w9Py8ApCl4VE_992x620_hFQbjmlX

Í dag heyrði ég af breytingu á stundarskrá í stórum skóla. Þar hefur verið ákveðið að fækka tímum í listgreinum ungra barna úr fjórum í einn. Þessi aðgerð er aðeins ein af fjölmörgum sem ég hef bæði séð og heyrt af síðustu daga. Þetta er viðbragð við því að hin nýja Menntamálstofnun Íslands krefst þess nú að vera hæstiréttur í gæðmálum grunnskólans.

Auðvitað er það metnaðarmál að hafa í landinu sjálfstæðar stofnanir sem metið geta gæði skólastarfs. Raunar bráðnauðsynlegt. Stofnanir sem óháðar eru stefnum, straumum og hagsmunum.

Enginn skyldi þó halda að Menntamálastofnun Íslands sé slík stofnun. Þótt stofnunin sé ekki gömul hefur henni tekist á undraverðan hátt að sanna að þar innanborðs stjórna menn sem hafa afskaplega litla tilfinningu fyrir hlutleysi og nákvæmum vinnubrögðum. 

Til að byrja með er Menntamálastofnun Íslands fyrst og fremst angi af pólitískum armi Sjálfstæðisflokksins. Þeir sem þar stjórna eru ekki meiri prinsippmenn en svo að þeir létu sig hafa það að starfa með mögulega ólögmætum hætti í talsverðan tíma. Af því það var vilji ráðherrans.

Nú á dögunum startaði menntamálaráðherrann þjóðarátaki í læsi. Þá tók stofnunin upp á því hjá sjálfri sér að fylgja því átaki úr hlaði með áfellisdómi yfir hinu svokalla byrjendalæsi. Enda er byrjendalæsi að ýmsu leyti ákveðin fagleg mótstaða við markmið ráðherrans, sem fyrst og fremst eru að fyrirmynd últra-hægri stjórnmálaleiðtoga í Bandaríkjunum (sjá t.d. hér). 

Í einhverja daga hefur allt verið vitlaust út af byrjendalæsinu. Andstaðan kom stofnuninni á óvart. Í laumi fjarlægði hún yfirlýsingar sínar af vefnum. Eitthvað var tautað um að myndrit hefðu „valdið misskilningi“. 

Meðal þess sem fólk var ekki nógu klárt til að skilja var myndin með þessari færslu. Venjulegt fólk virðist eiga í einhverjum vandræðum með að skilja hvernig rauða línan tekur nokkuð augljósa dýfu úr punktinum 29,4 í punktinn 29,4 um miðbik myndarinnar. Þá er líka ljóst að ef fimmti punktur á hverri línu er skoðaður er greinilegt að það er umtalsvert lengra frá 29,3 upp í 29,4 en úr sama punkti niður í 29,2. 

Einhverjir meinfýsnir gengu svo langt að halda því fram að vinnubrögð Menntamálastofnunnar Íslands séu afbragðs dæmi um það hvernig ljúga má með gröfum. Og þeir sem vel þekkja til tölfræði segja mér að aðferðafræði stofnunarinnar í framsetningu gagna hafi hreint ekki lagast í frekari leiðréttingum. 

Öll þessi gagnrýni ætti ekki síður við ef samræmd próf væru góð. Sem þau eru svo sannarlega ekki.

En gefum Menntamálastofnun séns. Kannski er það tilviljun að hún sendi frá sér skýrslu (sem löngu var tilbúin) þegar það hentaði pólitískum markmiðum ráðherrans. Kannski er hún samt hlutlaus í störfum sínum og veitir ráðherra aðhald ekki síður en skólunum. Og var það ekki svo að nefnd um læsi hafi beðið um skýrsluna en ekki ráðherrann?

Það er auðvitað hrein tilviljun að yfir þeirri nefnd hafi setið fyrrum alþingsmaður Sjálfstæðisflokksins. 

Hvernig sem nefndin var skipuð þá var það á endanum hún sem bað um skýrsluna sem Menntamálastofnun Íslands birti sem pólitískt útspil fyrir ráðherrann. Menntamálastofnunin fann það ekki upp hjá sjálfri sér.

Eða hvað?

Eins og ég hef áður sagt gekk ekki alveg nógu vel að sveigja téða nefnd til fylgis við hinn pólitíska vilja ráðherrans. Og hvað gerðist þá? Jú, þá hreinlega bættist við (leynilega og óformlega) í nefndina útsendari úr téðri Menntamálstofnun og þrýsti á um „réttar“ málalyktir.

Sem sagt: Það er ekki aðeins þannig að Menntamálastofnun Íslands birti afar umdeilanleg gögn til að styðja við pólitísk útspil ráðherrans. Hún sendir einnig útsendara sína inn í nefndir sem starfa fyrir ráðherrann til að tryggja að nefndirnar marki þá stefnu sem stofnunin ætlar sér að fylgja með góðu eða illu; löglega eða ólöglega (sbr. efasemdir Umboðsmanns).

Til að kóróna allt birtir téð Menntamálstofnun fréttatilkynningar frá ráðherranum eins og þær væru hennar eigin á heimasíðu sinni.

Það er vissulega þörf fyrir hlutlausa rannsóknarstofnun á gæðum náms. Um það er enginn ágreiningur. Hin nýja Menntamálastofnun er ekki slík stofnun. Hún er pólitísk valdbeitingartól fyrir ráðherrann.

Nú er sumsé byrjað að taka dans og söng og myndlist af börnum því þau skulu lesa meira og taka fleiri samræmd próf. 

Þessi saga getur aðeins endað á einn veg. Læsi mun batna eins og Menntamálastofnun Íslands mælir það. En til að troða sér í þann glerskó þarf að skera bæði hæla og tær af börnum.

Við hverju er enda að búast af stofnun sem hefur ótæpileg völd en ekkert faglegt sjálfstæði gagnvart stjórnmálamönnum?

greinin birtist áður á stundin.is og er hér endurbirt með leyfi höfundar

Hæstiréttur grunnskólanna

| Greinar |
About The Author
- Ritstjórn