D Ó M U R

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 10. júní 2016 og dómtekið að lokinni aðalmeðferð 18. janúar 2017. Stefnandi er Pétur Gunnlaugsson, Efstaleiti 12, Reykjavík. Stefnda er Þorbjörg Lind Finnsdóttir, Melabraut 44, Seltjarnarnesi.

Stefnandi krefst þess að eftirfarandi ummæli og mynd sem birtust á Facebook-síðu stefndu 5. apríl 2016, verði dæmd dauð og ómerk: ,,Pétur Gunnlaugsson er kúkur mánaðarins.“ og teiknuð mynd þar sem andlitsmynd af stefnanda birtist sem afturendi á skepnu undir yfirskriftinni ,,Pétur Gunnlaugsson er kúkur mánaðarins.“ Þess er einnig krafist að stefnda verði dæmd til refsingar vegna ofangreindra ummæla og myndbirtingar auk þess sem hún greiði stefnanda miskabætur að fjárhæð 4.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 13. júní 2016 til greiðsludags. Þá er þess krafist að stefnda greiði stefnanda 200.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá sama degi til greiðsludags til að standa straum af kostnaði af birtingu forsendna og niðurstöðu dóms í fjölmiðlum. Stefnandi krefst einnig málskostnaðar.

Stefnda krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda, til vara að hafnað verði kröfu um greiðslu miskabóta og kostnað við birtingu dóms, en til þrautavara að dómkröfur verði lækkaðar verulega. Hún krefst einnig málskostnaðar.

 

Yfirlit málsatvika

Atvik málsins eru ágreiningslaus um það sem máli skiptir fyrir úrlausn þess. Hinn 5. apríl 2016 deildi stefnda hlekk á fésbókarsíðu sinni sem vísaði á undirsíðu á vefnum sandkassinn.com. Hlekkurinn birtist á fésbókarsíðu stefndu í formi forskoðunar á því efni sem vísað var til á síðunni. Birtist þannig andlitsmynd af stefnanda sem hafði verið skeytt saman við afturenda á asna með fyrirsögninni ,,Pétur Gunnlaugsson er kúkur mánaðarins“, en við færslu sína hafði stefnda sjálf ritað orðin ,,ha ha ha“.

Á síðunni, sem hlekkurinn vísaði til, var að finna óundirritaðan pistil sem bar heitið ,,Pétur Gunnlaugsson er kúkur mánaðarins“. Þar segir eftirfarandi: „Að þessu sinni er kúkur mánaðarins Pétur Gunnlaugsson, útvarpsmaður á Útvarpi Sögu. Framkoma hans í garð flóttamanna og samkynhneigðra í innhringitímum er viðbjóður og ber öllum viðmælendum saman um það. Pétur Gunnlaugsson æsir illa upplýsta innhringjendur til andstöðu við minnihlutahópa og þrátt fyrir að vera menntaður lögfræðingur og ágætlega að sér í ýmsum málum, þá gerir hann svo til enga tilraun til að leiðbeina eða hafa fyrir fyrir hlustendum eða stöðva ljótan róg í garð fólks. Ef innhringjandi er ekki haldinn sömu dómhörku og mannfyrirlitningu og Pétur, þá tekur Pétur jafnan af honum orðið og messar yfir viðkomandi, eða leggur á. Pétur Gunnlaugsson ásamt Arnþrúði Karlsdóttur hefur haldið þeirri fabúleringu á lofti að búið sé að opna Ísland fyrir flóttafólki og að bráðlega verði orðið hér ófremdarástand. En staðreyndin er að rúmlega 600 flóttamenn hafa komið til landsins frá árinu 1960.“ Með pistlinum fylgdi sú mynd sem fyrr er getið.

Stefnandi kveðst fyrst hafa fengið fréttir af því að stefnda hafi deilt umræddum hlekk á fésbókarsíðu sinni 5. apríl 2016. Hinn 13. maí 2016 sendi hann stefndu bréf þar sem krafist var að stefnda drægi ummæli sín til baka og bæðist afsökunar á þeim og myndbirtingunni á sama vettvangi. Þá var einnig krafist miskabóta vegna ummælanna að fjárhæð 4.000.000 króna. Hinn 21. sama mánaðar sendi lögmaður stefndu svarbréf þar sem beðist var afsökunar. Jafnframt var þess getið í svarbréfi lögmannsins að ummælin og myndina væri ekki lengur að finna á fésbókarsíðu stefndu. Hins vegar var því hafnað að verða við kröfu stefnanda um greiðslu miskabóta eða birtingu afsökunarbeiðni á sama vettvangi. Taldi stefnda sig ekki geta dregið umrædd ummæli til baka, þar sem hún hafði ekki viðhaft þau sjálf heldur einungis deilt þeim.

Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi aðilaskýrslu auk þess kom Arnþrúður Karlsdóttir útvarpsstjóri fyrir dóminn sem vitni.

 

Helstu málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi telur að umrædd mynd og texti feli í sér ærumeiðingar og aðdróttanir sem bornar voru opinberlega út gegn betri vitund samkvæmt ákvæðum 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Stefnandi telur stefndu hafa ráðist að mannorði sínu án alls tilefnis og án þess að stefnandi hafi verðskuldað slíka árás af hálfu stefndu. Stefnandi telur ærumeiðingar stefndu í sinn garð hafa eingöngu haft þann tilgang að særa og meiða til að verða virðingu sinni til hnekkis. Stefnandi bendir á að um var að ræða raunverulega andlitsmynd af stefnanda sem felld var inn í afturenda á skepnu og stefnandi kallaður „kúkur mánaðarins“. Stefnandi telur árás stefndu á sig svívirðilega þar sem hún dreifði myndinni og textanum meðal annars til fésbókarvina sinna með margföldunaráhrifum. Stefnandi telur athæfi stefndu mjög meiðandi og særandi og ekki eiga neitt erindi við almenning, enda þjóni það engum öðrum tilgangi en að særa og meiða stefnanda. Stefnandi telur hér um að ræða grafalvarlega árás á æru og mannorð sem stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá ómerkt.

Stefnandi hafnar því að téð birting feli í sér gildisdóm sem varði ekki við 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga. Vísar hann til þess að dómstólar, meðal annars Mannréttindadómstóll Evrópu, hafi litið til þess að gildisdómar megi ekki vera óþarflega móðgandi eða meiðandi án tilefnis. Við munnlegan málflutning lýsti stefnandi því yfir að hann teldi sig ekki umdeilda opinbera persónu. Hann þyrfti því ekki að sæta óvæginni orðræðu í sinn garð, líkt og talið hafi verið eiga við um slíkar persónur í dómaframkvæmd.

Krafan um ómerkingu er byggð á 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga. Myndin og ummælin eru óviðurkvæmileg í skilningi ákvæðisins. Nauðsynlegt sé að ómerkja ummælin enda séu þau til þess fallin að vega alvarlega að æru stefnanda.

Stefnandi telur jafnframt að skilyrði séu fyrir hendi til að stefnda verði látin bera refsiábyrgð á framangreindum ummælum. Vísar stefnandi til þess að skilyrði almennra hegningarlaga séu uppfyllt og styður refsikröfu sína við 1. og 2. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga, enda hafi stefnda haft í frammi aðdróttun gegn betri vitund og birt opinberlega. Til vara byggir stefnandi á því að 234. og 235. gr. laganna eigi við.

Kröfuna um miskabætur styður stefnandi við b-lið 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, enda ummælin ólögmæt meingerð gegn æru og persónu stefnanda. Ljóst sé að slík meingerð, sem dreift er víða á netinu án tilefnis, sé til þess fallin að vekja upp, virkja og æsa upp hatur í garð stefnanda. Myndbirtingin og ummælin hafi verið svívirðileg og ekki á neinn hátt þáttur í almennri þjóðfélagsumræðu. Myndin og ummælin séu til þess fallin að valda álitshnekki og andlegri áþján. Telur stefnandi kröfuna um 4.000.000 króna í miskabætur miðað við allar aðstæður sanngjarna og réttmæta. Stefnandi krefst þess að þær fjárkröfur sem gerðar eru í málinu beri dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá því að mánuður var liðinn frá birtingu kröfubréfs stefnanda hinn 13. maí 2016, sbr. 9. gr. laganna.

