Jón Mar 1

Viðtal við trommuleikarann, Jón Mar Össurarson, birtist 7. Maí 2015 í Bæjarins Besta á Ísafirði ,tekið af Thelmu Hjaltadóttur og er hér endurbirt með leyfi ritstjóra bb.is

 7. MAÍ 2015

Alltaf með hugann við trommuleikinn

Ísfirðingurinn Jón Mar Össurarson hefur frá barnsaldri haft mikla ástríðu fyrir trommuleik. Hann hefur leitað sér mikillar menntunar á því sviði og hefur að baki fimm ára háskólanám. Hann útskrifaðist með Artist Diploma gráðu frá Trommuskóla Gunnars Waage, sem er fyrsti tónlistarskóli landsins með sérstaka trommusettsbraut. Síðan lá leið Jóns til skólans The London Centre Of Contemporary Music (LCCM) þar sem hann lauk B.Mus- prófi árið 2011.

LCCM er sjálfstæður skóli, sem er í London eins og nafnið ber með sér, og hefur að leiðarljósi að veita sem bestan alhliða undirbúning fyrir þá sem ætla að starfa í tónlistarbransanum, allt frá flutningi, tækni, sögu og menningu tónlistarinnar.

Í dag kennir Jón Mar við Tónlistarskólann á Ísafirði og má því segja að hann sé kominn á uppeldisstöðvarnar. Þar hóf hann nám í slagverki 11 ára gamall og lærði þar í þrjú ár. Bæjarins besta spjallaði við Jón Mar um tónlistina, námið og lífið í London.

Viðtalið hefst á mjög vestfirskan máta, á spurningunni Hverra manna ert þú?

„Faðir minn er Ísfirðingurinn Össur Össurarson pípulagningameistari, og mamma, Hallfríður Bára Ingimarsdóttir, er Súgfirðingur og starfar sem leikskólakennari. –

Hvernig kom það til að þú fórst að spila á trommur?

„Ég ákvað bara allt í einu að læra á trommur. Ég hafði þá verið eitthvað í mýflugumynd í tónlistarnámi, neyddur í blokkflautunám sex ára og lærði stutta stund á gítar þegar ég var átta ára en náði aldrei að læra gripin,“ segir Jón Mar og hlær. „Ég hafði hreinlega ekki þolinmæði í það. Hins vegar fannst mér ég strax vera á réttri hillu í trommunum. Þegar ég hugsa mig nánar um er ég ekki viss hvað fékk mig til að byrja að læra á trommur. Það var ekki mikið um tónlist í kringum mig þegar ég var lítill, en mamma hafði það fyrir reglu að senda okkur systkinin í blokkflautunám. Örugglega til að athuga hvort það væru meðfæddir hæfileikar í okkur. En það var einn tónlistarmaður í fjölskyldunni sem var okkur mjög náinn og hafði áhrif á mig. Það er Rafn Jónsson, eða Rabbi í Grafík eins og hann er betur þekktur. Mamma hans, Ragna Sólberg, og mamma mín eru systur. Hann sendi okkur alltaf eintök af plötunum sínum í jólagjöf til fjölskyldunnar. Mér er alltaf minnistætt þegar við vorum í heimsókn hjá Rabba frænda í Reykjavík þegar ég var púki og fékk alltaf að skoða inn í heimastúdíóið hans, skoða allar upptökugræjurnar og trommusettið hans. Gæti verið að það hafi fengið mig út í þetta. Svo þegar ég var byrjaður að læra og ákvörðunin var tekin að kaupa trommusett handa 12 ára guttanum, þá var hringt í Rabba frænda og hann valdi trommurnar fyrir litla frænda sinn.“ Námið gekk ekki alveg þrautalaust fyrir sig, þar sem oft á tíðum hefur verið hörgull á trommukennurum á Ísafirði. „Maður þurfti oft að taka þetta með hléum, þar sem erfiðlega gekk að finna kennara í stöðuna. Friðrik Lúðvíksson gítarkennari hljóp í skarðið og kenndi manni þegar enginn annar var, en ég náði einum vetri í kennslu hjá ísfirska trommaranum Jóni Geir Jóhannssyni þegar ég var 14-15 ára. Það var því að miklum hluta harkan, eða kannski réttara sagt þrjóskan í manni, sem hélt mér við efnið.“

