandi formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar. Ungur jafnaðarmaður!