Fréttatilkynning frá Íslandsdeild Amnesty International

Brasilía: Morðbylgja af hálfu lögreglu vekur ótta í fátækrahverfum í aðdraganda Ólympíuleikanna

Óðum styttist í að Ólympíuleikarnir verði haldnir í Brasilíu og hefur eftirlit lögreglu og hers verið hert í aðdragandanum. Amnesty International bendir á að íbúar margra fátækrahverfa í Ríó de Janeiro lifi í stöðugum ótta eftir að ellefu manns voru myrtir af lögreglu í byrjun apríl 2016.

Á síðasta ári myrti lögreglan 307 manns í Ríó de Janeiro sem telur til eins af hverjum fimm morðum sem framin voru í borginni. Yfirvöld hafa brugðist þeirri skyldu sinni að draga hina seku til ábyrgðar og hafa í auknum mæli tekið upp harðlínustefnu gegn mótmælum á götum úti sem að mestu hafa farið friðsamlega fram.

Þrátt fyrir fögur fyrirheit um örygga borg í aðdraganda Ólympíuleikanna hefur morðum af hálfu lögreglu stöðugt fjölgað í gegnum árin í Ríó de Janeiro. Margir hafa særst alvarlega þegar lögregla beitir vopnum sem valda skyntruflunum, gúmmískotum og jafnvel skotvopnum gegn mótmælendum. Morð af hálfu lögreglu hafa fram til þessa ekki verið rannsökuð, ströng þjálfun og skýr fyrirmæli um noktun á vopnum hefur ekki verið innleidd og yfirvöld meðhöndla mótmælendur eins og óvini ríkisins. Á næstu 100 dögum í aðdraganda Ólympíuleikanna er margt sem yfirvöld og skipuleggjendur leikanna geta og verða að hrinda í framkvæmd til að tryggja að öryggisráðstafanir brjóti ekki gegn mannréttindum. Lögregla Ríó de Janeiro verður að grípa til varúðarráðstafana í tengslum við öryggi borgaranna í stað þess að beita aðferðinni „skjótum fyrst, spyrjum síðar“.  

Gífurleg aukning hefur orðið á óhóflegri valdbeitingu lögreglu í Ríó de Janeiro á undanförnum árum og er meirihluti fórnarlambanna ungir svartir menn úr fátækrahverfum Brasilíu. Þegar heimsmeistaramótið í knattspyrnu var haldið í Brasilíu árið 2014 myrti lögreglan 580 manns, 40% aukning frá árinu 2013. Árið 2015 var talan komin upp í 645 manns sem lögreglan felldi.

Enda þótt ekki sé mögulegt að tengja þessa aukningu á morðum af hálfu lögreglu beint við undirbúning Ólympíuleikanna, þá sýnir tölfræðin skýrt mynstur óhóflegrar valdbeitingar, ofbeldis og refsileysis sem einkennir opinberar öryggisstofnanir landsins. Þá er aukningin sem varð á morðum sem lögreglan framdi í Ríó de Janeiro árið 2014 þegar heimsmeistaramótið fór fram skýr vísbending um hættuna sem er fyrir hendi á frekari brotum í tengslum við lögregluaðgerðir og öryggisráðstafanir í aðdraganda Ólympíuleikanna.

Flest morðin eiga sér stað í Ríó de Janeiro þar sem Ólympíuleikarnir fara fram. 

Í ágúst 2015 gaf Amnesty International út skýrsluna, You Killed My Son: Homicides Committed by Military Police in the City of Rio de Janeiro, sem fjallar m.a. um skotgleði lögreglunnar í fátækrahverfinu Acara í kjölfar heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu árið 2014. Sterkar vísbendingar um aftökur án dóms og laga koma fram í skýrslunni en sem dæmi voru níu af tíu morðum sem framin voru í fátækrahverfinu Acari árið 2014 á ábyrgð herlögreglu. Þrátt fyrir þrýsting af hálfu almennings og þá staðreynd að lögreglumorðin voru afhjúpuð hefur enginn verið látinn sæta ábyrgð á morðunum. Svo lengi sem refsileysi ríkir mun vítahringur ofbeldis og morða af hálfu lögreglu halda áfram að vera við lýði.

Amnesty International telur það mikið áhyggjuefni að morð af hálfu lögreglu halda áfram að viðgangast á degi hverjum í Ríó de Janeiro og öðrum borgum Brasilíu og viðbrögð stjórnvalda eru enn með öllu ófullnægjandi.

Annað áhyggjuefni samtakanna er bæling mótmæla í aðdraganda Ólympíuleikanna. Tveimur árum eftir að heimsmeistaramótið í knattspyrnu var haldið, þegar Amnesty International fordæmdi óhóflega valdbeitingu lögreglu gegn mótmælendum, hafa engar ráðstafanir verið gerðar af hálfu stjórnvalda til að koma í veg fyrir frekara lögregluofbeldi. Í reynd lýtur eina nýja reglugerðin um öryggi borgaranna í kringum Ólympíuleikana að löggjöf í baráttunni gegn hryðjuverkum. Stjórnvöld gætu hæglega nýtt þá löggjöf til að hafa hemil á og refsa mótmælendum. 

