Ragnar Þór Pétursson skrifar

Í dag sá ég mynd af sposkum, miðaldra manni í leðurstól. Annar handleggurinn liggur letilega á sætisarmi. Hinn svífur örlítið úr fókus fyrir framan bringubeinið. Lófinn vísar upp, þumallinn er sperrtur. Það er augsýnilega verið að leggja áherslu á eitthvað.

Fyrir ofan myndina, risastór fyrirsögn: „Allt hugsandi fólk ætti að hafa áhyggjur.“ Undir myndinni úrdráttur úr ræðu eftir manninn. Menntamálaráðherrann yfir Íslandi.

Ræðan fékk mig til að hugsa um hugsandi fólk. Muninn á því að hugsa mikið og hugsa oft; muninn á því að hugsa hátt og hugsa vel. Ræða menntamálaráðherrans er ekki til marks um að vel sé hugsað.

Ráðherrann segir: 

Læsi fer hnignandi á Íslandi. Allir þurfa að hafa áhyggjur af því. Með nýjungum má snúa þróuninni við og gera börnin aftur læs. Nýjungar þurfi að koma utanfrá. Ástæðan: „Skólakerfið sjálft leysir þennan vanda ekki sjálft. Opinbera kerfið er ekki svo gott í að koma með nýjungar – og raunar er það frekar lélegt í því.“

Við þetta er tvennt að athuga.

Hið fyrra er að menntamálaráðherrann teflir á tæpasta vað með því að spyrða saman nýjungar og hefðbundið læsi. Illugi Gunnarsson vill engar nýjungar í menntun. Hann vill hefðbundna, gamaldags menntun. Viðfangsefni menntakerfis sem leggur ofuráherslu á bóklestur er ekki nýsköpun – heldur andstæðan, hrein íhaldssemi. Og íhaldssemi er ekki nýjungagjörn þótt hún sé á nýjum skóm. Páfinn varð ekkert frjálslyndari við það að fá sér skothelda golfkerru og heimskan í Trump er ekkert ferskari á Twitter en annarsstaðar.

Síðan er það hitt: Það er hreinlega óforskammað að menntamálaráðherran skuli dirfast að segja að opinbera skólakerfið sé lélegt í nýsköpun á sama tíma og hann hefur svo gott sem náð að drepa forsendur nýsköpunar í skólakerfinu. Ekki aðeins hefur hann náð að skapa ástand nær fullkominnar óvissu um alla hluti heldur hefur hann markvisst þvingað fram kerfisbreytingar sem munu nær örugglega hægja stórkostlega á allri nýsköpun í skólastarfi. Þess er skammt að bíða að skólakerfinu verði umbreytt í risastóra flæðilínu. Nemendur verða prófaðir á hverju ári í einföldustu kjarnaatriðum lesturs og reiknings og skólakerfinu haldið í heljargreipum árangursmælinga. 

Menntamálaráðherra er við það að steypa skólakerfinu áratugi aftur í tímann. Og hann mun halda því á kafi í tímans fljóti með römmum búrum. 

Svo kemur sá sem er að reyna að kýla kerfið aftur til fortíðar og finnur það því til foráttu að það sé ekki nógu nýjungagjarnt!

Menntamálaráðherra veit fjandakornið ekkert um nýsköpun í skólakerfinu því hann hefur engan áhuga á henni. Ekki nokkurn. Hans eini raunverulegi snertipunktur við skólakerfið eru rjómaterusamkomur og hin hjákátlega hringferð hans um landið þar sem hann hélt sömu ræðuna hundrað sinnum og fékk svo Ingó veðurguð til að syngja eitt skitið lag. Til að framkvæma þetta var stórri sveit fólks flogið um landið þvers og kruss, það látið gista á fínum hótelum og vel gert við sig í mat og drykk. Einn þeirra sem hlaðið var undir var hirðsöngvarinn Ingó sem fékk haug af peningum fyrir þá „nýjung“ að syngja gamalt Bubbalag með svo lélegum auglýsingastofutexta að gjörningurinn telst ekki einu sinni sköpun – enda er Ingó í prinsippinu á móti því að skattfé sé notað til að borga skapandi listamönnum. Hann hefur ekkert á móti því að vanskapandi listamenn fái fúlgur úr fjárhirslum ríkisins.

Ef menntamálaráðherra hefði einhverja alvöru þekkingu á skólum þá hefði hann ekki gert sig beran að þeirri fávisku sem afhjúpaðist í ræðunni. App sem hann var að mæra ber hið fallega, háfrónska nafn Study Cake og er ósköp snoturt. Það er samt ekki í grundvallaratriðum neitt meiri nýjung en til dæmis Zondle sem nýtir leikjahugsun til að stuðla að námsárangri – eða Chore Monster sem býr til umbunarkerfi fyrir krakka. Við notkun þessa forrits búa ekkert meiri tækifæri til að bylta námi en við notkun Froskaleikjanna, Bitsboard eða Nearpod

Það er nefnilega (ennþá) verið að nota forrit af öllum tegundum í íslenskum skólum á hverjum einasta degi. Skólar eru þróunarstöðvar. Menn óttast alls ekki breytingar og grípa til ótal leiða til að stuðla að því að nám og kennsla sé í takt við tímann og tíðarandann. Raunar held ég að hið opinbera kerfi sé að því leyti betra við að laga sig að breyttum aðstæðum en hið óopinbera – að hið óopinbera kerfi fer alltaf fyrr eða síðar að reyna að viðhalda sjálfu sér með lágmarkstilkostnaði. Búin er til söluvara sem sífellt erfiðara verður að breyta eftir því sem hagsmunirnir verða stærri og meiri – og þeir sem starfa innan kerfisins skulu vera trúir vörunni. Í opinberu skólakerfi liggur hollustan hjá nemendunum. Kennari skuldar nemandanum aðeins besta nám sem völ er á.

Þess vegna mun skólakerfið prófa Study Cake alveg eins og hin hundrað forritin sem eru í daglegri notkun í íslenskum skólum.

Það eina sem getur komið í veg fyrir að hið opinbera skólakerfi þróist er ef núverandi menntamálaráðherra nær að kreista úr því örendið. Skólaþróun mun veiklast á næstu misserum meðan skólar dansa fyrir mælana hans. Menn eru þegar orðnir hikandi eftir útreiðina sem Byrjendalæsið fékk. Það var of mikil nýsköpun í því fyrir ráðherran og skósveina hans.  

Menntamálaráðherrann skilur hvorki hvað einkennir nýjungar né íhaldssemi. Og hann veit sáralítið um hið opinbera skólakerfi sem hann veitir forstöðu.

Af því hlýtur allt hugsandi fólk að hafa áhyggjur.

Greinin birtist áður á Stundinni og er hér endurbirt með leyfi höfundar

 

Áhyggjur hugsandi fólks

| Greinar |
About The Author
- Ritstjórn