Frábær og vönduð umfjöllun um landamæri og málefni flóttamanna í Hæpinu. Það var átakanlegt að hlusta á forstjóra Útlendingastofnunar og innanríkisráðherra reyna að réttlæta brottvísanir flóttamanna til Búlgaríu og annarra Evrópuríkja sem eru á hliðinni vegna mikils straums flóttamanna, þar sem getuleysi ráðamanna er algjört og kerfin eru fyrir löngu síðan farin á hliðina.

Svo það sé alveg á hreinu, íslenskum stjórnvöldum ber ekki skylda til að framfylgja ákvæðum Dyflinarreglugerðarinnar um að senda flóttamenn til baka til þess ríkis sem hann/hún kom fyrst til, hún býður einungis upp á valmöguleikann á því. Almenn skynsemi segir okkur að nú, þegar meira en milljón flóttamanna, karlar, konur og börn, eru komin til Evrópu, sé ekki tíminn til þess að nýta slíkar lagaheimildir í þessu annars ágæta Evrópusamstarfi.

Við eigum ekki að senda flóttamenn sem hingað koma úr landi – við eigum þvert á móti að bjóða fleiri flóttamönnum til landsins. Annað er ómanneskjulegt.

Um er að ræða fólk sem ekki hefur gert neinum neitt nema að hafa fæðst í Sýrlandi. Um er að ræða milljónir manna sem eru fórnarlömb stríðs sem þau eiga engan þátt í að hafa skapað. Þrátt fyrir það er búið að brennimerkja þau, láta þeim líða eins og þau séu óvelkomin og byrgði fyrir þennan og hinn vestræna snillinginn sem kvartar undan því að verið sé að ráðast á trú þeirra og menningu með því að taka á móti flóttamönnum.

Það er kominn tími til að hætta þessu kjaftæði. Við eigum að hjálpa þeim sem minna mega sín, hvaðan sem þeir koma úr heiminum.

semaerla

Fórnarlömb stríðs

| Greinar |
About The Author
- Ritstjórn