Ég hlustaði á viðtal Hallgríms Thorsteinssonar við forsetann á Rás 2.

Þar kom sitthvað áhugavert fram og meðal annars var farið ítarlega yfir hryðjuverkaógnir og öfgar í Íslamstrú. Margt var fínt og yfirvegað í málflutningi forsetans en mér finnst hann engu að síður vera haldinn ákveðinni hugsanagloppu. Hann stillir málum þannig upp að vegna íslamskra öfgamanna sérstaklega sé heimsbyggðin á einhverjum tímamótum þegar kemur að jafnvæginu milli opins og frjálslynds samfélags annars vegar og þess að ríki passi upp á að saklaust fólk verði ekki drepið hins vegar.

Staðreyndin er hins vegar sú að þetta hefur alltaf verið jafnvægislist, og verður það alltaf. Spurningin um hvað á að gera við dæmda morðingja er til dæmis af þessum meiði. Ef ríkið beitir þá dauðarefsingu er öruggt að þeir drepa ekki aftur en frjálslynd samfélög eru samt sem áður almennt á því að það sé of harkaleg refsing sem gæti bitnað á saklausum mönnum í einhverjum tilfellum. Það er bara vegna þess að okkur hér á Íslandi þykir ýmislegt í þessum efnum sjálfgefið að við áttum okkur kannski ekki nógu vel á því að í mörgu erum við að taka verulega áhættu og hlífa hinum saklausu á kostnað öryggis. Takmarka valdsvið ríkisins yfir fólki af því það er ónákvæmt tæki og veruleikinn flókinn.

Samfélag okkar byggist á þessu en vegna ótta við eina tiltekna ógn eru ýmsir tilbúnir til að grípa til aðgerða sem grafa verulega undan því – en svo eru þeir sem ekki hugnast slíkar aðgerðir og vilja standa eftir fremsta megni vörð um grundvallaratriði kallaðir barnalegir. Mér fannst síðan í raun frekar óhuggulegt að heyra forsetann gefa því undir fótinn að þeir sem kalli eftir róttækum aðgerðum hafi eitthvað til síns máls. Hatur og ótta á aldrei undir nokkrum kringumstæðum að kynda undir. Gleymum því ekki að hryðjuverkum er gagngert ætlað að spila á slíkar tilfinningar og grafa undan samfélögum innan frá. Það eru ekkert endilega skýrari svör við því hvernig ríkisvaldið á að bregðast við þessum ógnum en við því hvernig það á að haga sér almennt. Það er heldur ekki ástæða til að víkja frá grundvallaratriðum þegar þeirra svara er leitað. Grundvallaratriði í skoðunum fólks á eðli og hlutverki þess eru einmitt það, grundvallaratriði.

Svo fyrst ég er að taka þetta fyrir hjó ég eftir því að forsetinn sagði einhvers konar hefð hafa myndast um að sitjandi forseti tilkynni hvort hann ætli að bjóða sig fram um áramót fyrir kosningar – en viðurkenndi líka að síðast hafi hann skipt um skoðun eftir ávarpið. Þessi meinta hefð er þá auðvitað marklaus með öllu og forsetinn hefur þvert á móti viðurkennt að hann áskilur sér rétt til að skipta hvenær sem er um skoðun á því hvort hann vill halda áfram. Það er mjög vond staða til að halda þjóðinni stöðugt í og með þessu finnst mér henni sýnt virðingarleysi. Þetta er eins og maður sem getur aldrei komið með skýr svör gagnvart konu um hvernig hann sér framtíð sambands þeirra fyrir sér.

Halldór Auðar Svansson

Halldór Auðar Svansson

Tölvunarfræðingur.
Hugsjónanjörður.
Borgarfulltrúi Pírata.
Formaður stjórnkerfis- og lýðræðisráðs Reykjavíkurborgar.
Zen-lærlingur.
Halldór Auðar Svansson

Forsetinn og grundvallaratriðin

| Halldór Auðar Svansson |
About The Author
- Tölvunarfræðingur. Hugsjónanjörður. Borgarfulltrúi Pírata. Formaður stjórnkerfis- og lýðræðisráðs Reykjavíkurborgar. Zen-lærlingur.