Jón Mar flutti ungur til Reykjavíkur og sótti þar nám við Trommuskóla Gunnars Waage og útskrifaðist þaðan með Artist Diploma gráðu. Þegar þar var komið sögu lá leið hans út fyrir landsteinana í skólann The London Centre Of Contemporary Music í Bretlandi. Annar Íslendingurinn til að nema við skólann –

Hvað varð til þess að þú fórst í nám við LCCM?

„Eftir að ég lauk diplomanáminu fannst mér ekkert annað vera í stöðunni en að halda áfram í námi. Ég prófaði því að sækja um í LCCM, fékk að þreyta inntökupróf og komst inn. Maður var í raun að elta draum um að geta unnið við það sem ég hef áhuga á. Ég var ekki viss á hvaða hátt, en ég vissi að þetta var það sem mig langaði til að læra og vinna við í framtíðinni. Námið var mjög fjölþætt og maður þurfti virkilega að hafa fyrir því að ná háskólagráðunni. Til að mynda þurfti maður að semja tónverk og gera útsetningar, taka upptökufræði og læra tónlistarsöguna. Það tók stundum á fyrir trommuleikara eins og mig að klóra sig í gegnum útsetningar og tónsmíðar. Ég nota ekki nótnalesturinn eins mikið og aðrir hljóðfæraleikarar þar sem ég treysti meira á ryþmann. Því þurfti ég að leggja mun meira á mig til að klóra mig fram úr öllum tónverkum og slíku.

“ Ekki var það bara hefðbundið námsálag sem Jón Mar þurfti að takast á við, en tveimur vikum eftir að hann flutti út skall á bankahrunið það örlagaríka haust 2008.

„Það setti óneitanlega strik í reikninginn því að námslánin hækkuðu um 100% í kjölfar hruns bankanna heima á Íslandi, þar sem gengið tvöfaldaðist á nóinu. En ég var mjög heppinn að því leyti, að ég var nýbúinn að skipta um banka og fékk þar af leiðandi sama framfærslueyri í pundum í stað króna sem ég átti að fá. Maður heyrði nú af nokkrum sem voru ekki eins heppnir og jafnvel þurfti fólk í mörgum tilfellum bara að gjöra svo vel að hætta í námi og flytja aftur heim.“

Jón Mar var eini Íslendingurinn í náminu á sínum tíma og annar Íslendingurinn til að sækja nám við skólann, en söngkonan Hafdís Huld Þrastardóttir útskrifaðist þaðan árið 2006.

„Ég var sá eini frá Íslandi þegar ég var í skólanum, en ég hef síðan heyrt af nokkrum Íslendingum sem hafa lært þar.“ Því má bæta við að skólinn er alþjóðlegur, en hann sækja tónlistarnemar alls staðar að úr heiminum. Á vef skólans segir að á hverju ári séu milli 7-14% nemenda frá löndum utan frá Evrópska efnahagssvæðisins (EES). Þar á meðal má nefna nemendur frá Norður- og Suður-Ameríku, Suður-Kóreu, Kína, Malasíu, Rússlandi, Tyrklandi og Nýja Sjálandi.

Spilaði um alla Lundúnaborg

Að loknu námi bjó Jón Mar í London í eitt ár áður en hann sneri aftur heim á klakann.

„Þetta ár var ég að vinna í upptökuveri sem rekið var af Íslendingi sem ég kynntist í gegnum Bigga í Ampop þegar við vorum að spila saman í hljómsveitinni Blindfold.“

Jón Mar hefur leikið með ýmsum tónlistarmönnum og hljómsveitum á Ísafirði frá unga aldri. Má þar nefna sem dæmi hljómsveitina Bimbo sem tók þátt í músíktilraunum árið 2001 og komst þar í úrslit. Eftir að Jón Mar fluttist til Reykjavíkur gekk hann í og stofnaði rokksveitina Diagon sem hefur leikið á hljómleikum víða og þótti afar efnileg á sínum tíma. Árið 2007 gaf sveitin út á netinu sína fyrstu og einu plötu, The Volumes of Misconception. Þá spilaði hann einnig með bandinu Blindfold þegar hann bjó í London.

