Vaxandi þjóðernisrembingur og fordómar í íslensku samfélagi er ein helsta áskorunin sem við stöndum frammi fyrir í dag. Rannsóknir sýna fram á að þrátt fyrir að hátt í 10% þjóðarinnar eru skilgreindir sem innflytjendur virðast Íslendingar ekki vera tilbúnir til þess að viðurkenna innflytjendur sem hluta af ímynd þjóðarinnar og sjá þá frekar sem utanaðkomandi ógn sem þarf að verjast sem veldur því að meira en 70% innflytjenda hafa fundið fyrir fordómum í sinn garð.

Ábyrgð fjölmiðla er mikil þegar kemur að því að móta samfélagsumræðuna en áhrif þeirra og vald er mikið. Með umræðu sinni geta þeir ýtt undir neikvæðar staðalímyndir sem valda neikvæðu viðhorfi og andúð í garð minnihlutahópa eins og td. innflytjenda eða múslima. Það er því mikilvægt að þeir vandi umfjöllun sína um viðkvæm málefni svo hún ýti ekki undir ótta og þar af leiðandi fordóma hjá fólki. Þar skiptir orðaval gríðarlega miklu máli.

Þáttastjórnendur í Bítinu voru ósáttir við að ég sagði þá ýta undir ótta og hatur í garð múslima með því að ýta undir neikvæðar staðalímyndir og fordóma hjá fólki með umfjöllun sinni um „uppgang múslima í Evrópu.“ Við ræddum þessi mál í morgun en ég reyndi að útskýra fyrir þeim áhrifin sem slíkt orðaval hefur á þá sem hlusta og verða fyrir áhrifum og þá sem verða fyrir aðkasti vegna slíkrar umræðu.

Viðbrögð þeirra voru áhugaverð og ég mæli með hlustun. Það er td. ekkert fyndið við fordóma en það er kannski ekki skrýtið að þeir sem verða ekki fyrir þeim skilji ekki um hvað málið snýst, sbr. viðbrögð þáttastjórnenda á Bylgjunni við því sem ég var að segja (og framsetningu á viðtalinu). Það er heldur enginn að tala um einhverja kúgun eða þöggun á einhverjum málum með því að biðja fjölmiðlamenn um að vanda orðaval sitt þegar um viðkvæm málefni er að ræða en það er einhver lélegasta afsökun sem ég hef heyrt fyrir því að viðra rasískar skoðarnir.

Það er enginn munur á því að tala um „uppgang múslima í Evrópu“ eða skoðanakönnunum Útvarps Sögu þar sem spurt er hvort fólk óttist múslima. Áhrifin eru hin sömu. Slíkt elur á ótta og hræðslu sem veldur sundrungu og mismunun í samfélaginu. Áhrifin á hina tíu ára gömlu Önnu, sem er múslimi, og þarf að hlusta á slíka umræðu í útvarpinu á leið í skólann eru hin sömu. Áhrifin á þá sem þegar eru haldnir ótta eru hin sömu, óttinn vex og verður að hatri sem veldur því að Anna eða mamma hennar verða fyrir aðkasti.

Valdi fylgir ábyrgð. Mikilvægt er að fjölmiðlar fóðri ekki rasista og ýti þannig undir fordóma og mismunun í samfélaginu.

semaerla

Fjölmiðlar fóðri ekki rasista og ýti undir fordóma í samfélaginu.

| Greinar |
About The Author
- Ritstjórn