Gunnar Hjartarson og Gunnar Waage skrifa:

Í dag birtist frétt á DV (sjá vinstra megin) sem beinlínis gerir út á að æsa upp lesendur gegn útlendingum, svörtu fólki og minna svörtu fólki eins og það er orðað. Einhvernvegin rataðist eigendum ekki á betri og vandaðri blaðamenn en svo að þeir geri ekki greinarmun á frétt og óstaðfestri frásögn annars vegar, og hins vegar blaðamenn sem fylgja því fordæmi um heim allan að vísa ekki til eða gera þjóðerni eða litarhátt að sérstöku viðfangsefni sínu í fréttaflutningi af glæpum.

Sú grein sem hér fer á eftir var skrifuð þann 13. ágúst síðastliðin og er eftir Gunnar Hjartarson. Á þessum tíma var Björn Ingi Hrafnsson en eigandi Vefpressunar:

Á vefsvæði DV hafa undanfarið rúmt ár birst fréttir sem eru skrifaðir á þann hátt sem sjást iðulega á vefsíðum öfga-hægri manna. Allar koma þessar greinar frá sama blaðamanninum og hafa vakið mikla kátínu í Íslenska rasistaheiminum þar sem talað er um að loksins hafi einhver þor til að birta hlutlausar fréttir. Það sem blaðamaðurinn lætur frá sér ber hinsvegar ekki með sér merki um að vera hlutlaus fréttaflutningur. Blaðamaðurinn sem um ræðir heitir Ágúst Borgþór Sverrisson. Hér á eftir fylgja fyrirsagnir af nokkrum fréttum sem hann hefur skrifað:

Í þessari grein fjallar Ágúst um viðbrögð rasista við því að Sema Erla Serdar hafi gagnrýnt hatursorðræðu opinberlega í Kastljósi. Þetta er sennilega í eina skiptið sem rasistum hefur verið gefið heitið “harðlínumenn” í fjölmiðlum. Í greininni er eingöngu vitnað í orð Jóns Magnússonar og Valdimars Jóhannessonar en Semu ekki gefinn kostur á því að hrekja lygar þeirra. Bæði Jón og Valdimar hafa verið skilgreindir sem ný-rasistar og er fréttaflutningurinn mjög hallur undir þeirra sjónarmið.

 

Inga Sigrún Atladóttir, skólastjóri, skrifaði um sínar meiningar á innflytjendamálefnum á bloggsíðu sinni. Sumar fullyrðingar hennar voru vafasamar svo ekki sé meira sagt. Ágúst Borgþór var sá eini sem sýndi skrifum hennar áhuga og kaus að skella þessari æsifyrirsögn upp. Eru ekki sumir innfæddir Íslendingar með ólíðandi viðhorf til heimilisofbeldis eða eru það bara innflytjendur að hans mati?

 

Ímaninn birti asnalegt myndband á Facebook síðu sinni sem varð Ágústi Borgþóri tilefni til að draga hann og múslima almennt í efa. Samsæriskenningagrein í anda Stjórnmálaspjallsins.. Það telst þó Ágústi til tekna að hann gaf Sverri Agnarssyni, fyrrverandi formanni Félags Múslima á Íslandi, andmælarétt í þessari grein.

Robert Spencer var fenginn hingað til lands af ný-nasistasamtökunum Vakri til að halda fyrirlestur á Grand Hótel. Bent var á það ítrekað að Spencer er leiðtogi tveggja samtaka sem hafa verið skilgreind sem haturssamtök af bæði ADL og SPLC. Hann hefur víðtæk tengsl við ný-nasista og fasista um heim allan. Sömuleiðis var hann átrúnaðargoð Anders Breivik. Í grein Ágústs reyndi hann að hvítþvo Spencer og lét líta út eins og hann væri virtur “trúarbragðafræðingur”. Hluti greinarinnar eru viðtöl við bæði Spencer og Sigurfrey Jónasson sem eru ekki spurðir neinna gagnrýnina spurninga. Ágúst fjallar um málflutning Semu Erlu Serdar og Óskars Steins Jónínusonar Ómarssonar í tengslum við komu Spencer en leyfir þeim ekki að svara fyrir sig sjálf.

Ágúst tók forsíðuviðtal við ný-rasistann Ingu Sæland. Viðtalið kemur lítið inn á þá þætti sem Inga hefur verið gagnrýnd fyrir en hann gerir aftur á móti lítið úr gagnrýni á hendur henni í skrifum sínum. Drottningarviðtal við öfgamanneskju sem ætti að vera látin svara fyrir þann óhroða sem frá henni hefur komið.