„Maður var í einhverjum bílskúrsböndum þegar maður var að alast upp. Eitt minnisstæðasta bandið hét Niðurgangur,“ segir Jón Mar með glott á vör. „Við í Niðurgangi gerðumst nú meira að segja svo frægir að hita upp fyrir Skítamóral eitt sinn. Það var á grunnskólaballi sem var eftir íþróttahátíð í Bolungarvík þegar Sveitaballsbandið var að fyrst að stíga fram á sjónarsviðið.

Á fyrsta árinu mínu í London spilaði ég um alla borg með Blindfold og lenti oft í þeim aðstæðum eftir gigg að vita ekki hvernig ég ætti að rata heim, því að neðanjarðarlestirnar voru hættar að ganga á miðnætti og ég þurfti þá að hoppa í næturstrætó. Var því rúntandi um í næturstrætóum með alltaf dótið mitt því maður hafði ekki efni á að taka leigubíl eða eiga bíl og alltaf á barmi þess að vera rammvilltur. En einhvern veginn reddaðist það nú alltaf. Skólinn er mjög skammt frá Lundúnabrú, bara um fimm mínútna gangur, svo segja má að maður hafi verið í hjarta borgarinnar. Á þessum fjórum árum sem ég bjó í London bjó ég í öllum hlutum hennar, norður, vestur, austur og suður. Það var þó ekki með vilja gert, en maður var á leigumarkaðinum og þurfti oft að flytja sig um set.“ –

Hvaða borgarhluti er í uppáhaldi hjá þér?

„Tja, ætli það sé ekki norðurhlutinn, ég bjó þar rétt hjá Arsenalhverfinu við Essex Road. Þar er mjög mikið líf og ég hafði mjög gaman að búa þar.“

Allir geta lært á trommur

Um var að ræða þriggja ára nám, og ári eftir útskrift flutti Jón Mar aftur heim til Íslands og starfaði sem bílstjóri á höfuðborgarsvæðinu. „Ég var mjög ánægður með að hafa tekið þessa ákvörðun að fara út í nám, en þegar heim var komið fór ég að vinna við að keyra vörubíl. Ég var þó alltaf að litast um eftir kennarastarfi, en það eru margir um hituna í borginni og þar sem ég er ekki með kennsluréttindi var á brattann að sækja að fá slíka vinnu.“ Að tveimur árum liðnum fannst Jóni Mar tími til kominn að nýta fimm ára háskólamenntun sína og setti sig í samband við stjórnendur Tónlistarskólans á Ísafirði.

„Þar var mér tekið opnum örmum, svo ég sló til og flutti aftur heim til Ísafjarðar og byrjaði að kenna við skólann.“ –

Var markmiðið alltaf að verða kennari?

„Ekki meðvitað, að minnsta kosti. Mig langaði til að mennta mig í einhverju sem ég hefði áhuga á og sjá svo til hvert það myndi leiða mig. Ég kann mjög vel við mig í kennarastarfinu og svo veit maður aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér.“ Jón Mar starfaði einnig sem kennari við Trommuskólann eftir að hann útskrifaðist þaðan. „Í kjölfar útskriftarinnar réð Gunnar mig sem kennara. Ég fann mig strax mjög vel í því. Ég er því mjög sáttur að vera kominn aftur heim til Ísafjarðar og að kenna á minni gömlu uppeldisstöð. Ég hef líka metnað í að skila starfinu sem allra best svo að krakkar fái sem besta alhliða kennslu í slagverki.“

Jón Mar 2

Er blaðamaður spyr hvort allir geti lært á trommur kemur svarið fljótt og örugglega: „Já! Það geta allir, ég sé að minnsta kosti ekkert því til fyrirstöðu, rétt eins og allir geta lært á hljóðfæri. Trommuleikur er mjög einfaldur þegar fólk hefur áttað sig á honum. Snýst einfaldlega um takt og samhæfingu í útlimum. Ég vona einmitt að sem flestir sæki um tónlistarnám á komandi ári. Ég er með mjög efnilegan hóp nemenda, en það vantar fleiri. 70% nemenda eru taka stigspróf hjá mér í ár, sem mér finnst mjög jákvætt, sérstaklega á mínum fyrsta vetri. Það skiptir nemana líka mjög miklu máli að sjá afrakstur erfiðis síns.“ –

Hvað veldur því að karlmenn eru í svo miklum meirihluta trommuleikara sem raun ber vitni?