 

 

Helstu málsástæður og lagarök stefndu

Stefnda byggir á að í löggjöf og dómaframkvæmd hafi einstaklingum verið veitt mjög rúmt svigrúm til tjáningar í nafni tjáningarfrelsis, hvort sem tjáningin snúi að mönnum eða málefnum. Rétturinn til tjáningar sé varinn af 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. einnig 2. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Í síðarnefnda ákvæðinu segi að réttur til tjáningarfrelsis skuli jafnframt ná yfir frelsi til að hafa skoðanir, taka við og skila áfram upplýsingum og hugmyndum heima og erlendis án afskipta stjórnvalda. Með afskiptum stjórnvalda sé m.a. átt við inngrip dómstóla. Réttur þessi sé, samkvæmt dómafordæmum Mannréttindadómstóls Evrópu, sérlega ríkur og mikilvægur í lýðræðissamfélagi, sérstaklega þegar um er að ræða málefni sem telja má að eigi erindi við almenning og geti talist innlegg í samfélagsumræðuna.

Stefnda byggir einnig á að tjáningarfrelsið takmarkist af þeim undantekningum sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. einnig 2. mgr. 10. gr. MSE. Samkvæmt ítrekuðum dómafordæmum beri að túlka þessar undanþágur frá meginreglunni um tjáningarfrelsi mjög þröngri skýringu. Allar takmarkanir á tjáningarfrelsi beri að rökstyðja með sannfærandi hætti. Þannig megi, samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga nr. 62/1994 og dómafordæmum, einungis takmarka tjáningarfrelsi ef nauðsyn ber til í lýðræðislegu samfélagi. Orðið „nauðsyn“ í þessu sambandi hafi verið túlkað sem „knýjandi þjóðfélagsleg nauðsyn“.

Stefndi telur að við mat á kröfum stefnanda í þessu máli beri að hafa framangreind sjónarmið að leiðarljósi og gæta þess að takmarka ekki tjáningarfrelsi stefndu, nema telja megi að slíkt sé mjög brýnt og nauðsynlegt. Með tilliti til umkvörtunarefna stefnanda fari því fjarri að með ummælunum hafi verið gengið þannig á réttindi stefnanda að telja megi að stefnda hafi í umfjöllun sinni farið út fyrir mörk tjáningarfrelsisins, svo að nauðsynlegt og réttlætanlegt sé að skerða tjáningarfrelsi hennar og tjáningarfrelsi almennt, með þeim hætti sem felst í kröfum stefnanda.

Stefnda telur enn fremur að við mat á mörkum tjáningarfrelsisins komi einnig inn í myndina að stefnandi hafi sem útvarpsmaður verið áberandi þátttakandi í þjóðmálaumræðu og sé sem slíkur afar umdeildur. Máli sínu til stuðnings vísar stefnda til þess pistils sem hún deildi á fésbókarsíðu sinni og áður greinir.

Stefnda leggur áherslu á að fyrir liggi skýr dómafordæmi bæði frá Hæstarétti Íslands og Mannréttindadómstól Evrópu um að með þátttöku í opinberri umræðu, sérstaklega þegar sá sem ummæli beinast að tekur þátt í þeirri umræðu með einörðum hætti og að mati sumra með óviðeigandi ummælum, að þá rýmkist um tjáningarfrelsið frá því sem ella hefði verið. Málflutningur stefnanda í útsendingum Útvarps Sögu hafi verið með þeim hætti, að hann hafi gefið aukið svigrúm til andsvara. Hin umþrætta setning hafi verið myndlíking og hafi með henni verið að vísa til þess sem kæmi frá stefnanda í ræðu og riti. Jafnframt hafi setningin falið í sér gildisdóm sem hvorki verði sannaður né afsannaður. Vísar stefnda þessu til stuðnings til dóma Hæstaréttar Íslands og Mannréttindadómstóls Evrópu.

Stefnda telur kröfu stefnanda um ómerkingu á ofangreindum ummælum byggjast á grundvallarmisskilningi um hvað teljist til ærumeiðandi ummæla í skilningi íslenskra laga og dómaframkvæmdar og hvað telst til gildisdóma. Engin efni séu til að ómerkja með dómi tilvitnuð ummæli, enda rúmist þau vel innan marka tjáningarfrelsis stefndu. Beri því að hafna kröfu stefnanda um að takmarka stjórnarskrárvarið tjáningarfrelsi stefndu.

