22.2.2017

  • Amnesty International hefur gefið út ársskýrslu sína fyrir 2016
       
  • Hætta á keðjuverkandi áhrifum ef voldug ríki draga úr ábyrgð sinni á verndun mannréttinda
        
  • Salil Shetty, alþjóðaframkvæmdastjóri samtakanna, varar við því að ákallið „aldrei aftur“ sé orðið merkingarlaust vegna þess að ríki bregðist ekki við stórfelldum grimmdaverkum

Stjórnmálamenn beita nú æ oftar eitraðri hugmyndafræði um „við gegn þeim“. Þessi orðræða stjórnmálamanna í heiminum hefur aukið bilið milli landa og gert heiminn hættulegri segir í ársskýrslu Amnesty International, en samtökin gáfu í dag út árlegt yfirlit sitt yfir stöðu mannréttinda í heiminum.

Ársskýrslan, sem ber heitið The State of the World’s Human Rights, er umfangsmikið yfirlit yfir ástand mannréttinda í heiminum. Hún tekur til 159 landa. Í skýrslunni er varað við afleiðingum orðræðu sem einkennist af „við gegn þeim“ en slík orðræða er áberandi í stjórnmálaumræðu Evrópu, Bandaríkjanna og víðar. Samtökin telja að slík orðræða sé vatn á myllu þeirra sem vilja draga úr vægi mannréttinda í heiminum og veikja alþjóðleg viðbrögð við stórfelldum grimmdarverkum.

„Á árinu 2016 sáum við óskammfeilna notkun á hugmyndinni „við gegn þeim“ og margvíslegar ásakanir, hatur og ótta sem henni fylgja í meira mæli en hefur verið frá því á fjórða áratug síðustu aldar. Of margir stjórnmálamenn reyna að svara eðlilegum spurningum tengdum efnahag og öryggi með aðgreiningarstjórnmálum, sem eru eitruð og ala á sundrungu. Þetta gera þeir í von um að afla sér atkvæða,“ segir Salil Shetty aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.

„Óttastjórnmál eru orðin hættulegt afl í alþjóðastjórnmálum. Hvort sem í hlut eiga Trump, Orban, Erdoğan eða Duterte ryðja æ fleiri stjórnmálamenn sér til rúms í nafni baráttu gegn kerfinu með eitraða stefnuskrá að vopni þar sem stórir hópar fólks eru gerðir að blórabögglum og mennska þeirra vanvirt.

Ýmsir stjórnmálamenn samtímans halda þeirri hættulegu hugmynd blygðunarlaust fram að sumt fólk sé minni mannverur en annað. Ef sú hugmynd nær brautargengi er hætta á að leyst verði úr læðingi ýmis myrkustu öfl manneðlisins.“

Bakslag í mannréttindamálum á heimsvísu vegna óttastjórnmála

Mikil pólitísk umskipti urðu árið 2016. Þau sýna vel áhrifin sem orðræða, er einkennist af hatri, getur haft á hinar myrku hliðar manneðlisins. Dæmi um slíkt má finna í kosningabaráttu Donald Trump en stjórnmálaleiðtogar um heim allan leituðu í orðræðu ótta, ásakana og sundrungar til að auka völd sín.

Slík orðræða hefur sívaxandi áhrif á stefnu og aðgerðir stjórnvalda. Árið 2016 horfðu stjórnvöld framhjá stríðsglæpum, gerðu samninga sem grafa undan rétti fólks til að leita hælis, samþykktu lög sem brjóta gegn tjáningarfrelsi, hvöttu til morða á fólki einfaldlega vegna þess að það notaði fíkniefni, réttlættu pyndingar og fjöldanjósnir og stórefldu valdheimildir lögreglu.

Ríkisstjórnir snérust einnig gegn flótta- og farandfólki. Í ársskýrslu Amnesty International er því lýst hvernig 36 ríki brutu gegn alþjóðalögum með því að senda flóttafólk með ólögmætum hætti aftur til landa þar sem réttindi þeirra eru í hættu.

Nýverið sýndi Trump Bandaríkjaforseti að honum var alvara með hótanir sínar í aðdraganda kosninga þegar hann skrifaði undir forsetatilskipun sem hefur að markmiði að varna flóttafólki frá ýmsum stríðshrjáðum ríkjum þess að leita hælis í Bandaríkjunum.

Meðferð ástralskra stjórnvalda á flóttafólki var hræðileg en þau hafa sent flóttafólk til eyjanna Nauru og Manus. ESB gerði óábyrgan og ólöglegan samning við Tyrkland um að senda flóttafólk aftur þangað, jafnvel þó að slíkt sé ekki öruggt og Mexíkó og Bandaríkin halda áfram að senda fólk úr landi sem flýr gegndarlaust ofbeldi í Mið-Ameríku.

