Atli Thor Fanndal skrifar:

Játning Gísla Freys Valdórssonar, fyrrverandi aðstoðarmanns, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra um að hann hafi lekið og breytt gögnum um hælisleitandan Tony Omos setur fréttaflutning Morgunblaðsins og 365 miðla af málinu í nýtt ljós. Mánuðum saman hafa miðlarnir birt fréttir af yfirlýsingum ráðherra og Gísla Freys sjálfum án athugasemda – meðvitaðir um að fullyrðingarnar sem þar voru settar fram væru rangar.

 

Erfið staða

 

„Ég held að ég kjósi að tjá mig sem minnst um þetta mál út af heimildaverndinni.“ sagði Ólafur Stephensen, fyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins þegar Reykjavík vikublað ræddi við hann um málið. – Hann hefur nú játað? „Já það breytir bara eiginlega engu. Ég held að það væri voðalega hæpið að blaðra um heimildamenn aftur í tímann, jafnvel þótt þeir hafi gefið sig fram.“
– Getur þú ekki samt sem áður gefið gæðastimpil á þín störf sem ritstjóra? „Almennt talað í þessu máli þá held ég að við höfum yfirleitt bara sagt frá því sem fólk var að gefa út í málum. Rétt eins og aðrir fjölmiðlar.“
– Er það nóg, stenst það kröfur um góða blaðamennsku og trúnað við lesendur? „Já, ég lít svo á að það sé þannig. Ef það væri ekki þannig þá gæti heimildamaðurinn ekki treyst því að njóta verndar.“

 

– Spurningin er raunar hvort það sé eðlilegt að setja fram fullyrðingar sem ritstjórnin veit að er röng og hvort það þýði ekki að ritstjórnin taki þátt í að blekkja lesendur? „Ég er hræddur um að í praktíkinni væri erfitt að koma því fyrir án þess að – ef við ræðum þetta bara hípótetískt – í praktínni er erfitt að koma því fyrir án þess að brjóta trúnaðinn.“
– Og var það svolítið staðan sem þið voruð í? „Ég er dálítið hræddur um það.“

Siðferðisklemma

 

„Þetta getur nú verið ansi snúið og á þessu ýmsir fletir,“ segir Birgir Guðmundsson dósent í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri beðinn um álit á.
– Leiðir játning Gísla ekki til þess að fréttir voru settar út sem innihéldu fullyrðingar sem miðlarnir vissu að væru rangar? „Þetta er bara mjög klassískt ertu að reportera veruleikann eins og hann er, eins og hlutirnir gerast eða ertu að taka afstöðu eða hvað ertu að gera. Þeir segja bara frá því sem hann er að segja. Ég ímynda mér að það sé þeirra vörn.“

 

– Stenst sú vörn ef þú veist að einhver er að ljúga? „Jájá, ég myndi halda það. Ég myndi ekki vilja dæma þá út frá því. Hver er þá valkosturinn? Valkosturinn er þá með einhverjum hætti að upplýsa hver þetta er eða þá að neita að birta þetta. Hvers vegna ættu þeir að neita að birta þetta? Þá ertu raunar að gefa upp upplýsingar um heimildamanninn.“
– Hvað með það að miðlarnir verði að halda uppi áskorunum gegn fullyrðingum sem þeir vita að eru rangar, sökum þess að trúnaðurinn er við lesendur? „Þú ert líka að villa um fyrir fólki með því að segja ekki frá. Þú veist hvar lak, eða breytti – það er ekki alveg rétt að tala um leka hér vegna þess að hann bætti við skjalið. Sá sem lét þig fá þessar upplýsingar verður að vita að þú munt virða þann trúnað að gefa ekki upp hver hann er. Þá ertu auðvitað um leið og umræða byrjar í líkingu við þá sem hefur fylgt þessu máli, að villa um fyrir lesendum. Hér kom fram sú krafa að þeir myndu upplýsa hver þetta væri. Fjölmiðlar eru alltaf í þessu dilemma.“

Húsbóndavald
 sannleikans

 

Árið 1997 hóf Blaðamennskustofa PEW rannsóknarmiðstövðarinnar í Bandaríkjunum að skoða breyttar áherslur í blaðamennsku og áhrif tæknivæðingar á störf blaðamanna. Í kjölfar þriggja ára samantektar og viðtala við blaðamenn setti PEW saman lista yfir meginreglur blaðamennskunar. Efst á lista er trúnaður við sannleiksgildi fréttanna. Það skal áréttað að í sannleikur blaðamennsku er ekki af sama uppruna og heimspekileg leit að sannleikanum né er hann algildur og mælanlegur sannleikur í anda raunvísinda. „Sannleikur blaðamennskunar eru vinnubrögð sem hefjast á faglegri upplýsingaöflun og samantekt á staðreyndum sem má sannreina. Hefst þá sú vinna að færa lesendum áreiðnalega framsögn af þýðingu upplýsinganna. Það er þá meiningu sem á við hér og nú en kann að vera uppfærð síðar.“ Þetta er einnig þekkt sem besta fáanlega útgáfan af sannleikanum.

