606175Ég persónulega er ekki að fara að sleikja upp einhverja auglýsendur sem auglýsa á Útvarpi Sögu, vegna þess að þeir auglýsi líka á Sandkassanum. Því Sandkassinn er ekki á auglýsingamarkaði, Sandkassinn er frjáls fjölmiðill. Þannig að einhver skallapoppari hjá 365 miðlum, getur rifist yfir því að verið sé að ætlast til að Sælgætisframleiðandinn Góa hætti að auglýsa á Sögu, ekki skrýtið þegar að horft er til þess að Góa auglýsir væntanlega á 365 líka. Kverúlantinn er því að verja sinn eigin kúnna og versla sér þar með gott veður.

Prentmiðlar eru að líða undir lok í náinni framtíð. Eftir stendur netið sem að mjög erfitt verður fyrir núgildandi fjölmiðlarisa í landinu að halda yfirburðastöðu á. Vefir eru ódýrir og hver sem er getur startað slíkum vef með litlum sem engum tilkostnaði. Sandkassinn hefur sem dæmi alltaf verið keyrður á stolnum hugbúnaði. Og hvað ? Keyrir bara ágætlega. Ég er með hræódýra Linux hýsingu undir vefinn erlendis og greiði í kring um 100 dollara á ári fyrir hana, það er kostnaðurinn við Sandkassann á ári, 100 US dollars.

Af hverju ætti maður að fara að þrykkja innihaldinu á pappír vitandi að dag hvern er maður að stuðla að frekari hlýnun jarðar ?

Allir eru á netinu. Meira að segja rónarnir í bænum eru á netinu og geta skoðað stöðu mála í Kauphöllinni sitjandi út í næsta drullupolli þess vegna. Kostnaður fjólmiðla í framtíðinni verður að halda úti fréttaöflun og greiða laun og ýmsan kostnað en blaðberar verða útdauðir. Þá verða allir miðlarnir eins og Sandkassinn sem ganga fyrst og fremst út á álitsgjöf, blogg og einhver viðtöl. Þessir vefir kosta ekki neitt.

Við sem höslum okkur völl á þessum vettvangi erum í allt annarri stöðu en gömlu fjölmiðlarnir. Ég t.d. hef engan áhuga á því sem einhverjir establishment blaðamenn hafa að segja um hvernig fjölmiðlar eigi að vera því ég er ekki hluti af þeirri stétt, ég er ekki blaðamaður og ég nenni ekki einu sinni að fylgjast með Fjölmiðlavaktinni eða álíka samfélögum blaðamanna þar sem þeir velta fyrir sér hvernig fjölmiðlafólk sé að standa sig. Ég gef hreinan skít í það sem að stundum virðist vera eitthvað sem allir fjölmiðlar eigi að segja samkvæmt einhverjum jafnan sjálfskipuðum kverúlöntum í blaðamannastéttinni. Enda er ég bloggari, ég er ekki blaðamaður.

Ekki misskilja mig, ég hef mikið álit á blaðamönnum Stundarinnar t.d. og ýmsum fleiri blaðamönnum. Ég hef líka heilmikið álit á Atla Þór Fanndal sem nú starfar á Kvennablaðinu þar sem ég er reyndar pistlahöfundur líka. Þetta fólk er fyrir mér alvöru fagfólk sem vinnur aðdáunarverða vinnu. En þetta fólk á það líka sameiginlegt að þora alveg að gagnrýna establishmentið, aðra fjölmiðla. Það er ekki eitthvað sem fjölmiðlafólk almennt leyfir sér.

Síðast þegar ég vissi þá var t.d. fréttastofa 365 miðla alfarið skipuð hvítu starfsfólki og þykir mér það gagnrýnisvert í fjölmenningarsamfélagi. Að svo stórt fjölmiðlaveldi skuli haga starfsmannastefnu sinni með þeim hætti að umfjöllun þeirra um innflytjendamál skuli öll vera unnin af hvítum innfæddum blaðamönnum og að fréttastofan endurspegli á engan hátt litrófið í landinu. Enda sýna góðar rannsóknir að það er slagsíða á fréttum ef þær eru unnar af fólki sem er af svipuðum stigum, af sama uppruna og þjóðerni, trúarbrögðum ect.

Miðill eins og Sandkassinn fetar slóð sem þessir hefðbundnu miðlar með sinn rekstrarkostnað eru ófærir um að gera. Við gagnrýnum aðra fjölmiðla og fjölmiðlafólk að vild og það segir okkur enginn hvað við megum í því efni eða til hvers sé ætlast af okkur. Ef að við viljum ráðleggja neytendum að versla ekki við Sælgætisframleiðandann Góu vegna þess að hann á í viðskiptum við útvarpsstöð sem sætir málsóknum frá Rikissaksóknara fyrir hatursglæpi, þá gerum við það. Hvað einhverjum fjölmiðla-kverúlöntum finnst um það kemur okkur ekkert við. Við hlustum ekkert eftir þeirra rödd, fylgjumst ekki með spjallgrúppunum þeirra. Við einfaldlega spilum ekki með.

