Það verður seint sagt að Guðbergur Bergsson fari troðnar slóðir í sínum skrifum. Í ofanálag við þær bækur sem hann hefur skrifað þá hefur hann einnig verið nokkuð virkur í greinarskrifum. Guðbergur skrifar tvær tegundir af greinum eins og þær snúa við mér. ca annarri hverri grein sem hann skrifar er ég svo sammála að ég æsist upp og færist allur í aukana. Svo eru það hinar greinarnar hans sem gera mig svo reiðan að ég ætla hreinlega upp vegginn af bræði. Þannig að Guðbergur kallar fram í manni bæði engla og djöfla og það verður að teljast nokkuð afrek.

Á sjálfan þjóðhátíðardaginn fyrir hart nær 5 árum síðan ritaði Guðbergur grein á eyjuna undir fyrirsögninni: “Gillzenegger og Íslenskt geðslag”. Þar sem að nú eru liðin þessi ár þá vil ég birta hér innan gæsalappa hluta úr grein hans sem mér þykir eldast afar vel en greinar eldast ekki að öllu jöfnu jafn vel og skáldskapur. Þessi gerir það þó.

“Algengt er að frægir verði fyrir aðkasti, enda er aðdáun og öfund samfara með aðkast í lokin. Venjulega er þetta aðeins innan vissra hópa í samfélögum þjóða, unglinga eða þeirra sem fylgja hégóma tískunnar hverju sinni. Í okkar fámenni nær yfirleitt allt í fjölmiðlum á einhvern hátt til þjóðarinnar og allir vilja hafa sína skoðun á hverju máli þótt þeir hafi lítið vit á því.

Þannig var það með Gillzenegger, glæsilega strákinn sem var og er allt í senn: venjulegur, eðlisgreindur, fyndinn og gull af manni en dálítið hégómlegur. Hann átti sína gullnu tíð efst á stalli. „Allar vildu meyjarnar eiga hann,“ eins og segir í ljóði, og eflaust karlmenn líka, að minnsta kosti vöðvana. Stráksi var klár að koma sér áfram og vildi eðlilega nota tímann vel á meðan hann væri enn á líkamsræktaraldri. Svona náungar af alþýðustétt hafa alltaf verið til á meðal okkar. Áður spenntu þeir bara vöðvana nýkomnir af sjónum fyrir framan fáa, en núna geta þeir gert það í sjónvarpinu fyrir allra augum.

Svo henti það, sem alltaf gerist, að glæsimennið er ásakað fyrir að hafa farið í óleyfi upp á stelpu og hún heimtar hjónaband eða pening. Áður var hlegið í þorpum að þannig stelpupussulátum en nú er öldin önnur á íslenska menningarlandinu. Þar er komin í spilið viss nunnuvæðing í nútímastíl og meyjarhaftavörn sem kallast femínismi.”

Gott er að rifja upp það sem á undan hafði gengið. Egill Gillz var hreint út sagt tekinn, yfir honum réttað af sturluðum skríl á internetinu, þar með talið af ýmsum þjóðþekktum persónum sem líklegast sáu sér leik á borði að vera nú í náðinni hjá bandbrjáluðum kynjafræðingum sem stýrðu umræðunni og fullyrtu það margar hverjar að einungis 2% þeirra sem sakaðir væru um nauðgun væru þolendur falskra ásakanna, því skipti það svo sem engu hvað Gillz hefði til málanna að leggja. Þetta kom strax í ljós að ekki stóðst neina skoðun og tvö prósentin áttu sér upptök sín í skáldsögu frá 7. áratugnum. Þetta var ljót galdrabrenna og eins og þær gerast hvað verstar hér í þessu litla samfélagi en að sjálfsögðu sigraði réttlætið að lokum, ekki illa upplýstur dómstóll götunnar sem fáir myndu í dag viðurkenna að hafa átt sæti í. En höldum áfram með textan úr grein Guðbergs:

“En það voru ekki bara femínistar, eilífðarstelpurnar, sem réðust á Gillz. Allir sem vettlingi gátu valdið í munninum á Facebook og fleiri stöðum töldu að hann væri „búinn að vera“ hvernig sem málið færi af því siðferðisvitund þjóðarinnar myndi ekki leyfa annað en nautið yrði beygt í duftið. Sjónvarpið mundi loka á hann. Útvarpsstöðvar hleyptu honum ekki að, svo eina ráðið væri fyrir fallna goðið að grafa sig lifandi eða flýja land. Sundum var engu líkara en það yrði gert allsherjar siðferðisátak gegn Gillz.

Í máli unga mannsins kom hið merkilega fram: íslensk hefnigirni og eiginlega það lægsta sem leynist í þjóðarsálinni, pokaprestahræsnin að þykjast vera kristilega góður og blekkingin að í okkur sé gríðarleg réttlætiskennd, svo ekki sé minnst á það hvað við stöndum einhuga gegn ofbeldi, einkum líkamlegum meiðingum. Við þolum ekkert slíkt. Allt í fari okkar og geðslagið ber vott um virðingu fyrir frelsi, réttlæti og bræðralagi og systraást.

Þegar Gillz hefur nú verið hreinsaður af ákæru vill auðvitað enginn kannast við heift sína í hans garð. ,,,,,,,”

Gunnar Waage

Gunnar Waage

- Gunnar Waage er blaðamaður og ritstjóri Sandkassans frá árinu 2013.

Hann er Trommari, Tónskáld og skólastjóri Trommuskólans, fyrrverandi deildarstjóri og einn af stofnendum Tónlistarháskóla G. Martell í Mexíkóborg. Hann lauk burtfararprófi frá McNally Smith College of Music, en duflar við kerfisfræði og er áhugamaður um bardagaíþróttir. Hann rýnir í þjóðfélagsmál og lætur sig flest varða.Hann er einstæður faðir, jafnréttissinni, fjölmenningarsinni og áhugamaður um velferð barna. Starfar við túlkun og þýðingar og fæst við spænskukennslu.


Hann er pistlahöfundur á Kvennablaðinu og var pistlahöfundur á DV en hætti skrifum á DV ásamt fleirum, í þeim tilgangi að sýna blaðamönnum og ritstjórn blaðsins samstöðu í kjölfar yfirtöku á félaginu í September 2014.
Gunnar Waage

Guðbergur Bergsson á þjóðhátíðardaginn fyrir 5 árum

| Gunnar Waage |
About The Author
- - Gunnar Waage er blaðamaður og ritstjóri Sandkassans frá árinu 2013. Hann er Trommari, Tónskáld og skólastjóri Trommuskólans, fyrrverandi deildarstjóri og einn af stofnendum Tónlistarháskóla G. Martell í Mexíkóborg. Hann lauk burtfararprófi frá McNally Smith College of Music, en duflar við kerfisfræði og er áhugamaður um bardagaíþróttir. Hann rýnir í þjóðfélagsmál og lætur sig flest varða.Hann er einstæður faðir, jafnréttissinni, fjölmenningarsinni og áhugamaður um velferð barna. Starfar við túlkun og þýðingar og fæst við spænskukennslu. Hann er pistlahöfundur á Kvennablaðinu og var pistlahöfundur á DV en hætti skrifum á DV ásamt fleirum, í þeim tilgangi að sýna blaðamönnum og ritstjórn blaðsins samstöðu í kjölfar yfirtöku á félaginu í September 2014.