Vernd heimildamann trompar

 

Birgir segir að fjölmiðlar verði að virða vernd heimildamanna. Hann segir að fjölmiðlar verði einfaldlega að forgangsraða hagsmunum og að verndin við heimildamenn verði að vera því sem næst algild.
– Er hægt að réttlæta þessa forgagnsröðun ef afleiðing er sú að þú villir um fyrir almenningi og ert meðvitaður um það? „Já ég hefði gert það sjálfur satt að segja,“ segir Birgir. „Þetta prinsipp verður að geta haldið, óháð einhverju tilteknu dæmi. Heimildamenn verða að treysta að þetta sé nánast bara universal-regla. Það séu hinir stóru hagsmunir fyrir almannaheill til lengri tíma og í stóra samhenginu.“

Þótt alltaf hafi verið til fólk sem hafði atvinnu af því að spinna og tryggja góða ímynd yfirvalda og hagsmunaaðila hefur iðnaður almannatengla og upplýsingafultrúa margfaldast frá því seint á áttunda áratugnum. Auglýsingaiðnaðurinn ræður til sín vel menntað fólk og oft vana fréttamenn og ritstjóra sem þekkja vel til vinnubragða fjölmiðla og um leið veikleika miðlanna.

– Í ljósi þessarar þróunar; eru fjölmiðlar ekki í meiri hættu en áður á að verða meðsekir í um að villa um fyrir almenningi og er ekki meiri hætta á að veikleikar þessa lögmála blaðamennskunnar verði nýttir af spunameisturum? „Stutta svarið er bara jú, svo sannarlega,“ segir Birgir og bætir við að einmitt þess vegna reyni frekar á að blaðamenn nálgist vinnuna sína sem fag og að þeir sannreyni upplýsingar sem þeim eru afhentar.

Staðreyndir mála

Screen-Shot-2014-11-15-at-14.40.58

 

Innan fags blaðamennsku er umræðan um það hvort nóg sé að greina aðeins frá staðreyndum án þess að setja þær í samhengi og sannreyna ekki ný. Árið 1947 kom Hutchins- skýrslan, skýrð eftir Róbert Hutchins heitins, forseta Chicago Háskóla.
Hutchins-skýrslunni var ætlað að bera kennsl á ábyrgð fjölmiðla í lýðræðisþjóðfélögum. Í skýrslunni var könnuð ábyrgð og hlutverk fjölmiðla sem fjórða stoð valdsins. „Það eru engar staðreyndir án samhengis,“ segir í skýrslunni. „Nútíminn krefst meiri fyrihafnar en áður af hálfu blaðamanna. Þeir verða í meira mæli en áður að leggja sig fram að greina muninn á staðreyndum og skoðunum.“ Þá segir í skýrslunni: „Það að greina aðeins frá staðreyndum einangruðum frá samhengi getur í sjálfu sér verið hálfsannleikur, sama hversu sönn fullyrðingin kann að vera. Það getur um leið verið í sjálfu sér villandi og um leið ósatt.“

McCarthy og fjölmiðlar

 

Morgunblaðið og miðlar 365 greindu þannig satt og rétt frá þeim fullyrðingum sem ráðherra og Gísli Freyr létu frá sér fara en gerðu það án áskorunar. Á McCarthy tímabilinu svonefnda, þegar vinstra fólk var ofsótt í Bandaríkjunum, var það einmit ein helsta vörn bandarískra blaðamanna – miðlarnir greindu aðeins frá því sem McCarthy sagði. Phil Potter, blaðamaður Baltimor Sun, skapaði sér þannig orðspor meðal blaðamanna vegna afar gagnrýnna skrifa um McCarthy að lokinni yfirsetu á ræðum og fundum þar sem Joseph MacCarthy sakaði herinn, blaðamenn, löggæslu, menningalíf ásamt öðrum samfélagsstofnunum um að vera þéttsetinn kommúnískum flugumönnum. Seinna reif hann blöðin í sundur og hóf sína vinnu – að skrifa það sem þingmaðurinn sagði án greiningar eða gagnrýni. Potter varð frægur með endumum meðal blaðamanna og kollega fyrir að halda því opinskátt fram að starf fjölmiðla hlyti að vera að skýra frá því hvaða mann McCarthy hefði að geyma. Flestir blaðamenn töldu Potter einfaldlega hafa of sterkar skoðanir á málinu og af þeim sökum ekki nægilega hlutlægan. „Kollegar Potter trúðu margir á hlutlægni sem gerði lítinn greinarmun á staðreyndum og sannleika. Það er staðreynd að McCarthy sagði að kommúnistar hefðu komið sér fyrir í æðstu stöðum innan bandaríska hersins. Hann var um leið þingmaður og fullyrðingar hans því fréttnæmar. Að þeim sökum töldu fréttamennirnir það einfaldlega ekki vera í þeirra verkahring að kanna hvort fullyrðingar hans stæðust kröfu um sannsögli,“ segir í bók David Halberstam, sagnfræðings og blaðamanns, The Powers Be. Halberstam er þekktastur fyrir fréttaflutning sinn af Víetnamstríðinu.

