Gott fordæmi fyrir Guðlaug

Guðlaugur Sverrisson, stjórnarformaður RÚV, sendi frá sér yfirlýsingu í fjölmiðla í dag, þar sem hann efast um skýringar á brotthvarfi mínu úr stjórn RUV. Þótt formaðurinn telji sig skilningsríkan stjórnanda,  er það nú samt svo að hann veit ekki betur en ég sjálf, hvers vegna ég segi mig úr stjórninni.  Guðlaugur er líka undrandi og skilur ekkert í tali um pólitíska aðför að RÚV. Það er vissulega sjónarmið, fyrir mann með hans tengsl.

Eins og ég útskýrði í fjölmiðlum í gær og útvarpsstjóri getur staðfest, má rekja ákvörðun mína um að segja mig úr stjórn til trúnaðarbrests í vegna óskýrðra uppsagna á Rás eitt síðastliðið sumar. Sá trúnaðarbrestur dýpkaði og stækkaði við Eyþórsskýrslu, fjárlagaafgreiðslu, árásir stjórnmálamanna á fréttastofu og dagskrá, brotthlaup fyrrverandi stjórnarformanns, innantóm loforð ráðherra og stjórnunaraðferðir núverandi formanns Guðlaugs Sverrissonar. En síðustu mánuði hafa stjórnarfundir verið farsakenndar uppákomur, þar sem einkum hefur verið rifist um sérstakt hugðarefni Framsóknar, sem er hvort Mörður Árnason megi vera hér eða þar sökum pólitískrar stöðu sinnar.

Uppsagnirnar í sumar taldi ég pólitískar og skaða orðspor og traust á RUV. Ég sagði útvarpsstjóra að kominn væri upp trúnaðarbrestur og ég skyldi víkja úr stjórn. Hann taldi æskilegra, fyrir sig og fyrir mig og Ríkisútvarpið að ég sæti út tímann frekar enn að fara með hávaða á miðju tímabili. Þingflokkur VG sem skipaði mig, vildi líka að ég héldi áfram, sem úr varð. Löngu seinna tók ég við starfi framkvæmdastjóra VG. Í því starfi er ég ekki pólitískari en aðrir stjórnarmenn RUV, sem sumir hverjir eru kjörnir fulltrúar sinna flokka.  En af virðingu við stefnu fyrrverandi menntamálaráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, er upplagt að minna á það við brotthvarf mitt úr stjórn, að betra væri að hafa ekki jafn rammpólitíska stjórn og þá sem nú situr. Það er gaman að gefa gott fordæmi með því að fara um leið og ég mótmæli pólitískri aðför stjórnvalda að RÚV og lýsi vantrausti á meirihluta þeirra í stjórn.

Björg Eva Erlendsdóttir

Gott fordæmi fyrir Guðlaug (Björg Eva Erlendsdóttir)

| Sandkassinn |
About The Author
- Ritstjórn