LYKILSTAÐREYNDIR OG TÖLFRÆÐI

Lögreglumenn voru ábyrgir fyrir einu af hverju fimm morðun í Ríó de Janeiro árið 2015.

Að minnsta kosti 11 einstaklingar voru myrtir í lögregluaðgerðum fyrstu þrjár vikurnar í apríl 2016.

Þann 2. apríl 2016 var 5 ára drengur myrtur og tveir aðrir særðust í lögreglu- og heraðgerð í Magé-héraði sem tilheyrir Ríó de Janeiro. Þann 4. apríl voru fjórir einstaklingar myrtir í Acari, fátækrahverfi norður af Ríó de Janeiro, þegar lögregla stóð þar fyrir aðgerðum. Sama dag var ungur maður myrtur af lögreglu í fátækrahverfinu Manguinhos. Þann 7. apríl voru a.m.k. sjö einstaklingar myrtir í lögregluaðgerð í Jacerezinho. Dagana 16. og 17. apríl leiddi stórfelld lögregluaðgerð í Alemão til dauða tveggja íbúa og níu aðrir særðust eftir skothríð lögreglumanna sem stóð samfleytt í 36 klukkustundir. Þann 23. apríl lét leigubílstjóri lífið í kjölfar aðgerða hersins.

Það sem af er árinu 2016 hafa morð af hálfu lögreglu aukist um 10% í Ríó de Janeiro miðað við sama tímabil í fyrra.

Morð af hálfu lögreglu í Ríó de Janeiro hefur aukist um 54% á tveimur árum.

Árið 2014 þegar Brasilía hélt heimsmeistaramótið í knattspyrnu leiddu aðgerðir lögreglu til morða á 580 einstaklingum í Ríó de Janeiro sem er 40% aukning frá árinu 2013. Árið 2015 hélt sama þróunin áfram en þá létust 645 einstaklingar í lögregluaðgerðum sem er 54% aukning á tveimur árum.

Lög gegn hryðjuverkum: Þúsundir aðgerðasinna og mótmælenda eiga handtöku á hættu eftir að brasilísk stjórnvöld samþykktu ný lög gegn hryðjuverkum. Lögin sem samþykkt voru í febrúar 2016 eru ógn við mótmælendur og samfélagslegar hreyfingar þar sem þau gera aðgerðir sem tengjast réttinum til fundafrelsis refsiverðar.

Handtaka í mótmælum í aðdraganda heimsmeistaramótsins.

Rafael Braga, sem handtekinn var í mótmælum þann 20. júní árið 2013 og dæmdur til fimm ára fangelsisvistar situr enn á bak við lás og slá. Rafael hélt á flösku sem innihélt hreingerningarvökva og var dæmdur fyrir að bera sprengiefni, þrátt fyrir að rannsókn leiddi í ljós að efnið sem hann hafði meðferðis væri ekkert skylt sprengiefnum. Mál Rafael Braga var skráð í skýrslu Amnesty International, „They use a strategy of fear“.

Engar reglugerðir hafa verið mótaðar í tengslum við noktun á vopnum sem þykja síður bannvæn og engin ströng þjálfun eða viðmið um val og prófanir á slíkum vopnum hefur átt sér stað.

Umrædd vopn, þeirra á meðal gúmmíkúlur, táragas og vopn sem valda skyntruflunum, hafa mikið verið notuð í Brasilíu til að bæla niður friðsöm mótmæli. Misnotkun þessara vopna, sem oft leiðir til ónauðsynlegrar og óhóflegrar valdbeitingar og veldur ósjaldan alvarlegu líkamstjóni, hefur víða verið skjalfest í skýrslum Amnesty International m.a. skýrslunni, „They use a strategy of fear“.

Þúsundir hermanna og herlögreglu hafa verið sendir á vettvang í íbúðahverfum.

Árið 2014, í tengslum við heimsmeistaramótið í knattspyrnu, var brasilíski herinn sendur á vettvang í fátækrahverfið Maré í Ríó de Janeiro. Þúsundir hermanna og herlögreglu héldu kyrru fyrir í hverfinu í rúmt ár og tilkynnt var um margvísleg gróf brot og illa meðferð af þeirra hálfu, eins og mál Vitor Santiago Borges, 30 ára, sem var skotinn af hernum á síðasta ári þegar hann var á leið inn í hverfið ásamt vinum sínum. Vitor missti hluta af fótlegg eftir að herlögregla hóf skothríð á bifreið sem hann var farþegi í.

Brasilía: Morðbylgja af hálfu lögreglu vekur ótta í fátækrahverfum í aðdraganda Ólympíuleikanna

| Sandkassinn |
About The Author
- Ritstjórn