Eva Hauksdóttir

Eva er góður penni, henni tekst oft vel upp. Ég ætla að smella hér inn nokkrum tilvitnunum í Evu Hauks á Kvennablaðinu sem ég tek fyllilega undir:

 

Um brjóstabyltinguna segir Eva meðal annars:

“Tveimur dögum eftir að þúsundir kvenna strípluðust á Austurvelli mættu um 50 manns, aðallega flóttakonur og stuðningsfólk þeirra, í ráðhús Reykjavíkur til að  minnast Farkhundu, ungrar konu sem 10 dögum fyrr var barin og grýtt til dauða í Kabúl. Farkhunda var borin röngum sökum um að brenna Kóraninn en hennar raunverulegi „glæpur“ var sá að benda á spillingu valdakarls. Ekki létu brjóstbyltingarkonurnar fimmþúsund sjá sig þar, enda sjálfsagt útkeyrðar eftir átökin við feðraveldið.”

 

Um ásakannir á netinu:

 

Nefndu nöfn og lýstu atburði en ekki kalla það glæp

 

Segðu frá óþægilegri reynslu, óvönduðum vinnubrögðum eða skeytingarlausri framkomu, sem er þó ekki kynferðisbrot. T.d. því að kvensjúkdómalæknir hafi farið með andlitið óþægilega nálægt dýrðinni á þér. Þegar þú segir frá slíkri upplifun í hópi mörg hundruð kvenna sem eru brotnar vegna kynferðisofbeldis eða kynferðislegs yfirgangs, og tuttugu og eitthvað þúsund annarra sem liggja á hleri, eðlilega gagnteknar af viðbjóði, leggja þúsundir þeirra þá merkingu í atburðinn að þarna hafi kynferðisbrot átt sér stað. Maðurinn hafi ekki aðeins verið ófaglegur, heldur hafi hann misnotað aðstöðu sína í kynferðislegum tilgangi. Orðin dónakall og kynferðisafbrot öðlast nýja merkingu.

 

Þessa aðferð má útfæra á ýmsa vegu. Nafngreindu þekktan mann og lýstu því hvernig hann klóraði sér í pungnum í strætó. Nafngreindu mann sem fer í sundlaugina á sama tíma og þú og segðu að þú hafir margsinnis séð hann fara í heita pottinn einmitt á sama tíma og nokkrar 12 ára stelpur.

 

Þú ert ekki að lýsa neinu ólöglegu og þar með ekki að bera neitt á hann sem í lögum er skilgreint sem kynferðisglæpur. Þar með er ekki hægt að lögsækja þig fyrir ærumeiðingar en fólk mun túlka atvikið sem þú lýsir sem kynferðislega áreitni. Maðurinn stimplaður og þú stikkfrí. Snilld.”

Og Eva heldur áfram:

 

“Láttu áheyrandanum eftir að draga ályktanir

 

Vísbendingaaðferðin er einnig snjallræði til að koma upp um þrjótinn án þess að eiga málsókn á hættu. T.d. má droppa upplýsingum um atvinnu, búsetu eða aðrar aðstæður nauðgarans og láta áheyrandanum eftir að draga ályktanir. Tónlistarmaður sem fyrir nokkrum árum flutti jólalag, er hæfilega ljóst til að beina grun að þröngum hópi manna en þú ert samt ekki að birta persónuupplýsingar.

 

Á sama hátt má koma upp um nauðgara með því að segja að hann sé sjómaður sem gerir út frá Grundarfirði, afreksmaður í íþróttum eða áberandi vegna starfa innan kristilegra samtaka.

 

Í þessum tilvikum ertu að lýsa glæp, en þar sem þú ásakar engan sérstakan er ekki hægt að flokka orð þín sem ærumeiðingar. Þeir sem draga rétta ályktun vita hvern þú átt við. Eini gallinn er sá að sumir draga rangar ályktanir og allir sem lýsingin gæti átt við standa álíka berskjaldaðir og áverkalaust nauðgunarfórnarlamb. Ábyrgðin er ekki þess sem talar, heldur þess sem túlkar. Glæsilegt.”

Annars staðar segir Eva:

“Beauty tips byltingin

 

Ekki leið þó langt á milli stríða og næsta „bylting“ fólst í því að „rjúfa þögnina“ með nauðgunarsögum á netinu. Sögurnar einar duga þó ekki til að tryggja kvenfrelsið því íslenskar konur búa við þá hræðilegu kúgun að geta ekki sakað nafngreinda menn um kynferðisglæpi, utan réttarkerfisins, án þess að eiga á hættu málsókn fyrir meiðyrði. Það er helvíti skítt því eins og allir vita eru það aðeins afganskir klerkar sem bera fólk röngum sökum. Slíkt myndi engin kona nokkru sinni gera.

