Margrét Friðriksdóttir kom fram í viðtalsþætti Frosta og Mána, Harmageddon, þann 18.10. Margrét var á sínum tíma meðlimur í Krossinum og er eini talsmaður íslamsfóbísku samtakanna Pegida sem hefur komið opinberlega fram á Íslandi. Hún er einn af sex stjórnendum Stjórnmálaspjallsins á Facebook en sá vettvangur hefur sætt harðri gagnrýni fyrir að kynda undir hatursorðræðu meira en nokkru sinni stjórnmálaumræðu.

Flokkur Fólksins hefur verið umdeildur vegna skipanar Magnúsar Þórs Hafsteinssonar í eitt af oddvitasætum flokksins en Magnús er þekktastur fyrir að hafa reynt að koma í veg fyrir komu Palestínskra flóttakvenna á Akranes fyrir 8 árum á grundvelli þess að þær höfðu annan uppruna og aðra trú en hann sjálfur. Hann hefur auk þess þýtt hatursbókina “Þjóðarplágan Íslam” eftir Hege Storhaug og er í miklum metum hjá rasistum landsins.

Inga Sæland, formaður Flokks Fólksins, er mjög ánægð með stefnu stjórnvalda í málefnum innflytjenda og hefur talað fyrir óbreyttri stefnu í þeim málaflokki. Hún vill einnig hert vegabréfaeftirlit og að við segjum okkur úr Schengen samstarfinu. Þegar hún var spurð að því hvort hún þekkti til fortíðar Magnúsar þá sagðist hún ekki gera svo. Sömuleiðis sagði hún alla velkomna að styðja flokkinn sama hver fortíð þeirra væri.

inga-maggaÁ Facebook síðu Íslensku Þjóðfylkingarinnar er nánast einhugur meðlima að kjósa Flokk Fólksins í þeim kjördæmum sem ÍÞ nær ekki að bjóða fram í. Sumir hafa sagt flokkana vera mjög líka hvort sem væri. Inga Sæland hefur lýst því yfir að rasistar myndu ekki taka yfir flokkinn á meðan hún væri formaður. En er Inga jafn langt í skoðunum frá rasistum eins og hún vill gefa sig út fyrir að vera?

Í áðurnefndu viðtali ljóstrar Margrét Friðriksdóttir því upp að hún og Inga Sæland hafi verið í nánu samstarfi rétt áður en Flokkur Fólksins var stofnaður. Þær fóru saman á framkvæmdaráðsfund Íslensku Þjóðfylkingarinnar til að skoða hvort framboðin ættu að sameinast. Margrét vill meina að það hafi verið meira að frumkvæði sínu en Inga tók fullan þátt í þessari viðleitni engu að síður. Helsta ástæða þess að ekki var leitað frekar eftir sameiningu var ekki vegna rasisma Þjóðfylkingarinnar heldur vegna óánægju þeirra vinkvenna með Helga Helgason, formann Íslensku Þjóðfylkingarinnar.

Margrét hugði á framboð fyrir hönd Flokks Fólksins en Magnús Þór Hafsteinsson taldi það ekki ráðlegt vegna þess að “rétttrúnaðarfasistar” myndu tengja flokkinn of mikið við rasisma, því Margrét væri of umdeild fyrir skoðanir sínar og hentaði flokknum því ekki. Það er vissulega rétt að Margrét hafi verið harðlega gagnrýnd fyrir fjandsamlegar skoðanir sínar á múslimum og innflytjendum en ef við skellum þessu í myndmál og segjum Margréti vera nálægt Pegida í skoðunum þá mætti vel bera skoðanir Magnúsar saman við Golden Dawn. Magnús er einfaldlega mun öfgafyllri en Margrét.

Magnús áhrifamikill innan flokksins, hver er hægri höndin ?

 

En hvers vegna fékk Magnús að taka þá ákvörðun að halda Margréti utan framboðslista? Nú er Inga Sæland formaður flokksins en hún sagði Magnús hafa ákveðið þetta. Sami formaður og sagði að rasistar myndu aldrei taka yfir flokkinn!? Það er nokkuð ljóst að Magnús er byrjaður að hafa meiri áhrif innan flokksins en Inga vill gefa upp. Raunar þá lítur út fyrir að hann sé hægri hönd formannsins eða hún hægri hönd hans?

 

Magnús er pólitískur refur og skilur vel að það þjónar ekki hagsmunum Flokks Fólksins að láta hann líta út fyrir að vera há-rasískan í aðdraganda kosninga. Hann veit eflaust líka að ef flokkurinn nær inn á þing myndi hann væntanlega rétt komast yfir 5% múrinn og ná þannig eingöngu 3-4 þingmönnum þ.á.m. honum sjálfum og Ingu. Þeim einum eða tveimur einstaklingum sem færu á þing með þeim væri auðstjórnað af “skötuhjúunum”. Því sér hann að það þjónar litlum tilgangi að fylla framboðslistana af rasistum og öðru umdeildu fólki. Hinir á framboðslistunum eru því nokkurs konar skrautmunir enda eru þeir einstaklingar flest allir ósköp venjulegir borgarar sem hafa áhyggjur af almennri velferð í þjóðfélaginu og eru ekki rasistar.

Vinnubrögð Magnúsar eru skólabókardæmi um þjóðernispopulisma. Reynt er að breiða yfir hvað  þrífst í flokknum og það skal bíða fram yfir kosningar áður en reynt er að gera rasískar skoðanir meira ríkjandi. Þetta er maður sem beið í 8 ár eftir að koma sínum raunverulegu sjónarmiðum á framfæri innan Frjálslynda Flokksins á sínum tíma. Hann fann réttan tímapunkt og náði að breyta flokknum í hreinan og kláran rasistaflokk. Það mun þó ekki taka nein 8 ár fyrir Magnús í þetta skiptið enda er hann strax kominn með samþykki flokksforystu og meðlimir afsaka hann i bak og fyrir. Einnig er þeirri spurningu ósvarað hvenær Magnús gekk í Flokk Fólksins en hann var fyrst kynntur almenningi sem oddviti flokksins þann 7. Október en skv. orðum Margrétar lítur út fyrir að hann hafi lengi starfað á bakvið tjöldin.

Flokkur Fólksins hefur fengið ítrekuð tækifæri til að tengja sig frá rasisma og losa sig við Magnús úr flokknum en það hafa þeir ekki gert. Þau hafa á engan hátt brugðist við gagnrýni og formaðurinn virðist sjálf ýta undir þjóðernispopulisma. Það talar sjálft sínu máli að flokkurinn hafi vel getað hugsað sér sameiningu við Íslensku Þjóðfylkinguna og þar með málamiðlanir um að sitja rasisma ofar á oddinn en nú er gert í opinberri stefnu flokksins.

Ég vara kjósendur eindregið við því að veita þessu framboði stuðning sinn í komandi kosningum.

Tengt efni:

Íslenskir Nýrasistar – 9. Margrét Friðriksdóttir

Íslenskir Nýrasistar – 32. Magnús Þór Hafsteinsson

Magnúsar saga

Hinir Nýju Kyndilberar Haturs?

 

 

Flokkur Fólksins vildi undir sæng með Íslensku Þjóðfylkingunni

| Gunnar Hjartarson |
About The Author
-