Stefnda hafnar því að hafa framið ólögmæta meingerð gegn stefnanda með umfjöllun um hann, sbr. b-lið 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, enda hafi umfjöllunin ekki brotið gegn ákvæðum 234. né 235. gr. almennra hegningarlaga. Stefnandi hafi heldur ekki sýnt fram á né leitt að því minnstu líkur að umrædd umfjöllun hafi eða geti hafa skaðað hagsmuni stefnanda á einhvern hátt. Stefnandi verði að sanna að hann hafi orðið fyrir miska og í hverju hann sé fólginn, sem og að háttsemi stefnanda hafi verið saknæm, en ekki sé gerð minnsta tilraun til þess í stefnu að færa sönnur á slíkt. Stefnda telur því engin efni til að fallast á kröfu stefnanda um miskabætur. Verði fallist á kröfu stefnanda um ómerkingu einhverra ummæla krefst stefnda þess að miskabótakröfunni verði engu að síður hafnað.

Stefnda hafnar alfarið kröfu stefnanda um greiðslu kostnaðar vegna birtingar dóms í málinu. Krafan sé í engu rökstudd í stefnu eða með gögnum. Engin efni séu til að verða við þessari kröfu stefnanda. Stefnda telur ekki aðra ályktun verða dregna, en að birting þessa dóms í fjölmiðlum myndi ganga gegn þeim hagsmunum sem stefnandi telur sig vilja vernda með málshöfðuninni.

Til vara krefst stefnda þess, ef einhver ummæli verða ómerkt og talið verður að efni séu til að fallast á kröfu um miskabætur, að miskabótakrafa stefnanda verði lækkuð verulega. Verulega ósanngjarnt yrði að gera stefndu að greiða háar miskabætur vegna umfjöllunarinnar, jafnvel þótt ummælin yrðu dæmd ómerk, þegar það er haft í huga að stefnda deildi þessari mynd af netmiðli sem ekki hefur verið stefnt vegna þessa. Dreifingin af fésbók stefndu hafi verið ákaflega takmörkuð í ljósi þess að deilingin varði í skamman tíma og að „vinir“ stefndu á fésbók eru fáir. Dreifingin hafi því verið óveruleg í samanburði við þá útbreiðslu sem hún fékk af upphaflega hlekknum. Stefnda telur að stefnandi fengi hlut sinn réttan með fullnægjandi hætti, færi svo ólíklega að fallist yrði á ómerkingu ummælanna. Stefnda ítrekar að ekkert liggi fyrir um miska stefnanda og krafan sé með öllu órökstudd, en hún sé mun hærri en miskabætur sem dæmdar hafi verið í sambærilegum málum á umliðnum árum.

 

Niðurstaða

Í málinu er ágreiningslaust að stefnda var ekki höfundur að þeirri mynd og texta sem vísað er til í kröfugerð stefnanda. Hins vegar liggur fyrir að stefnda deildi áðurgreindum hlekk og kom myndin því fram á vegg fésbókarsíðu hennar auk upphafsorða þess pistils sem var í heild sinni að finna á undirsíðu áðurgreinds vefs. Var textann og myndina þarna að finna þar til stefnda eyddi færslunni síðar. Eins og málið liggur fyrir er þýðingarlaus ágreiningur aðila um hversu lengi nákvæmlega færslan stóð á fésbókarsíðu stefndu.

Að mati dómsins fól umræddur texti, svo og áðurlýst mynd, ekki í sér aðdróttun um tiltekna háttsemi eða eiginleika stefnanda þannig að unnt sé að fella háttsemina undir verknaðarlýsingu 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Getur því einungis komið til skoðunar hvort stefnda hafi borið út móðgun svo að varði við 234. gr. hegningarlaga. Við skýringu þess ákvæðis verður hins vegar að líta til þess að tjáningarfrelsi stefndu er verndað með 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 11. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. samnefnd lög nr. 62/1994. Samkvæmt 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar geta takmarkanir á tjáningarfrelsinu meðal annars helgast af nauðsyn þess að vernda mannorð annarra, sbr. einnig 2. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Fer ekki á milli mála að fyrrgreint ákvæði hegningarlaga hefur vernd mannorðs eða æruvernd að markmiði. Samkvæmt ákvæðunum verður hins vegar einnig, við mat á því hvort takmörkun á þessum grundvelli teljist heimil, að horfa til þess hvort takmörkun sé nauðsynleg og samrýmist lýðræðishefðum. Getur áðurlýst háttsemi stefndu aðeins fallið undir fyrrgreint ákvæði hegningarlaga að því marki sem hún fól ekki í sér tjáningu sem nýtur verndar sem grundvallarréttar samkvæmt þessum viðmiðum stjórnarskrár og mannréttindasáttmála.

