27678-Haelismaedgur-05862-776x517

Eftirfarandi bréf var sent kærunefnd útlendingamála þann 14. júlí 2016:


Efni: Áskorun um endurskoðun niðurstöðu kærunefndar í máli Maryam Raísi og Torpikey Farrash frá Afganistan.

Við undirritaðar eru alþjóðastjórnmálafræðingar með sérþekkingu á málefnum kvenna í Afganistan eftir að kennt á háskólastigi (báðar) og starfað í landinu (Magnea). Við höfum fylgst náið með fréttaflutningi af máli þeirra og skorum á kærunefndina að endurskoða niðurstöðu sína í ljósi eftirfarandi atriða:

Eins og fram hefur komið í fréttum hafa þær mæðgur verið á flótta sl. 15 ár og komu hingað til lands eftir að þeim var neitað um hæli í Svíþjóð. Samkvæmt gögnum frá Svíþjóð hafa þær ekki komið upplýsingum um stöðu sína nægilega vel á framfæri við þarlend stjórnvöld.

Í viðtali við Fréttatímann segir Arndís K. Gunnarsdóttir, lögfræðingur hjá Rauða krossi Íslands, það vera algengt vandamál í Svíþjóð að mál kvenna frá Afganistan séu ekki vandlega skoðuð. Þar vísar hún í þá staðreynd að ekki sé tekið nægilegt tillit til kynjasjónarmiða við afgreiðslu hælisumsókna.

Þær mæðgur eru í afar erfiðri stöðu. Þær tilheyra minnihlutahópi Hazara og eru shía múslimar en meirihluti Afgana er Pastúnar og sunni múslimar. Í gegnum tíðina hafa Pastúnar verið valdastéttin í landinu en Hazarar verið ofsóttur minnihlutahópur bæði fyrir og eftir tilkomu Talibana, en þeir eru að meirihluta til Pastúnar. Sem dæmi má nefna að á 19. öld var um helmingur Hazara drepinn. Í dag eru um 9% íbúa Afganistan Hazarar og þrátt fyrir að lagaleg staða þeirra hafi batnað er efnahags- og félagsleg staða þeirra bágborin.

Staðreyndir um líf kvenna í Afganistan eru vel þekktar og landið eitt hið versta þegar kemur að réttindum og öryggi kvenna í heiminum. Fyrir utan að tilheyra minnihlutahópi þá eru þær Maryam og Torpikey konur án verndar á stríðsátakasvæði og í feðraveldissamfélagi. Það kemur skýrt fram í grein Fréttatímans að þeim mæðgum stafi ógn af því að búa í Afganistan eftir hvarf eiginmanns Torpikey og sonar.

Ástæðan fyrir flóttanum er lýsandi fyrir aðstæður þeirra. Móðirin er ekkja og dóttirin var á leið í nauðungarhjónaband með stríðsherra í Kabúl. Þær hefðu ekki getað spornað gegn slíku hjónabandi stöðu sinnar vegna og þ.a.l. seldi móðirin húsnæði fjölskyldunnar til að fjármagna flóttann til Evrópu. Flestar konur. Það kemur ekki á óvart að það sé haldið að þær séu frá Íran enda er tungumál Afgana farsi og dari sem hvoru tveggja tilheyra sömu tungumálaætt og persneska, sem er töluð í Íran. Það að halda að þær komi frá íran kemur því ekki á óvart. FeFFf í sömu stöðu og þær geta ekki flúið hörmuleg örlög sín vegna þess að þær eru eignalausar, eru ekki skráðar fyri eignum eða hafa ekki fjárráð til að leggja á flótta.

Verði þeim mæðgum snúið til baka þá munu aðstæður þeirra eingöngu versna. Þær eru eignalausar og án verndar. Andlegt ástand móðurinnar er afar slæmt vegna langvarandi áfallastreituröskunar að því talið er og ekki fyrirséð hvernig lítt menntuð dóttirin á að geta séð fyrir þeim báðum auk þess að sinna veikri móður sinni.

Við leyfum okkur að benda á B.A. ritgerð um kynjamun í ferli hælisumsókna eftir þær Eyrúnu Ösp Ingólfsdóttur og Guðnýju Svövu Friðriksdóttur. Þar kemur m.a. fram að ástæða þess að færri konur en karlar sækja um hæli er að konur eiga síður eignir til að selja til að borga smyglurum (sjá bls. 40-43). „Sú staðreynd að konur sæki enn síður um hæli í Evrópu en karlmenn er ekki tilkomin vegna þess að þær verði síður fyrir ofsóknum heldur vegna þess að ofsóknir gagnvart þeim eru ekki alltaf skilgreindar eða metnar sem slíkar.“ (bls. 40). Samkvæmt því sem kemur fram í ritgerðinni er nauðungarhjónaband kynbundið ofbeldi. Það ætti að skilgreina sem kynbundnar ofsóknir gegn konum og þar með vera grundvöllur fyrir alþjóðlegri vernd.

Íslensk stjórnvöld hafa um árabil stutt dyggilega við málefni kvenna í þróunarlöndum og á stríðsátakasvæðum, ekki síst í Afganistan. Það er í hróplegu ósamræmi við þessa stefnu að vísa tveimur eignalausum konum, sem eru án verndar og tilheyra minnihlutahópi, úr landi. Þær verða berskjaldaðar gagnvart ofbeldi og hvers konar misnotkun í afgönsku samfélagi þar sem enn geisa vopnuð átök.

Í ljósi ofangreindra þátta förum við undirritaðar fram á að mál þeirra verði tekið til endurskoðunar og þeim veitt hæli eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum.

Virðingarfyllst,

Lilja Hjartardóttir og Magnea Marinósdóttir

Áskorun um endurskoðun í máli mæðgnanna frá Afganistan

| Sandkassinn |
About The Author
- Ritstjórn