Fyrir Guð og Kóng.

Evrópa, hin mikla hringekja hreyfanlegra landamæra, ólíkrar menningar og tungumála hefur lengi verið gífurlega gráðug og ófyrirleitin. Konungar, drottningar, keisarar, furstar og greifar…og hinar ýmsu krikjur, hafa alla tíð virt þegna sína og annarra að vettugi, og viðhaldið óróa og ófriði, langvarandi deilum og blóðhefndinni, til að tryggja sinn hag.

Styrjöld eftir styrjöld, gegnum aldirnar, kynþáttahreinsanir, útrýmingartilburðir, krydduð grimmilegri aðskilnaðarstefnu trúarbragðanna, sem nær svo hámarki sínu í seinni heimsstyrjöldinni, hafa skilið efir sig heimsálfu sem er enn í sárum. Enn bera menn með sér bæði skömm og hatur síðan á 3. og 4. áratug síðustu aldar, og enn eru kurl að komast til grafar.

Þrátt fyrir ringulreiðina má þó finna rauða þræði gegnum söguna, bergmál og enduróm af atburðum enn lengra aftur í sögu manna, aftur til þess tíma, að litlir hópar manna, sem áður flökkuðu um eltandi árstíðir og bráð, stækkuðu og settust að. Baráttan um brauðið og lífsgæðin, auðlindir umhverfisins, hófst sem slík, en hefur svo tekið á sig búning þjóðernishyggju og aðskilnaðarstefnu. Ættin/klanið sem var allt í öllu, öllu var og fórnandi fyrir, varð að þjóðum. Skyndilega voru það ekki ættartengsl eða blóðbönd sem menn gátu horft í, við mótun á ímynd heildarinnar á sjálfri sér. Nýir hlutir komu til..kóngar og drottningar, guðir og kirkjur, sem ásamt fánum og landamærum, urðu þau viðmið og það andlit sem heildin hefur gert sér upp í stað blóðtengslanna.

Alla tíð hafa menn haft á því skiptar skoðanir, hvort draga eigi þessi mörk öll hér eða þar, og heilu kynslóðunum fórnað á báli sjálfhverfu og afmennskun þeirra sem standa utan hinna nýju viðmiða. Við þykjumst þess umkomin að ákveða gildi annarra manneskja, hlutast til um réttindi þeirra og afkomu, hvort sem er félagslega eða fjárhagslega.

Allir þessir aðgreindu hópar manna, hvort sem þeir skipa sér undir þjóðfána, trúartákn eða skjaldarmerki, standa svo í fullvissu þess, að þeirra sýn ein sé sú rétta, og allir skuli gangast undir það.

Á sama hátt og fjölskyldur fara í fýlu við sína svörtu sauði, og finnst þeir vera öðrum í ættinni til skammar, með oft skelfilegum afleiðingum fyrir viðkomandi sumsstaðar í Asíu nær, (en þó er ekki langt síðan það var útbreiddara, og það í Evrópu líka, og ekki fórum við íslendingar varhluta af því heldur), á sama hátt sumsé, beita nú menn þessum viðmiðum á heilu hópana af fólki, og náði sú hugsun meira að segja að verða að einhversskonar pseudo-vísndum kynþáttahyggjunnar, sem svo leiddu af sér þá hugsun, að til séu hópar fólks, sem ekki eigi að njóta sömu réttinda og aðrir, og sé minna virði en aðrir.

Síðan hafa þessi *vísindi* verið hrakin og skilað aftur til föðurhúsanna….en enn paufast menn með þjóðernis- ogkynþáttahyggju sem viðmið, og sjá ekkert athugavert við að slátra meðbræðrum sínum og -systrum fyrir föðurlandið..fyrir kónginn…fyrir guð.

Verra er þó sinnuleysið og kæruleysið, sem hefur orðið til þess, að þessi öfl hafa fengið byr undir sína vængi á ný. Bæði sjáum við það í formi glæpamanna sem stunda dráp á fólki í nafni *hreinsunar* á trúarlegum grunni og aðskilnaðarstefnu, og öfgamönnum þjóðrembunnar og rasismans, sem stunda dráp og ofsóknir á fólki með sinni aðskilnaðarstefnu.

Báðir eru sama marki brenndir, þjónandi sama herra og með sama markmið. Báðir eru jafnhættulegir fyrir vikið, og ekkert er verra hægt að gera í stöðunni, en að halda áfram með þægindi sinnuleysisins, í þeirri von að *þetta reddist*.
Við eigum í okkar sögu, og það líka nýlegri, augljós merki um að ein af höfuðástæðum þess að þessi öfl aðgreiningar og ofbeldis ná að skapa sér sess, er sinnuleysi hinna…aðgerðarleysið.

Fyrir vikið svömlum við um í hafi af blóði barnanna, sem deyja fyrir heimskulega þvermóðsku foreldra sinna og/eða sinnuleysi þeirra. Þetta snýst um okkar lægstu hvatir, villimannslegt frumeðli, sem á ekkert erindi lengur, og það er umhugsunarvert, að ef fá á fólk til að bregðast við með ofbeldi fyrir föðurlandið, fyrir kónginn, fyrir fánann og guð….þá eru það okkar lægstu hvatir sem lýðskrumararnir höfða til, og það eru þeir veikgeðja sem spyrja ‘hve hátt?’, sé þeim sagt að stökkva….en meðan hinir sitja í þægindum sinnuleysisins, eru það hinir veikgeðja sem stjórna.

Í upphafi, þegar veiðimenn og safnarar frumbernsku samfélags manna settust að, voru það þeir hyggnu sem stjórnuðu, svo einhversstaðar fór eitthvað verulega úrskeiðis.

Í næsta kafla verður kafað örlítið ofan í það.

Haraldur Davíðsson.

Latest posts by Haraldur Davíðsson (see all)

Er nýlendutíminn liðinn? Fyrsti hluti.

| Haraldur Davíðsson |
About The Author
-