Kína, Egyptaland, Eþíópía, Indland, Íran, Taíland og Tyrkland stóðu fyrir umfangsmikilli valdbeitingu á ýmsum sviðum. Önnur ríki réðust í íþyngjandi öryggisráðstafanir, eins og sjá mátti í framlengingu á neyðarlögum í Frakklandi og fordæmalausri og skelfilegri eftirlitslöggjöf í Bretlandi. Enn ein birtingarmynd þessarar stjórnmálaþróunar, þar sem „sterkir“ leiðtogar koma fram á sjónarsviðið, er í orðræðu sem andsnúin er femínisma og réttindum lgbti-fólks. Dæmi um slíkt má finna í Póllandi og viðleitni þar til að draga úr réttindum kvenna. Þeirri viðleitni var svarað með fjöldamótmælum.

„Í stað þess að berjast fyrir réttindum fólks hafa of margir leiðtogar sett á oddinn stefnumál sem draga úr mannvirðingu. Þetta gera þeir í pólitísku skyni. Margir vinna gegn réttindum hópa, sem gerðir eru að blórabögglum, stundum til að beina kastljósinu frá eigin mistökum við að vernda og tryggja efnahagsleg og félagsleg réttindi,“ segir Salil Shetty.

„Árið 2016 urðu þessi eitruðu form mannfyrirlitningar ráðandi afl í alþjóðastjórnmálum. Mörk hins ásættanlega eru orðin önnur en þau voru. Stjórnmálamenn hafa blygðunarlaust réttlætt alls kyns hatursfulla orðræðu og stefnu sem beinist gegn ýmsu í fari fólks, hvort sem slíkt birtist í rasisma, andúð á samkynhneigðum eða á annan hátt.

Fyrsta skotmarkið hefur verið flóttafólk og ef slíkt heldur áfram árið 2017 munu skotmörkin verða fleiri. Slíkt mun leiða til fleiri árása á grundvelli uppruna, þjóðernis, kyns og trúarskoðana. Ef við hættum að sjá hvert annað sem manneskjur með sömu réttindi stefnum við hraðbyri að hengiflugi.“

Heimurinn snýr baki við stórfelldum grimmdarverkum

Amnesty International varar við áframhaldandi neyðarástandi árið 2017 sem mun einungis versna vegna skorts á mannréttindaforystu ríkja á alþjóðavettvangi. Stjórnmál sem einkennast af orðræðunni „við gegn þeim“ eru að verða sífellt veigameiri á alþjóðavettvangi með þeim afleiðingum að fjölþjóðlegt samstarf er að víkja fyrir heimsskipan þar sem ágeng og óvægin stefna ríkja er á uppleið.

„Leiðtoga í heiminum skortir pólitískan vilja til að þrýsta á önnur ríki þar sem mannréttindabrot eru framin. Margvísleg mannréttindi eru í húfi, bæði tengd ábyrgðarskyldu vegna stórfelldra grimmdarverka og réttinum til að leita hælis,“ segir Salil Shetty.

Mótmælendur í París krefjast aðgerða vegna borgara í Aleppo. © Pierre-Yves Brunaud / Picturetank.

„Jafnvel ríki sem eitt sinn stærðu sig af því að berjast fyrir mannréttindum í öðrum ríkjum eru nú í óða önn að draga úr mannréttindavernd heima fyrir og gera lítið til að tala máli mannréttinda annars staðar. Því meir sem ríki víkjast undan ábyrgðarskyldu sinni hvað mannréttindi varðar því líklegra er að við sjáum keðjuverkun verða meðal þjóðarleiðtoga um að draga enn frekar úr mannréttindavernd.“

Neyðarástand ríkir víðs vegar í heiminum og lítill pólitískur vilji virðist vera til að leysa vandann. Í ársskýrslu Amnesty International er að finna upplýsingar um stríðsglæpi í að minnsta kosti 23 löndum árið 2016, þar á meðal í Sýrlandi, Jemen, Líbíu, Afganistan, Mið-Ameríku, Mið-Afríkulýðveldinu, Búrúndí, Írak, Suður-Súdan og Súdan.

Þrátt fyrir þetta er alþjóðlegt sinnuleysi um stríðsglæpi að verða að veruleika. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna er lamað vegna ágreinings fastaríkja ráðsins.

„Í upphafi árs 2017 er staðan sú að mörg áhrifamestu ríki heimsins einbeita sér að þröngum þjóðarhagsmunum á kostnað alþjóðlegrar samvinnu. Slíkt gæti gert heiminn hættulegri og aukið óvissu,“ segir Salil Shetty.

„Ef ný heimsskipan kemst á þar sem litið er á mannréttindi sem dragbít á þjóðarhagsmuni mun geta heimsins til að takast á við stórfelld grimmdarverk verða hættulega lítil. Slíkt mun auka hættuna á grimmdarverkum sem minna á myrkustu skeið mannkynssögunnar.

