kukur-manaarins-peturBjörgvin Mýrdal skrifar –

Ég hvet Pétur eindregið til að leggja fram kæru gegn Gunnari. Ef Pétur sannlega trúir því að vegið hafi verið að æru hans, þá á þetta klárlega heima á borði dómara. Er það ekki annars hefðin? Ég veit samt ekki hvort Pétri komi til með að líða eitthvað betur þó einhver dómari úrskurði honum í hag. Og þó? Að logið sé svona óforvandis uppá fólk, og æra þeirra svívirt, er auðvitað algjörlega ólíðandi. Pétur er sjálfsagt enginn kúkur mánaðarins. Ekki einu sinni kúkur dagsins né hvað þá líðandi stundar. Það ættu allir að sjá það, í það minnsta lögfræðilega og líffræðilega á litið! Heimspekilega séð gæti það kannski verið tvísýnt. Varnarlausir menn hafa nú verið sakaðir um verri hluti en þetta. Jafnvel kallaðir glæpamenn og ofbeldishrottar opinberlega á öldum ljósvakans. Og sumir ítrekað.

En burtséð frá því þá væri máski eðlilegra og einfaldara að Pétur liti sér nær, hugsanlega léti kjurt liggja, fyrirgæfi að kristnum sið, sýndi visku og skynsemi, en hiklaust nýtt sér þess í stað hina skelfilegu og skítlegu persónuárás, hið bókstaflega ofbeldi, sem lærdóm um að aðgát skal höfð í nærveru sálar. Allra sála! Skiptir þá engu hvort um sé að ræða réttsýna og hámenntaða íslenska lögfræðinga honum líkum eða óþekkta stríðshrjáða flóttamenn sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér. Æra allra ætti að vera jafn mikils virði. Það mundi ég allavega halda.

Þessar vangaveltur mínar eru þrátt fyrir allt lítið annað en skoðanir ólöglærðs leikmanns, en Pétri er frjálst að hugleiða þær og nota að vild. Hunsa alfarið, mögulega, ef honum sýnist svo. Eflaust er Pétur frekar á þeim buxunum að betra sé láta dómstóla skera úr um þetta. Já, ég er ekki frá því að það sé best. Pétur gæti þá fengið það skjalfest frá hávirðulegum dómara að hann sé ekki alls ekki kúkur. Bara alls ekki, takk fyrir. Og þá gæti hann veifað því plaggi eins og óður maður framan í næsta mann sem reynir að halda slíku fram!

Viðbrögð við: Pétur á Útvarpi Sögu vill milljónir vegna kúkabrandara

Ég hvet Pétur eindregið til að leggja fram kæru gegn Gunnari

| Greinar |
About The Author
- Ritstjórn