Frétt frá Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu Þjóðanna

2.maí 2016. Ísland er í nítjánda sæti á listanum um frelsi fjölmiðla sem gefinn er út í aðdraganda Alþjóðadags fjölmiðlafrelsis 3.maí.

Ísland er hið eina Norðurlandanna sem ekki er á topp tíu listanum. Finnland trónir efst en Noregur og Danmörk eru í þriðja til fjórða sæti og Svíþjóða í áttunda sæti. Fréttamenn án landamæra hafa til dæmis gagnrýnt málsókn aðstoðarmanns ráðherra á hendur tveimur blaðamönnum og niðurskurð á útgjöldum til Ríkisútvarpsins.

Fjölmiðlar í heiminum eiga undir högg að sækja víða um og frelsi þeirra er víða skert að mati Fréttamanna án landamæra. Þau segja ástæðu til að hafa áhyggjur af „djúpstæðri og alvarlegri“ skerðingu á frelsi fjölmiðla vegna alræðistilburða stjórnvalda í ríkjum á borð við Tyrklandi og Egyptalandi. Einnig er rík tilhneiging til að herða tök valdhafa á fjölmiðlum í ríkiseigu, jafnvel í Evrópuríkjum á borð við Póllandi. Þá hefur öryggisleysi áhrif á störf fjölmiðla í löndum eins og Líbýu og Burundi.

UNESCO, Mennta-, menningar-, og vísindasamtök Sameinuðu þjóðanna hafa veg og vanda af Alþjóðadegi fjölmiðlafrelsis fyrir hönd Sameinuðu þjóðanna. Finnland hýsir viðburði UNESCO dagana 2.-4. Maí. Irina Bokova, forstjóri samtakanna minnir á að tengsl séu á milli frelsis fjölmiðla og sjálfbærrar þróunar. Þannig sé efling frjálsrar fjölmiðlunar einn liður í Sjálfbæru þróunarmarkmiðunum sem samþykkt voru í september á síðasta ári. Í sextánda markmiðnu er viðurkennd þörfin á að tryggja almenningi aðgang að upplýsingum og vernda grundvallarfrelsi jafn í lagasetningu innanlands sem virðingu fyrir alþjóðlegum samþykktum.

Á tímum upplausnar og breytinga um allan heim, hefur þörfin fyrir hágæða upplýsingar aldrei verið meiri,” segir Irina Bokova, forstjóri UNECO í ávarpi í tilefni dagsins. Við stöndum frammi fyrir áskorunum sem krefjast hnattrænnar samvinnu. Allt þetta krefst þess að skapaður sé góður jarðvegur svo fjölmiðlafrelsi þrífist og að það kerfi virki sem tyggir rétt fólks til upplýsinga.“
Á meðal þeirra sem taka þátt í viðburðum í tilefni dagsins í Helsinki eru auk Bokova, fréttakona CNN Christiane Amanpour sem er sérstakur sendiherra UNESCO í þágu tjáningarfrelsis og Martti Ahtisaari, fyrrverandi forseti Finnlands og Friðarverðlaunahafi Nóbels.
Fylgist með umræðunni á Twitter: #WPFD2016

Mynd: Felipe Tofani Flickr 2.0 Generic (CC BY-NC-SA 2.0)  

Fjölmiðlafrelsi: Ísland langt á eftir Norðurlöndum

| Samantekt |
About The Author
- Ritstjórn