Aðskilnaðarummæli Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur hafa farið eins og eldur um sinu í fjölmiðlum og í netheimum. Sömu rasistar og bera daglega á borð fordóma af ýmsu tagi hafa varið þau og sagt þau vera réttmæt eða í það minnsta umhugsunarverð. Aftur á móti hefur yfirgnæfandi meirihluti fólks lýst yfir algjörum viðbjóði á því að nokkur manneskja, hvað þá borgarfulltrúi, skuli láta annað eins út úr sér og það á útvarpsstöð sem er þekkt sem hatursstöð.

 

Á svipuðum tíma og Sveinbjörg lét ummælin falla um “sokkinn kostnað” vegna hælisleitenda var 29 ára gömul kona að vinna til silfurverðlauna á Evrópumótinu í knattspyrnu. Konan heitir Nadia Nadim og er framherji Danska landsliðsins. Hún kom til Danmerkur 12 ára gömul, þá sem flóttamaður. Kom hún ásamt fjölskyldu sinni frá Afganistan þar sem ítrekað er brotið á mannréttindum fólks.

 

Nadia Nadim í leik með Danska landsliðinu

Allt frá því að hún kom til Danmerkur hefur hún verið landi og þjóð til sóma. Ásamt því að vera frábær í fótbolta hefur hún staðið sig gríðarlega vel í skóla og er hún núna við það að útskrifast sem læknir. Hana dreymir um að starfa sem skurðlæknir í framtíðinni þegar atvinnumannaferli hennar líkur.

 

Móttaka flóttamanna og hælisleitenda hefur mjög jákvæð áhrif á þjóðfélög. Bæði er fólki gefinn kostur á betra lífi og menningin nýtur góðs af. Ef það tvennt er ekki næg ástæða til að gera vel í málaflokknum hefur það verið sannað að gríðarlegur efnahagslegur ávinningur felst í því að taka við flóttamönnum og hælisleitendum til lengri tíma séð.

 

Á Íslandi bíða nú tvær ungar stúlkur, ásamt fjölskyldum sínum, þess að vera vísað úr landi. Báðar þykja þær skemmtilegar og hæfileikaríkar. Kannski verða þær ekki fótboltakonur í framtíðinni en munu ábyggilega láta gott af sér leiða á ýmsum sviðum samfélagsins. Við ættum að hugsa um hversu vel Nadia hefur reynst Danmörku áður en sú fáránlega ákvörðun er tekin að vísa stúlkunum og fjölskyldum þeirra af landi brott.

Flóttamenn og hælisleitendur eru mannauður en ekki sokkinn kostnaður

| Sandkassinn |
About The Author
-