 

Nafnbirtingarbyltingin er enn skammt á veg komin en þó hefur það afrek unnist að búið er að svipta að minnsta kosti einn mann ærunni. Ég veit ekki hvort er réttara að segja „vonandi á hann það skilið“ eða „vonandi á hann það ekki skilið“. Viðkomandi er kvensjúkdómalæknir sem hefur látið af störfum vegna aldurs svo ekki er tilgangurinn  sá að vara konur við honum.

 

Kannski er tilgangurinn með nafnbirtingunni sá sami og tilgangurinn með vísbendingum. Í þessum viðtalsþætti,  í lok klippunnar, kemur fram sú skoðun að vísbendingar sem varpa grun á seka jafnt sem saklausa, þjóni þeim tilgangi að vernda sálarheill þolandans. Hugsunin virðist vera sú að það sé í lagi að bjóða upp á efni í safaríkt slúður ef það flýtir fyrir bata brotaþola. Og ef maður hefur eitthvað út á þessar aðferðir að setja, þá er það „þöggun“.”

Hér er skotið fast og Íslenskir radical femínistar nánast gerðir að fíflum, þessi paródía fer vel við ritstefnu Sandkassans enda er það staðreynd að radical femínisminn og frjálshyggjan, er í hrópandi andstöðu við Black Femisism og mannréttindi ólíkra kynþátta sem og barráttuna gegn almennu misrétti, sem undirritaður aðhyllist undantekningarlaust:

“Biðjum um stuðning

 

Gleymum því svo ekki í byltingarfárinu að konur eru konum bestar og internetið gerir okkur fært að virkja konur í fjarlægum heimshornum til þátttöku og stuðnings. Konur sem 16 ára voru hnepptar í nauðungarhjónabönd og búa við heimilisofbeldi með fullri blessun yfirvalda. Konur sem synjað er um menntun. Konur sem eru afskræmdar eftir sýruárásir nánustu aðstandenda. Konur sem hafa engan sníp að frelsa þar sem hann var skorinn burt með skítugu glerbroti þegar konan var 5 ára.

 

Margar þessara kvenna hafa aðgang að internetinu. Virkjum þær í snatri. Hvetjum þær til að bera á sér brjósthnappana og tísta túrsögum til stuðnings kúguðum kynsystrum sínum á Íslandi.”

Gunnar Waage

Gunnar Waage

- Gunnar Waage er blaðamaður og ritstjóri Sandkassans frá árinu 2013.

Hann er Trommari, Tónskáld og skólastjóri Trommuskólans, fyrrverandi deildarstjóri og einn af stofnendum Tónlistarháskóla G. Martell í Mexíkóborg. Hann lauk burtfararprófi frá McNally Smith College of Music, en duflar við kerfisfræði og er áhugamaður um bardagaíþróttir. Hann rýnir í þjóðfélagsmál og lætur sig flest varða.Hann er einstæður faðir, jafnréttissinni, fjölmenningarsinni og áhugamaður um velferð barna. Starfar við túlkun og þýðingar og fæst við spænskukennslu.


Hann er pistlahöfundur á Kvennablaðinu og var pistlahöfundur á DV en hætti skrifum á DV ásamt fleirum, í þeim tilgangi að sýna blaðamönnum og ritstjórn blaðsins samstöðu í kjölfar yfirtöku á félaginu í September 2014.
Gunnar Waage

Eva Hauksdóttir

| Gunnar Waage |
About The Author
- - Gunnar Waage er blaðamaður og ritstjóri Sandkassans frá árinu 2013. Hann er Trommari, Tónskáld og skólastjóri Trommuskólans, fyrrverandi deildarstjóri og einn af stofnendum Tónlistarháskóla G. Martell í Mexíkóborg. Hann lauk burtfararprófi frá McNally Smith College of Music, en duflar við kerfisfræði og er áhugamaður um bardagaíþróttir. Hann rýnir í þjóðfélagsmál og lætur sig flest varða.Hann er einstæður faðir, jafnréttissinni, fjölmenningarsinni og áhugamaður um velferð barna. Starfar við túlkun og þýðingar og fæst við spænskukennslu. Hann er pistlahöfundur á Kvennablaðinu og var pistlahöfundur á DV en hætti skrifum á DV ásamt fleirum, í þeim tilgangi að sýna blaðamönnum og ritstjórn blaðsins samstöðu í kjölfar yfirtöku á félaginu í September 2014.