Virkur á Stjórnmálaspjallinu og tengdur klofningsflokki úr Íslensku Þjóðfylkingunni

 

Facebook síðan Stjórnmálaspjallið hefur lengi verið gagnrýnd fyrir þann hatursfulla málflutning sem þar fer fram. Í meirihluta innleggja er reynt eftir fremsta megni að varpa rýrð á minnihlutahópa og fjölmenningarsamfélagið allt með ofsafengnum hætti. Ágúst Borgþór hefur ekki farið hamförum inni á þeirri síðu en hefur þó ítrekað tekið þátt í spjalli á góðum nótum við hina ýmsu rasista. Það að hann sé meðlimur þar segir ekki allt enda er þar ýmiskonar fólk. Ekki má þó tjá sig gegn rasisma þar án þess að hljóta útilokun.

 

Eigandi síðunnar og hennar helsti stjórnandi er ný-rasistinn Margrét Friðriksdóttir. Komið hefur fram að hún er tengd nýju stjórnmálaafli sem kallast Frelsisflokkurinn. Forsprakkar flokksins eru Þjóðfylkingarmennirnir fyrrverandi Gústaf Níelsson og Gunnlaugur Ingvarsson. Stefnumálin eru svo keimlík stefnu Íslensku Þjóðfylkingarinnar að engin þörf er á að tíunda þau hér nánar.

 

Margrét setti uppi vefsíðuna fyrir flokkinn og er stjórnandi lokaðrar Facebook grúppu flokksins sem hafði 170 meðlimi við síðustu athugun. Vegna ritstjórnarstefnu Stjórnmálaspjallsins má reikna með að það fólk sem Margrét hefur safnað að sér séu hennar bandamenn. Fólk sem hefur skoðanir andstæðar hennar eiga ekki upp á pallborðið hjá henni. Ágúst Borgþór Sverrisson er einn meðlima hópsins.

 

 

Ágúst Borgþór er ekki í hópnum vegna þess að hann ætli sér að skúbba um hann enda hafa umfjallanir hans um rasista ávallt verið þeim hliðhollar. Ummæli hans um Margréti í frétt tengdu slysi sem hún varð fyrir tala sínu máli en þau eru hvítþvottur á henni og hennar mannfjandsamlegu fordómum í garð minnihlutahópa. Sem dæmi um endurskilgreiningu Ágústs kallar hann Margréti “ættjarðarsinna” í stað ný-rasista. Ekki ólíkt því þegar hann kallaði Jón Magnússon og Valdimar Jóhannesson “harðlínumenn”.

 

 

Finnst ritstjórum DV ásættanlegt að miðilinn sé notaður á þennan hátt?

 

Kolbrún Bergþórsdóttir er ritstjóri DV og Kristjón Kormákur Guðjónsson er ritstjóri DV.is. Þetta fólk hefur alla jafna haldið uppi málefnalegri og vandaðri blaðamennsku. Bæði hafa fjallað á jákvæðan hátt um fjölmenningu og talað gegn fordómum. Kolbrún skrifaði í lok Júní frábæra grein sem ber heitið “Umburðarlynda Þjóðin” en í henni fagnar hún fjölbreytileikanum og telur umburðarlyndið helsta styrk þjóðarinnar.

 

Sami útgefandi og stjórnarformaður er að bæði Eyjunni og DV. Eyja Björn Inga Hrafnssonar hefur löngum birt falsfréttir s.s. beinar tilvitnanir frá Útvarpi Sögu sem og að endurvarpa orðum þekktra rasista gagnrýnislaust. Vitað er að kynþáttahatarinn Magnús Þór Hafsteinsson hefur skrifað þar fjölmargar greinar gegn fjölmenningu og mannréttindum undir algjörri nafnleynd. Eyjan er að mörgu leyti Útvarp Saga í vefsíðuformi en ásamt því að endurvarpa rasískum málflutningi hefur mörgum andstæðingum rasisma verið meinað að tjá sig í athugasemdum.

 

Mikil hætta er að DV þróist í þessa átt enda virðist markmið Björns Inga vera að fóðra kynþáttafordóma en um leið skýla sjálfum sér frá neikvæðri umfjöllun. Vinnubrögð hans minna um margt á hinn algjörlega huglausa Valdimar Jóhannesson.

 

Sé það svo að ritstjórar blaðaútgáfu DV og vefmiðilsins sitji undir hótunum um að koma vafasömum málstað á framfæri er nokkuð ljóst að þau verða að bregðast við því með beinum hætti. Fall fólks getur orðið ansi hátt ef það kýs að líta framhjá því að verið sé að hlaða undir rasisma í opinberri umræðu. Afstöðuleysi getur verið hið sama og samþykki. Kolbrún og Kristjón ættu að stíga opinberlega fram og harma þann málflutning sem viðhafður hefur verið í DV og biðjast afsökunar á honum. Blaðamanninn Ágúst Borgþór Sverrisson ættu þau að láta taka poka sinn enda ljóst að hann gengur erinda rasista í opinberri umræðu og slíkt er algjörlega óboðlegt hjá fjölmiðli sem vill láta taka sig alvarlega.

Blaðamenn DV gera út á kynþáttahatur/Racial bias

| Gunnar Hjartarson |
About The Author
-