Enn sem oftar, lenti ég nýlega í því að þurfa yfirgefa samkvæmi vegna þess að umræðurnar fóru að snúast um félagsleg málefni. Í þetta sinn voru það kvenréttindi og ég sat til móts við nokkra stráka sem fannst það flokkast undir „drama“ að vilja tala um ójafnrétti kynjanna. Svo ég afsakaði mig og sneri mér undan rétt áður en tárin yfirgáfu augnkrókana, og hélt af stað út á götu til að fá mér frískt loft. Ég er vön því að vera kölluð dramadrottning fyrir að tala um breytingar; það var ekki það sem kom mér í uppnám. Það sem braut mig niður var einhver yfirþyrmandi tilfinning um að þetta væri restin af lífinu mínu – að ég muni þurfa berjast fyrir eigin réttlætiskennd það sem ég á eftir ólifað. Og það mun vera þreytandi og skelfilegt og ósanngjarnt, en samt mun ég ekki hætta, þó ég glöð vildi, samviskunnar vegna. Þannig þegar ég kom heim, settist ég niður og skrifaði þessi skilaboð til sjálfrar mín, en þetta er jafnframt opið bréf til allra sem hafa eða munu einhvern tíma tala um óréttlæti fyrir eyrum sem ekki vilja heyra:

“Þú ert ekki dramadrottning fyrir að krefjast réttlætis. Þú ert ekki dramadrottning fyrir að sjá gallana í samfélaginu. Þú ert ekki dramadrottning fyrir að nota rödd þína til góðs.

Frá örófi alda hefur heimurinn verið ruglaður. Græðgi og minnimáttarkennd hafa rekið mannkynið til eyðileggingar, misréttis og haturs. Eina ástæðan fyrir því að við höfum ekki fallið í glötun, er að í gegnum söguna hefur lifað hellingur af réttsýnu fólki sem barðist með kjafti og klóm gegn spillingunni. Ég vil að þú tilheyrir þessum hópi. Ég vil að þú fræðir þig og betrir þig sem manneskju uns þú ert fær um að miðla þekkingunni áfram. Ég veit að þú hefur styrkinn í það, þó þér finnist það ekki alltaf sjálfri/sjálfum.

Þú ert ekki dramadrottning fyrir að krefjast áheyrnar. Þú ert ekki dramadrottning fyrir að sjá kerfisbundna þjáningu. Þú ert ekki dramadrottning fyrir að nota rödd þína til að hjálpa þeim sem hafa enga rödd.

Á ég að segja þér hver er dramadrottning? Þeir eru dramadrottningar sem viðhalda rasisma, sexisma og öðru óréttlæti, vanalega á þeim forsendum „að það sé ekki svona mikið mál“. Því það er auðvelt að vera rólegur meðan tilvera manns og framtíðarhorfur eru ekki í hættu.

Ég vil að þú haldir áfram að æsa þig yfir minnsta misrétti. Ekki biðjast afsökunar. Ekki halda aftur af reiðinni. Ekki vera diplómatísk/ur. Ekki þagna.

Þú ert ekki að þessu fyrir þakklæti. Spjöld sögunnar rúma ekki öll nöfnin okkar. Þú ert bara einn dropi; en dropinn holar steininn.

Ef þú ert dramadrottning, þá ertu dramadrottning til þess að börnin þín þurfi ekki að vera það. Þú ert að berjast fyrir heimi án misréttis, hvort sem það er mögulegt eða ekki, og þann heim ætlar þú að erfa til næstu kynslóða. Þeirra vegna verðurðu að halda áfram.

Ég veit að þetta mun vera ömurlega erfitt líf, og þess vegna verðurðu að muna að fagna litlu sigrunum. Þú ert ekki ein/n í þessu og það er ekki bara á þinni ábyrgð að bjarga heiminum. Hugsaðu vel um sjálfa/n þig svo þú getir hugsað vel um aðra.

Þú ert ekki dramadrottning fyrir að krefjast. Þú ert ekki dramadrottning fyrir að sjá. Þú ert ekki dramadrottning fyrir að nota rödd þína.”

xoxo Sara

*Endurbirt með leyfi höfundar

Latest posts by Sara Mansour (see all)

Ekki Drama Að Krefjast Réttlætis

| Sara Mansour |
About The Author
-