Hrunið og fjölmiðlar

 

Raunar þarf ekki að leita til Bandaríkjana í leit að dæmi þar sem það
reyndist ekki í samræmi við hagsmuni samfélagsins að greina aðeins frá staðreyndum og fullyrðingum án samhengis. Þannig fjallar rannsóknarskýrsla Alþingis um þátt fjölmiðla í aðdraganda falls íslensku bankanna og hvort fjölmiðlar hafi staðið sína vakt. „Fjölmiðlar leika lykilhlutverk í lýðræðissamfélagi með því að upplýsa almenning, vera vettvangur þjóðfélagsumræðu og veita aðhald þeim öflum sem vinna gegn almannahag. Íslenskir fjölmiðlar náðu ekki að rækja þetta hlutverk í aðdraganda bankahrunsins. Þeir auðsýndu ekki nægilegt sjálfstæði og voru ekki vakandi fyrir hættumerkjum,“ segir í skýrslunni. Með sama skapi má benda á að fjölmiðlar fjölluðu vissulega um neikvæð merki í íslensku efnahagslífi en slíkt vakti lítinn áhuga. Hins vegar sýnir skýrslan að það er ekki nóg fyrir fjölmiðla að greina frá einstaka staðreyndum; þeirri staðreynd að einhver hafi sagt þetta eða hitt, ef samhengi fylgir ekki með.

 

Hvorki náðist í Kristínu Þorsteinsdóttur aðalritstjóra 365, Sigurjón M. Egilsson fréttaritstjóra Fréttablaðsins, Mikael Torfason fyrrverandi aðalritstjóra 365 né Harald Johannessen ritstjóra Morgunblaðsins.

Gunnar Waage

Gunnar Waage

- Gunnar Waage er blaðamaður og ritstjóri Sandkassans frá árinu 2013.

Hann er Trommari, Tónskáld og skólastjóri Trommuskólans, fyrrverandi deildarstjóri og einn af stofnendum Tónlistarháskóla G. Martell í Mexíkóborg. Hann lauk burtfararprófi frá McNally Smith College of Music, en duflar við kerfisfræði og er áhugamaður um bardagaíþróttir. Hann rýnir í þjóðfélagsmál og lætur sig flest varða.Hann er einstæður faðir, jafnréttissinni, fjölmenningarsinni og áhugamaður um velferð barna. Starfar við túlkun og þýðingar og fæst við spænskukennslu.


Hann er pistlahöfundur á Kvennablaðinu og var pistlahöfundur á DV en hætti skrifum á DV ásamt fleirum, í þeim tilgangi að sýna blaðamönnum og ritstjórn blaðsins samstöðu í kjölfar yfirtöku á félaginu í September 2014.
Gunnar Waage

Birtu rangar fréttir gegn betri vitund

| Samantekt |
About The Author
- - Gunnar Waage er blaðamaður og ritstjóri Sandkassans frá árinu 2013. Hann er Trommari, Tónskáld og skólastjóri Trommuskólans, fyrrverandi deildarstjóri og einn af stofnendum Tónlistarháskóla G. Martell í Mexíkóborg. Hann lauk burtfararprófi frá McNally Smith College of Music, en duflar við kerfisfræði og er áhugamaður um bardagaíþróttir. Hann rýnir í þjóðfélagsmál og lætur sig flest varða.Hann er einstæður faðir, jafnréttissinni, fjölmenningarsinni og áhugamaður um velferð barna. Starfar við túlkun og þýðingar og fæst við spænskukennslu. Hann er pistlahöfundur á Kvennablaðinu og var pistlahöfundur á DV en hætti skrifum á DV ásamt fleirum, í þeim tilgangi að sýna blaðamönnum og ritstjórn blaðsins samstöðu í kjölfar yfirtöku á félaginu í September 2014.