Alþjóðasamfélagið hefur nú þegar skellt skollaeyrum við margvíslegum grimmdarverkum árið 2016, hvort sem um er að ræða hörmungar sem íbúar Aleppo máttu upplifa, þær þúsundir sem lögregla á Filippseyjum hefur drepið í „stríði gegn fíkniefnum“ þar í landi eða notkun á efnavopnum og fjöldaeyðingu þorpa í Darfúr. Stóra spurningin er hversu lengi heimurinn mun bíða árið 2017 áður en eitthvað verður gert til að stöðva grimmdarverk.“

Hverjir ætla að standa með mannréttindum?

Amnesty International hvetur fólk alls staðar að úr heiminum til að verjast lýðskrumi og tilraunum til að grafa undan almennum mannréttindum í nafni velmegunar og öryggis.

Í skýrslunni er bent á það að mjög miklu skiptir nú að sýna alþjóðlega samstöðu og virkja almenning til að vernda einstaklinga sem standa uppi í hárinu á yfirvöldum og berjast fyrir mannréttindum, en þessir einstaklingar eru oft úthrópaðir af stjórnvöldum sem óvinir efnahagslegrar velmegunar, öryggis í löndum eða annarra áherslumála.

Í ársskýrslu Amnesty International er greint frá að árið 2016 hafi fólk í 22 löndum verið drepið fyrir að berjast fyrir mannréttindum. Þar á meðal er fólk sem barist hefur friðsamlega gegn margvíslegum efnahagslegum hagsmunum, fólk sem varið hefur réttindi minnihlutahópa og lítilla samfélaga eða talað fyrir réttindum kvenna og lgbti-réttindum. Drápið á Berta Cáceres, baráttukonu fyrir mannréttindum frumbyggja  í Hondúras, þann 3. mars 2016 er bara eitt dæmi. Enginn hefur verið ákærður fyrir morðið.

„Við getum ekki staðið aðgerðalaus og beðið eftir því að stjórnvöld láti sig mannréttindi varða, við, almenningur, verðum að grípa til aðgerða. Stjórnmálamenn eru sífellt viljugri til að gera stóra hópa fólks að blórabögglum og við þurfum nú öll, enn frekar en áður, að láta okkur varða grunngildi tengd mannvirðingu og jafnrétti alls staðar,“ segir Salil Shetty.

„Allir verða að biðja stjórnvöld í eigin landi að nota allt vald sitt til að hafa áhrif á þá sem brjóta mannréttindi. Á myrkum tímum í mannkynssögunni hafa aðgerðir einstaklinga borið árangur þegar þeir hafa látið í sér heyra, hvort sem litið er til réttindabaráttu blökkufólks í Bandaríkjunum, baráttufólks gegn Apartheid í Suður-Afríku eða kvenna- og lgbti-hreyfinga víða um heim. Nú skiptir máli að við öll öxlum ábyrgð.“

Nánar má lesa um ársskýrslu Amnesty International hérna. 

Gunnar Waage

Gunnar Waage

- Gunnar Waage er blaðamaður og ritstjóri Sandkassans frá árinu 2013.

Hann er Trommari, Tónskáld og skólastjóri Trommuskólans, fyrrverandi deildarstjóri og einn af stofnendum Tónlistarháskóla G. Martell í Mexíkóborg. Hann lauk burtfararprófi frá McNally Smith College of Music, en duflar við kerfisfræði og er áhugamaður um bardagaíþróttir. Hann rýnir í þjóðfélagsmál og lætur sig flest varða.Hann er einstæður faðir, jafnréttissinni, fjölmenningarsinni og áhugamaður um velferð barna. Starfar við túlkun og þýðingar og fæst við spænskukennslu.


Hann er pistlahöfundur á Kvennablaðinu og var pistlahöfundur á DV en hætti skrifum á DV ásamt fleirum, í þeim tilgangi að sýna blaðamönnum og ritstjórn blaðsins samstöðu í kjölfar yfirtöku á félaginu í September 2014.
Gunnar Waage

Fréttir: Ársskýrsla Amnesty International: Stjórnmál ala á sundrungu og ótta.

| Sandkassinn |
About The Author
- - Gunnar Waage er blaðamaður og ritstjóri Sandkassans frá árinu 2013. Hann er Trommari, Tónskáld og skólastjóri Trommuskólans, fyrrverandi deildarstjóri og einn af stofnendum Tónlistarháskóla G. Martell í Mexíkóborg. Hann lauk burtfararprófi frá McNally Smith College of Music, en duflar við kerfisfræði og er áhugamaður um bardagaíþróttir. Hann rýnir í þjóðfélagsmál og lætur sig flest varða.Hann er einstæður faðir, jafnréttissinni, fjölmenningarsinni og áhugamaður um velferð barna. Starfar við túlkun og þýðingar og fæst við spænskukennslu. Hann er pistlahöfundur á Kvennablaðinu og var pistlahöfundur á DV en hætti skrifum á DV ásamt fleirum, í þeim tilgangi að sýna blaðamönnum og ritstjórn blaðsins samstöðu í kjölfar yfirtöku á félaginu í September 2014.