Katrín Oddsdóttir

Katrín Oddsdóttir lögmaður skrifar –

Upp úr Atlantshafinu rís hún eyjan okkar fagra. Hún virðist reyna reglulega að hrista okkur af sér með ofsaveðrum, eldgosum, jarðskjálftum og öðru sem hún lætur sér detta í hug. Við förum hvergi. Fögur er hlíðin og allt það. Við viljum vera hér, þetta er heima. Hér, þar sem myrkrið umvefur okkur níu mánuði á ári. Hér, þar sem ísinn allt hylur og gerir rölt út í búð að svaðilför.

En af hverju viljum við dveljast í þessum harðbýlu aðstæðum? Jú, hér er undurfögur náttúra sem talar við frumurnar í líkömum okkar. Hér er, eða var, mjög gott heilbrigðiskerfi sem virkar sem öryggisnet þegar (ekki ef) við þurfum á því að halda. Hér erum við líka samheldin þegar á reynir. Tosandi hvort annað upp úr snjóflóðum eftir bestu getu. Neglandi niður fjúkandi þakplötur á ókunnugri hlöðu í ofsaviðri og sjálfboðavinnu. Við stöndum saman. Við réttum hvort öðru hjálparhönd. Fleira mætti telja. Ólíkt öðrum vestrænum þjóðum, hafa til dæmis íslenskir dómstólar hugrekki til að skella banksterum í fangelsi. Á tyllidögum taka sömu dómstólar sig svo til og slá á fingur ríkisvaldsins þegar það hefur brotið gegn réttindum öryrkja (en bara stundum). Á Íslandi gefum við nefnilega yfirleitt ekki afslátt af grunngildum og mannréttindum heldur förum að settum lögum.

Þegar tali og tuði um augljósa spillingu sem hér grasserar sleppir, má ljóst vera að við erum mjög heppin. Við höfum auðlindir og hugvit sem gera okkur kleift að lifa hér mjög góðu lífi í þokkalegri sátt og talsverðu samlyndi. Við unnum í lottóinu þegar við yfirgáfum líkama mæðra okkar og drógum í fyrsta sinn andann, blinduð af spítalaljósunum, því í sömu mund fengum við íslenskt ríkisfang og allt sem því fylgir. Endurgjaldslaus grunnmenntun, elliheimili, heimahjúkrun, dagforeldrar, sumarfrí, sundlaugar, götumokstur, Hjálparlínan, RÚV, háskólar, neyðarlínan, leikhúsin, heilsugæslustöðvar, dómstólar, flugvellir, atvinnuleysisbætur, sorphirða, tónlistarskólar, skíðasvæði, byggðasöfn, liðveisla, námslán, barnavernd, örorkubætur, félagsheimili, fæðingarorlof, listasöfn, vegagerð… Við getum gagnrýnt þetta allt en við erum samt svo ótrúlega heppin að eiga þetta saman. Einhverjir sem á undan okkur gengu höfðu fyrir því að koma á fót öllum þessum dýrmætu fyrirbærum svo við mættum saman eiga betra og hamingjuríkara líf á eyjunni hvítu. En það dýrmætasta sem við eigum saman hefur enn ekki verið nefnt. Saman eigum við nefnilega það fallegasta við þetta litla samfélag: sjálfan friðinn. Friðsælasta samfélag heims er eyja á norðurhjara jarðkúlunnar. Landið okkar.

Vegna framúrstefnulegrar landfræðilegrar staðsetningar rata hingað ekki margir flóttamenn úr hinum stóra heimi. Nokkrir þeirra komast þó alla leið hingað og í ljósi þess hversu ógnargott við höfum það sem þjóð og hversu ósköp hjálpsöm við erum þegar á reynir mætti telja að móttökur við þetta fólk væru hér til fyrirmyndar. En svo er því miður ekki.

Þann 11. febrúar var haldinn málfundur á vegum UNICEF og Háskólans á Bifröst um börn á flótta. Þar kom fram að framkvæmdin sem blasir við þessum börnum, sem flest hafa upplifað skelfilega atburði, er ekki í samræmi við fögur fyrirheit laga um málsmeðferð barna sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi. Ekki heldur í samræmi við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þó hann sé orðinn að lögum hérlendis. Á fundinum var dregin upp mynd sem er okkur Íslendingum því miður til lítils sóma. Fylgdarlausum ungmennum virðist almennt ekki trúað um aldur heldur eru gerðar á þeim ónákvæmar tannrannsóknir að því er virðist til að koma upp um það að þau séu að skrökva um aldur sinn. Enginn spyr hvernig börnunum líði og þau fá ekki sálrænan stuðning nema í undantekningartilvikum. Þau fá ekki kennitölur og geta því ekki tekið þátt í samfélaginu til jafns við jafnaldra. Börnum er mismunað eftir því í hvaða sveitarfélagi þau búa. Þau eru látin bíða í 4-6 vikur eftir sóttvarnaskoðun. Þau bíða enn lengur eftir skólavist. Þau eru vistuð með fullorðnum flóttamönnum sem þau þekkja ekki neitt. Sum þeirra voru vistuð á Stuðlum vegna plássleysis. Mörg þeirra búa í móttökustöð í iðnaðarhverfi í Hafnarfirði þar sem er ekkert leiksvæði, hvorki inni né úti.Málsmeðferðin hefur í gegnum tíðina tekið allt of langan tíma og þvert á ákvæði laga er misbrestur á að barnaverndaryfirvöld fái upplýsingar um fylgdarlaus börn sem hingað koma.

Friður er ekki takmörkuð auðlind. 

Langflest þessara barna eru að leita þess dýrmæta auðs sem íslensk börn fá í vöggugjöf og heitir friður. Friður er ekki takmörkuð auðlind. Þvert á móti er bæði stríð og friður ástand sem smitar út frá sér. Við eigum að veita þeim aðstoð sem hingað leita á flótta undan hörmungum sem þeim verður að engu leyti um kennt. Við eigum að koma fram við þessa einstaklinga sem jafningja og af virðingu. Við eigum að fara að lögum við málsmeðferð umsókna þeirra. Við eigum að bjóða þeim að deila með okkur gæðum og réttindum sem hér má finna, ekki síst friðnum okkar. Annars eru forsendurnar fyrir því að hér sé gott að búa einfaldlega brostnar.

Að þessu sögðu skora ég á íslensk stjórnvöld að hefja strax allsherjar stefnumótun í málalfokki hælisleitenda og flóttamanna. Hana skortir áþreifanlega og áhrif þess eru óforsvaranleg með öllu.

Katrín Oddsdóttir um

 

Greinin birtist áður á Stundinni og er hér endurbirt með leyfi höfundar

Gerum betur!

| Greinar |
About The Author
- Ritstjórn