Allir fjölmiðlar á auglýsingamarkaði, eru háðir sölu á auglýsingum til hinna ýmsu fyrirtækja, öðruvísi lifa þeir miðlar ekki af. Þetta er í sjálfu allt af hinu góða enda getur fjölmiðill sem ekki er á auglýsingamarkaði ekki haldið úti fréttaöflun. Þetta fyrirkomulag verður því áfram til saðar nema að til komi einhverskonar ríkisstyrkt fjölmiðlun.

Þess vegna eru vefir sem stunda kröftuga álitsgjöf og greinarskrif, griðarlega nauðsynleg viðbót ef að hægt á að vera að veita fjölmiðlum aðhald og slíkur miðill má aldrei vera á auglýsingamarkaði í slíkum mæli að miðillinn muni hrynja ef til kastanna kemur. Það er beinlínis lífsnauðsynlegt að ekki sé verið að mjólka slíkt fyrirkomulag, nema þá að litlu leyti.

En kverúlantar á stóru fjölmiðlunum munu ekki segja Sandkassanum fyrir verkum, svo mikið er víst. Hér á Sandkassanum er verið að verja innflytjendur og flóttafólk og enda þótt hinir miðlarnir geri margt gott á því sviði, þá má halda því til haga að Fréttablaðið hefur oft sett fram fréttir í æsifréttastíl af flóttafólki eða innflytjendum, fréttir af glæp gerðar að frétt um innflytjanda en ekki frétt um glæp. Þetta er svakalega léleg blaðamennska, en eykur klikkin á fréttina sem aftur eykur auglýsingatekjur blaðsins. Þetta er einnig alvarlegt þegar að horft er til þess að starfsfólk fréttastofu 365 er allt hvítt innfætt fólk, eins og kom fram hér áðan.

Þetta eru bara eðlileg viðmið í hvaða fjölmenningarsamfélagi sem er og sem Íslenskir fjölmiðlar þurfa að máta sig við. Annað ber einflaldlega af sér slæman þokka.

Fleira mætti telja upp í tengslum við 365 miðla og þar á meðal þann skugga sem hvílir yfir ritstjórn blaðsins hvað varðar Lekamálið, en framganga Fréttablaðsins í því máli var bæði vond og sprenghlægilega ófagleg enda skilgreindi ritstjórn þann sem lekanum olli áfram sem uppljóstrara löngu eftir að ljóst var að ekki var um eiginlegan uppljóstrara að ræða heldur glæpamann sem framið hafði glæp gegn Nígerískum hælisleitanda.

Gagnrýni innan af Fréttablaði á Sandkassann kemur því úr veikustu átt svo ekki sé meira sagt enda gætu blaðamenn á þeim bænum notað orku sína í að bæta ritstjórnarstefnuna í stað þess að vernda auglýsendur.

 

Gunnar Waage

Gunnar Waage

- Gunnar Waage er blaðamaður og ritstjóri Sandkassans frá árinu 2013.

Hann er Trommari, Tónskáld og skólastjóri Trommuskólans, fyrrverandi deildarstjóri og einn af stofnendum Tónlistarháskóla G. Martell í Mexíkóborg. Hann lauk burtfararprófi frá McNally Smith College of Music, en duflar við kerfisfræði og er áhugamaður um bardagaíþróttir. Hann rýnir í þjóðfélagsmál og lætur sig flest varða.Hann er einstæður faðir, jafnréttissinni, fjölmenningarsinni og áhugamaður um velferð barna. Starfar við túlkun og þýðingar og fæst við spænskukennslu.


Hann er pistlahöfundur á Kvennablaðinu og var pistlahöfundur á DV en hætti skrifum á DV ásamt fleirum, í þeim tilgangi að sýna blaðamönnum og ritstjórn blaðsins samstöðu í kjölfar yfirtöku á félaginu í September 2014.
Gunnar Waage

Blint, heyrnarlaust og mállaust ?

| Gunnar Waage |
About The Author
- - Gunnar Waage er blaðamaður og ritstjóri Sandkassans frá árinu 2013. Hann er Trommari, Tónskáld og skólastjóri Trommuskólans, fyrrverandi deildarstjóri og einn af stofnendum Tónlistarháskóla G. Martell í Mexíkóborg. Hann lauk burtfararprófi frá McNally Smith College of Music, en duflar við kerfisfræði og er áhugamaður um bardagaíþróttir. Hann rýnir í þjóðfélagsmál og lætur sig flest varða.Hann er einstæður faðir, jafnréttissinni, fjölmenningarsinni og áhugamaður um velferð barna. Starfar við túlkun og þýðingar og fæst við spænskukennslu. Hann er pistlahöfundur á Kvennablaðinu og var pistlahöfundur á DV en hætti skrifum á DV ásamt fleirum, í þeim tilgangi að sýna blaðamönnum og ritstjórn blaðsins samstöðu í kjölfar yfirtöku á félaginu í September 2014.