Meira úr dagbók Semu Erlu. Í dag hringdi í mig maður að nafni Valgeir. Í fyrradag birti ég skjáskot af ljótum ummælum sem hann hafði látið falla um mig á netinu og ég fengið send frá vini mínum. Hann Valgeir hringdi í mig til að biðja mig afsökunar.

Við ræddum aðeins um vaxandi hatursorðræðu á netinu og þau vandamál sem geta orðið til ef hún er látin óáreitt og því þyrfti að berjast af hörku gegn henni. Ég sagði honum frá því að daglega væru birt um mig ógeðfelld ummæli, persónuníð og ærumeiðingar og ég útskýrði fyrir honum hvernig mitt eina vopn væri að birta opinberlega þau ummæli sem um mig eru látin falla, til þess að skila skömminni þangað sem hún á heima, hjá þeim sem nota tjáningarfrelsið sitt til þess að níðast á öðrum.

Ég sagði honum líka að með því væri ég ekki að reyna að sækja mér vorkunn eða samúð eða gera sjálfa mig að fórnarlambi, heldur geri ég það með von um að einhverjir myndu mögulega sjá að sér, biðjast afsökunar og hætta. Einhverjir hafa eðlilega efast um þessa aðferð mína, en..

Hann Valgeir tók fulla ábyrgð á því sem hann hafði gert og bað mig innilegrar afsökunar. Hann sannfærði mig um að hann myndi aldrei aftur taka þátt í því að dreifa hatursáróðri um netið og að ég myndi aldrei aftur sjá slík ummæli eftir hann á netinu. Ég trúi honum.

Ég þakkaði honum fyrir að hringja og biðjast afsökunar og sagði honum að þar með væri þessu máli lokið af minni hálfu, markmiði mínu hefði verið náð. Ég sagði honum að ég hefði ekki nokkra ástæðu til þess að halda áfram að vera reið út í hann, erfa þetta við hann eða hata hann, það hreinlega tæki alltof mikla orku frá okkur öllum að hata annað fólk. Við gerum öll mistök og það besta sem við getum gert er að læra af þeim svo við endurtökum þau ekki. Við vorum sammála um það.

 Ég hef sagt það áður og segi það aftur. Þessi barátta snýst ekki um mig. Hún snýst um alla þá sem daglega upplifa fordóma, hatursorðræðu og einelti á netinu og geta ekki tekið slaginn, en fyrir því geta verið margar ástæður. Hún snýst um það hvernig samfélag við viljum byggja fyrir komandi kynslóðir, fyrir krakkana, fyrir þá sem vilja taka þátt í opinberri umræðu og stjórnmálum. Að mínu mati er það opið samfélag þar sem hægt er að takast á um málefnin, það sem umburðalyndi, virðing og réttlæti fyrir alla er til staðar. Þar sem hatursorðræða er ekki liðin. Sem betur fer erum við flest öll sammála um það!

Ps. ég bauð Valgeiri að koma afsökunarbeiðni hans á framfæri þar sem hann er í pásu frá facebook, svo þetta er skrifað með hans samþykki.

Sema Erla Serdar

Sema Erla Serdar

29 ára stjórnmála- og Evrópufræðingur sem berst fyrir friði, frelsi og jafnrétti þegar hún er ekki að horfa á fótbolta eða leika við hundana sína.

Formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi. Fyrrverandi formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar. Ungur jafnaðarmaður!
Sema Erla Serdar

Latest posts by Sema Erla Serdar (see all)

Afsökunarbeiðni Valgeirs

| Sema Erla Serdar |
About The Author
- 29 ára stjórnmála- og Evrópufræðingur sem berst fyrir friði, frelsi og jafnrétti þegar hún er ekki að horfa á fótbolta eða leika við hundana sína. Formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi. Fyrrverandi formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar. Ungur jafnaðarmaður!