Við mat á því hvort skýra beri fyrrnefnt ákvæði hegningarlaga, í ljósi fyrrgreindra krafna stjórnarskrár og mannréttindasáttmála, á þá leið að það taki til áðurlýstrar háttsemi stefndu verður að skoða hin umstefndu ummæli og mynd í því samhengi sem þau voru sett fram. Líkt og áður greinir deildi stefnda í raun hlekk sem vísaði á heimasíðu, þar sem var að finna pistil með því heiti, sem stefnandi telur vega gegn æru sinni. Þótt hugsanlega megi skilja færslu stefndu á þá leið að henni hafi einfaldlega þótt téð mynd og áðurgreindur texti fyndinn, verður allt að einu að túlka háttsemina á þá leið að stefnda hafi með ákveðnum hætti tekið undir efni þess pistils sem hún deildi eða a.m.k. talið ástæðu til þess að aðrir kynntu sér efni hans.

Eins og áður er rakið rekur pistlahöfundur í umræddum pistli skoðun sína á framkomu og ummælum stefnanda sem fjölmiðlamanns í þeim spjallþáttum sem hann stýrir í útvarpi þar sem hin ýmsu þjóðfélagsmál eru til umræðu. Ekki er um það deilt að pistillinn var birtur á vefmiðli, sem var opinn án endurgjalds, hverjum þeim sem kaus að kynna sér hann. Þótt umræddur texti og mynd hafi augsýnilega haft það að markmiði að lítillækka stefnanda með spotti og háði, verður ekki fram hjá því litið að hvort tveggja var þáttur í þjóðfélagsumræðu sem stefnandi hefur tekið virkan þátt í á opinberum vettvangi. Var því í reynd um að ræða neikvæðan gildisdóm um stefnanda og framlag hans til téðrar þjóðfélagsumræðu án þess að dróttað væri að tiltekinni háttsemi eða eiginleikum stefnanda, svo sem þegar hefur verið slegið föstu.

Þótt á það verði fallist með stefnanda að ekki sé útilokað að gildisdómar geti varðað refsingu sem móðganir samkvæmt 234. gr. hegningarlaga, verður engu að síður að leggja til grundvallar að stefnda hafi við fyrrgreindar aðstæður haft ríkulegt svigrúm til að tjá skoðun sína á stefnanda samkvæmt fyrrgreindu ákvæði stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu eða koma skoðunum annarra um þetta efni á framfæri. Er þá litið til þess að efni umrædds pistils laut beinlínis að framlagi stefnanda til þjóðfélagsumræðu, sem hann sjálfur var virkur þáttakandi í, en ekki að einkalífi stefnanda eða öðrum óskyldum atriðum. Leggja verður til grundvallar að frjáls skoðanaskipti og opinn umræða um þjóðfélagsmál sé einn af hornsteinum lýðræðislegs þjóðfélags, jafnvel þegar um er að ræða tjáskipti sem kunna að vera móðgandi eða valda hneykslan. Að öllu þessu virtu er því ekki hægt að fallast á að í tilviki stefndu hafi verið um að ræða tjáningu sem nauðsyn ber til að takmarka í lýðræðislegu þjóðfélagi, sbr. 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrár og 2. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Samkvæmt öllu framangreindu verður háttsemi stefndu hvorki felld undir 234. né 235. gr. hegningarlaga eins og verknaðarlýsing þessara ákvæða verður skýrð til samræmis við fyrrgreind ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu. Verður stefnda því sýknuð af öllum kröfum stefnanda.

Eftir úrslitum málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnandi dæmdur til að greiða stefndu málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 800.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Stefnandi, sem er héraðsdómslögmaður, flutti mál sitt sjálfur.

Af hálfu stefnda flutti málið Sveinn Andri Sveinsson hrl.

Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

 

 

D Ó M S O R Ð

Stefnda, Þorbjörg Lind Finnsdóttir, er sýkn af öllum kröfum stefnanda, Péturs Gunnlaugssonar.

Stefnandi greiði stefndu 800.000 krónur í málskostnað.

 

Skúli Magnússon

 

Dómur

Stefnda byggir einnig á að tjáningarfrelsið takmarkist af þeim undantekningum sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. einnig 2. mgr. 10. gr. MSE. Samkvæmt ítrekuðum dómafordæmum beri að túlka þessar undanþágur frá meginreglunni um tjáningarfrelsi mjög þröngri skýringu. Allar takmarkanir á tjáningarfrelsi beri að rökstyðja með sannfærandi hætti.