12prostitution-web-master675

 

Halldór Auðar Svansson skrifar –

Ég á óttalega erfitt með að líta á vændi sem hverja aðra starfsgrein eða ‘atvinnutækifæri’ og tel málflutning á þeim nótum sýna skort á samhygð og þekkingu.

Raunveruleikinn, sem erfitt er að hundsa alfarið, er sá að tengsl vændis og neyðar eru að jafnaði mjög sterk og sterkari en gengur og gerist á ‘vinnumarkaði’ almennt. Alþekkt er til dæmis hér á Íslandi að ungmenni í harðri vímuefnaneyslu leiðast oft út í vændi til að fjármagna neyslu sína, skipti jafnvel ‘greiðum’ beint fyrir skammta. Fylgni milli þess að fara út í vændi og þess að hafa orðið fyrir í misnotkun í æsku er líka sterk, rétt eins og neysla ýmis konar skýrist oft af áföllum í lífinu.

Vændi og vímuefnaneysla eiga það þó líka sammerkt að þar spilar inn í spurningin um eðli frjáls vals og að hversu miklu leyti hið opinbera á að stunda það að ‘bjarga’ fólki og að hversu miklu leyti það á að láta það óáreitt. Ég held að svarið við því sé alltaf einhvers konar skynsamlegur millivegur skaðaminnkunar sem snýst um forvarnir (að draga úr þeim áhrifaþáttum sem leiða til þess að fólk missir fótanna í lífinu), bjargræði fyrir fólk sem er raunverulega tilbúið að þiggja þau, og aðgerðir sem draga úr hvötum og vilja fólks til að nýta sér eymd annarra. Þetta er samt auðvitað mikil jafnvægislist og erfið í útfærslu, rétt eins og allt sem einhverju máli skiptir í lífinu. Að þvinga fólk sem er ekki tilbúið til að þiggja hjálp út í hjálpræði eða að að refsa því fyrir hegðun sem er öðrum að skaðlausu er hins vegar hvort tveggja röng nálgun.

Yfirlýst markmið Amnesty International með stefnumótun sinni gagnvart vændi er skaðaminnkun og ég tel ekkert að því að vera opinn fyrir þeirri umræðu þó eðlilega geti fólk verið mjög ósammála um réttu leiðirnar í þeim efnum. Ég bendi þá líka á að stefnan er enn ekki fullmótuð og þarf væntanlega að taka tillit til aðstæðna á hverjum stað fyrir sig.

Einnig tel ég að eðlilegast og líklegast til að skapa samstöðu væri að byrja á að setja orku í afglæpavæðingu vímuefna og upprætingu þeirra samfélagslegu þátta sem svipta fólk persónufrelsi í þeim efnum og viðhalda því í viðjum fíknar og afleiðinga þeirra – meðal annars vændis og annarrar nauðungar. Vonandi lætur Amnesty International sig þetta varða fyrst verið er að reyna að útvíkka hlutverk samtakanna yfir í að draga úr nauðung og eymd jaðarhópa.

Halldór Auðar Svansson

Halldór Auðar Svansson

Tölvunarfræðingur.
Hugsjónanjörður.
Borgarfulltrúi Pírata.
Formaður stjórnkerfis- og lýðræðisráðs Reykjavíkurborgar.
Zen-lærlingur.
Halldór Auðar Svansson

Af meintum atvinnutækifærum í vændi

About The Author
- Tölvunarfræðingur. Hugsjónanjörður. Borgarfulltrúi Pírata. Formaður stjórnkerfis- og lýðræðisráðs Reykjavíkurborgar. Zen-lærlingur.