„Því get ég hreinlega ekki svarað. Það er fyrir einhvern annan að svara því en mig. En hvað sem því veldur, þá er óvenjulegra að sjá stelpur lemja húðir en stráka. Það hefur samt ekkert að gera með hæfni þeirra. Yngsti nemandi minn í ár, sem er sex ára, er einmitt stelpa og mjög efnileg. Hún rétt nær niður á pedalana en trommar eins og meistari. Kannski þarf bara að hvetja fleiri stelpur til að spreyta sig á trommum.“

Trommuleikur aðaláhugamálið

Hverjar eru fyrirmyndir þínar og uppáhaldstrommuleikarnir?

„Það er eiginlega ómögulegt að svara því, þar sem það er enginn einn. Það getur þess vegna farið eftir í hvaða skapi ég er hverju sinni hver sé í uppáhaldi. Ef við erum að tala um virtúósa eru þar efst á blaði Dave Weckl, Vinnie Colaiuta og Virgil Donati. Það er mjög gaman að hlusta á það, en ég get alltaf dottið í að hlusta á trommarann í Pantera. Í dag er ég til dæmis mikið fyrir að hlusta á Jeff Porcaro sem var trommarinn í Toto og Simon Phillips sem tók við af honum eftir að hann lést. Svo þetta er misjafnt hverju sinni. Maður er alltaf samt eitthvað að spá og spekúlera í ólíkum trommuleikurum. Ég fór einu sinni á kúrs með Dave Weckl í FÍH (Tónlistarskóla Félags íslenskra hljómlistarmanna) og það var ótrúlega skemmtileg reynsla. Þá sátum við saman nokkrir trommunördar og hlustuðum á hann spila. Það var alveg ótrúlegt. Mig hefur lengi langað til að fara til Bandaríkjanna til að hlýða á fremstu trommarana en fjárráðin hafa bara ekki leyft það.

Einn af þeim sem ég vildi helst sjá var einmitt Weckl og því frábært að geta fengið að hlusta og læra af honum þegar hann var hérna. Þetta er heill heimur sem opnast fyrir manni þegar maður fer nógu langt út í þetta.“ – Hvaða tónlistarmenn eða hljómsveit myndirðu segja að hafi átt mestan þátt í að móta tónlistarsmekk þinn? „Þegar ég var að byrja að tromma var maður mest í rokkinu, en síðar fór ég að hlusta á allar týpur af tónlist. Það er ekki einhver ein hljómsveit eða tónlistarmaður sem ég festi mig á. Ég varð bara alæta á tónlist.“ –

Hefurðu tíma fyrir einhver önnur áhugamál?

„Eiginlega ekki. Ekkert að ráði allavega. Ég er nánast alltaf með hugann við trommuleikinn, og auk þess að kenna, þá spila ég töluvert sjálfur.“ –

Að lokum: Hvernig sérðu fyrir þér framtíðina?

„Því er nú eiginlega ómögulegt að svara því. Ég hreinlega veit það ekki. Ég hugsa vanalega ekki lengra fram í tímann en eitt til tvö ár í senn. En ég var nýverið að festa kaup á húsi á Ísafirði sem ég er að gera upp um þessar mundir, svo ég býst við að verða hér kyrr, að minnsta kosti þar til annað kemur í ljós,“ segir Jón Mar með stórt bros á vör. –

Thelma Hjaltadóttir

Viðtalið í heild sinni í Bæjarins Besta

Alltaf með hugann við trommuleikinn

| Viðtalið |
About The Author
- Ritstjórn