badge

 

Skilgreining Evrópunefndar gegn kynþáttafordómum og umburðarleysi (ECRI) á Útvarpi Sögu sem hatursorðræðu-fjölmiðli virðist hafa haft áhrif á útvarpsstöðina. Reyndar hafa þáttastjórnendur ekki haft undan því að lýsa fyrir hlustendum sínum hversu marklaus ECRI nefndin sé en á sama tíma telja þau mat nefndarinnar vera þann versta áfellisdóm sem stöðin hefur hlotið. Merkileg þversögn það.

ecri

Þrennt tel ég benda til þess að skýrsla ECRI sé að hafa mikil áhrif á útvarpsstöðina:

  1. Þegar hatursáróður á sér stað á stöðinni fylgir oft á eftir málflutningnum “má segja þetta?”, “ætli sé verið að fylgjast með okkur?”, “verðum við send í fangelsi?” og fleira í þeim dúr. Þetta ber þess merki að þáttastjórnendur eru nú meðvitaðir um að verið sé að fylgjast með þeirri orðræðu sem fer fram á stöðinni og eru ekki lengur öruggir í sínu eigin skinni með að brjóta lögin.

 

  1. Þann 5. Apríl rauf Útvarp Saga útsendingu sína eftir að einn ötulasti innhringjandi stöðvarinnar gerðist sekur um lögbrot í beinni með að væna nafngreindan mann um barnaníð. Maðurinn sem er þekktur eingöngu sem Guðjón fyrrv. strætóbílstjóri hefur um árabil hringt inn á stöðina og haldið uppi viðbjóðslegum málflutningi gegn einstæðum foreldrum. Aldrei áður hefur Útvarp Saga reynt að hafa hemil á innhringjendum sínum og þetta inngrip er ekki hægt að túlka sem neitt annað en ákveðin varnarviðbrögð stöðvar sem á mjög undir högg að sækja.

 

  1. Útvarp Saga hefur iðulega látið hljóðklippur frá útsendingum dagsins á vefsvæði sitt. Þær höfðu fram að 5. Apríl verið birtar í sinni upprunalegu útgáfu en þann daginn varð breyting þar á. Innhringing Guðjóns var klippt út úr hljóðskránni sem látin var á netið. Eftir þann 12. Apríl hafa svo þættirnir “Línan er Laus” alls ekki verið látnir á netið. Nú skal tekið fram að ég hlusta alla jafna ekki á Útvarp Sögu og hlustaði ekki á umrædda þætti. Ég hef hinsvegar fengið af því sögur að a.m.k. tvennt hafi átt sér stað í umræddum þáttum sem er hentugt fyrir Útvarp Sögu að láta hverfa. Píratinn Bjartmar Oddur Þeyr Alexandersson hringdi inn á stöðina þann 19. Apríl. Þar mótmælti hann viðhorfum Péturs Gunnlaugssonar og lét hann víst líta afar illa út. Útvarpshjónin hafa svo eftir páska farið hatrömmum orðum um pólitíska andstæðinga sína, hugsanlega á refsiverðan hátt.

Ef gögnin finnast ekki getur Útvarp Saga komist upp með lögbrot?

Skýrsla ECRI hefur gert Útvarp Sögu meira var um sig en ekki er þó hægt að tala um að viðhorfsbreyting hafi átt sér stað að nokkru leyti hjá stjórnendum stöðvarinnar. Sami hatursáróðurinn fer þar fram og enn hringir sama fordómafulla fólkið þar inn. Það að hljóðskrár stöðvarinnar séu ekki allar lengur látnar á netið eða þær klipptar til, bendir til þess að Útvarp Saga vilji ekki gera gögnin aðgengileg Hatursglæpadeild Lögreglu, Fjölmiðlanefnd og þeim sem rannsaka hatursáróður.

Í fljótu bragði væri hægt að líta á þennan feluleik stöðvarinnar sem barnslega einfeldni af þeirra hálfu en spurningin er samt sú að ef þau fela gögnin eru þau þá til á öðrum stöðum? Íslendingar eru ekki langt komnir í baráttunni gegn hatursorðræðu og margt bendir til þess að eftirlit með slíkum lögbrotum sé ábótavant. Í ljósi þess að Útvarp Saga gerir ekki lengur allt efni sitt aðgengilegt þá er ljóst að eftirlitsnefndir neyðast til að hljóðrita allt efni stöðvarinnar upp á eigin spýtur. Ef það er ekki gert er verið að gefa Útvarpi Sögu færi á því að fjarlægja sönnunargögn af glæpavettvangi.

Tengt efni: http://www.dv.is/frettir/2017/4/5/uppnam-sogu-thegar-innhringjandi-vaendi-radherra-um-barnanid-arnthrudur-osatt-og-stodvadi-utsendingu-fenginn-til-ad-gera-thetta/

Skýrsla ECRI um Ísland 2016: http://www.ruv.is/sites/default/files/isl-cbc-v-2017-003-ice-embargo_0.pdf

Gagnaeyðing á Útvarpi Sögu

| Gunnar Hjartarson |
About The Author
-