Undanfarnir dagar hafa verið eins og tilfinningaleg rússíbanareið fyrir íslenskan almúga. Fyrst er Forsætisráðherra opinberaður fyrir öllum heiminum sem siðspilltur sérhagsmunaseggur, Fjármála og efnahagsráðherra ekki langt undan í þeim efnum og loks innanríkisráðherra í sama potti. Báðir stjórnarflokkarnir opinberaðir fyrir heiminum í flokki með Putin, Asad og fleiri fyrirmyndardrengjum.

Þjóðinni blöskrar framganga leiðtoganna og mætir tugþúsundum saman ( teljarar sína rúm 22,000 á Austurvelli og eru þá ótaldir þeir sem voru í aðliggjandi götum og komust ekki á svæðið fyrir troðningi. Tel ekkert ofáætlað að skjóta á 30.000 manns í mótmælum.) Mótmælendur krefjast afsagnar Ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs og kosninga straks.
Sigmundur ætlar ekkert að fara hugleiðir það ekki einu sinni.

Bjarni droppar pútternum á fimmtándu holu á Flórída og reynir að húkka far heim. Kemst ekki fyrr en daginn eftir. Notar tíman til að spá í stöðuna, hverju er hægt að bjarga? Er möguleiki á að halda Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn? Nær hann að halda Efnahags og fjármálaráðuneytinu?

Bjarni sér eftir að hafa farið yfir málin að eini möguleikinn er að fórna vini sínum Sigmundi. Sigmundur er ekkert á því að láta einhverja blaðasnápa með ólöglega fengnar upplýsingar, sem þar að auki höfðu hann að fífli í sjónvarps viðtali hafa af sér jobbið. (Alltof miklir hagsmunir í húfi).

Á fundi Bjarna og Sigmundar segir Bjarni að Sigmundur verði að segja af sér svo lægja megi öldurnar. Sigmundur er ekki par hrifinn af þeirri hugmynd og hótar að ef Bjarni bakki sig ekki upp með sinn flokk, þá fái allir að fjúka, hann muni rjúfa þing. Bjarni er ekki viss um að Sigmundur þori að standa við stóru orðin. Forsetinn flýtti sér líka heim frá útlöndum til að taka á stöðunni sem upp væri komin.

Almenningur bíður í ofvæni og vonar að Forsetinn geti bjargað þjóðinni úr höndum þessara manna. Sigmundur skundar á fund Forseta, fyrr en ætlað var með helstu toppum úr ráðuneytinu og ríkisráðsritara að auki. Sá hefur með mikla skjalatösku sem Forseti þykist þekkja sem skjalatösku ríkisráðs.

Sigmundur og Ólafur ræða einslega saman meðan föruneyti Sigmundar gæðir sér á kaffi og kleinum í eldhúsinu. Sigmundur biður Forseta að undirrita þingrofsskjal sem Sigmundur ætlar að veifa framan í Bjarna fái hann ekki stuðning Sjálfstæðismanna til að vera áfram aðal. Ólafur skilur vel hvað Sigmundur er að fara með þessu og telur ófært að verið sé að blanda Forsetanum inn í svona plott. Hann hafnar því að skrifa undir neitt slíkt og vill ekki gefa Sigmundi neitt undir fótinn með þetta.

Sigmundur er ekki sáttur með þetta en sér að hann á engan annan kost í stöðunni en víkja sem Forsætisráðherra.
Nú sest Sigmundur niður með sínum mönnum og finna þeir þá plott sem gæti virkað. Sigmundur þykist bara hætta sem Forsætisráðherra Sigurður Ingi tæki svona formlega við, en það væri bara til bráðabirgða.

Eftir situr þjóðin og skilur hvorki upp né niður í hverskonar lýðræði er á Íslandi. Erlendir fréttamenn skilja ekki heldur hvað er að gerast og tala um farsa sem sé í gangi á Íslandi. Almennir borgarar erlendis spyrja mann hvort þetta séu geðveikir menn sem stjórna á Íslandi. Í öllum þessum graut situr Forsetinn Ólafur Ragnar Grímsson og spáir í það hvort hér sé komið tækifæri á einu kjörtímabili til.

Eftir stendur krafa fólksins um kosningar straks. Öllum er skít sama hvort flokkarnir eru tilbúnir í kosningar eða ekki. Ekkert gott getur komið út úr þessu, þetta getur ekki endað öðruvísi en í blóðugri byltingu. Mikil er ábyrgð þeirra sem fótum troða lýðræðið með þessum hætti.

Ég get ekki séð aðra leið út úr þessu en þá að afturkalla umboð ríkisstjórnarinnar. Ráða sérfræðinga til að gegna störfum ráðherra fram að kosningum sem yrðu haldnar sem fyrst. Það ríkir neyðarástand á Íslandi og er þörf á að menn átti sig á því að við það verður ekki unað.

Latest posts by Geir Bragason (see all)

Afturkalla umboð ríkisstjórnarinnar

| Geir Bragason |
About The Author
-