david-thor-prestur

Sr Davíð Þór Jónsson, Héraðsprestur í Austurlandsprófastsdæmi, segir hryðjuverk vera hroðalegan glæp, óháð því hver sé ábyrgur. Þar megi ekki gera neinn greinarmun, hvort sem íslamskir eða hægri öfgamenn eigi hlut að máli.

Þetta kemur fram í nýrri grein á vefsíðu Davíðs Þórs. Hann segir “Brussel eru höfuðstöðvar Evrópusambandsins og borgin því táknræn höfuðborg Evrópu og vestrænna gilda um frjálst samfélag. Hryðjuverkaárásunum í Brussel er auðvitað beint gegn þeim með hnitmiðuðum hætti. Þær ber að fordæma eins eindregið og kostur er.”

morð og ofbeldi eru aldrei réttlætanleg. Enginn málstaður er nógu góður til að afsaka slíkt. Hryðjuverk eru hroðalegur glæpur, óháð því hver er ábyrgur. Þar má ekki gera neinn greinarmun, hvort sem íslamskir eða hægri öfgamenn eiga hlut að máli.

 

Þá víkur Davíð Þór að öllum þeim múslimum sem ekki tengjast hryðjuverkum á nokkurn hátt og varar við því að samfélagið ali af sér hrædda islamska karlmenn sem eru hataðir og fyrirlitnir af samfélagi sem jaðarsetur þá:

Á þessari stundu er mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því að sá fjórðungur mannkyns sem játar islam ber ekki ábyrgð á hryðjuverkum. Ábyrgðin er tiltölulega fárra vitfirringa.

Enn mikilvægara er að við gerum okkur grein fyrir því að tíu ára drengurinn í Hólabrekkuskóla – sem grætur sig í svefn á kvöldin af því að hann er lafhræddur; af því að hann fer ekki varhluta af hatursáróðrinum sem stanslaust er hellt yfir hann og fjölskyldu hans vegna trúar þeirra og uppruna – er ekki heldur ábyrgur fyrir þeim.

Það er á okkar ábyrgð að láta hann og fjölskyldu hans finna að þau eru örugg og óhult á Íslandi, að allir sem virða reglur samfélagsins eru velkomnir og viðurkenndir óháð trú og uppruna.

Öðrum kosti elur samfélag okkar af sér unga, hrædda islamska karlmenn sem eru hataðir og fyrirlitnir af samfélagi sem jaðarsetur þá og þeir hata og fyrirlíta á móti.

Þannig verjum við okkur ekki fyrir hryðjuverkum.

Þannig köllum við þau yfir okkur.

 

 

 

Davíð Þór varar við hatursáróðri

| Sandkassinn |
About The Author
- Ritstjórn