Ekkert fyrirtæki á að hagnast á pyndingum eða mannréttindabrotum. Smelltu hérna og krefðu forsvarsmenn spænska fjölþjóðafyrirtækisins Ferrovial um að binda enda á starfsemi sína á Nauru og Manus eins fljótt og kostur er.

Ferrovial er eini hluthafinn í ástralska fyrirtækinu Broadspectrum sem rekur flóttamannabúðirnar á eyjunum Nauru og Manus. Ferrovial græðir milljónir dala í fullri vitund um þær skelfilegu aðstæður sem flóttafólkið og hælisleitendurnir búa við.

Fyrir rúmlega 1000 flóttamenn og hælisleitendur er Nauru eyja örvæntingar. Þangað hafa þeir verið fluttir nauðugir fyrir það eitt að sækja um vernd og öryggi í Ástralíu. Fyrirkomulagið sem áströlsk stjórnvöld hafa komið á laggirnar á Nauru fyrir flóttamenn og hælisleitendur, þeirra á meðal börn, felur í sér slíka grimmd að það jafngildir pyndingum.

„Amir“, 28 ára gamall maður frá Suður-Íran, og eiginkona hans „Yasmin“ ráku rakarastofu í heimalandi sínu en ákváðu að flýja Íran árið 2013, ásamt „Darius“ ungum syni sínum og héldu til Ástralíu þar sem þau vonuðust til að finna frelsi og öryggi. Amir sagði Amnesty International að aðstæðurnar sem þau flúðu hafi verið of hrottafengnar til að hægt væri að segja frá. Fjölskyldan var send til Nauru eyjar í varðhald þar sem hún dvaldi við hræðileg skilyrði. Andleg heilsa Yasmin fór ört hrakandi í varðhaldinu og í nóvember 2015 reyndi hún sína fyrstu sjálfsvígstilraun með því að drekka sápulög. Amir tjáði Amnesty að eiginkona hans hafi ekki glímt við nein geðræn vandamál áður en þau voru send til Nauru. Í mars 2015 varð Darius, fimm ára sonur þeirra, fyrir árás fangavarðar í flóttamannabúðunum sem kastaði grjóti í hóp barna sem vörðurinn taldi hegða sér óhlýðilega. Steinninn hæfði Darius í andlitið með þeim afleiðingum að tennur brotnuðu. „Þetta atvik hafði enn frekari áhrif á konu mína og sonur minn hefur einnig barist við andleg vandamál síðan þá: hann fór að væta rúmið, hætti nánast alveg að tala, fékk martraðir og kvíðaköst. Konan mín þróaði með sér alvarlegan kvíða og tók að taka fleiri lyf en ekkert breyttist. Síðustu mánuði hefur Yasmin bara legið í rúminu…Ég hef þurft að hjúkra bæði konu minni og syni.“ Læknaskýrslur staðfesta þessa frásögn Amir. Hann segir eiginkonu sína hafa haldið áfram tilraunum til að taka líf sitt: „einu sinni með pillum og öðru sinni með kveikjara.“ Í lok maí 2016 var Yasmin bjargað eftir enn eina sjálfsvígstilraunina. Í örvæntingu sinni sagði Amir við Amnesty International, „ég á enga von. Tíminn endar á þessum stað. Ég horfi á son minn og konu sökkva dýpra dag frá degi.“

Ferrovial: Ekki hagnast á þjáningum flóttamanna á Nauru

| Sandkassinn |
About The Author
- Ritstjórn