Líkt og Íslenska Þjóðfylkingin var Flokkur Fólksins stofnaður fyrir rúmu hálfu ári síðan. Inga Sæland formaður flokksins vakti mikla athygli landsmanna í sjónvarpsviðtölum fyrir skynsamlegan og rösklegan málflutning þar sem hún talaði um að bæta kjör aldraðra, öryrkja og annarra sem minna mega sín í íslensku samfélagi. Fylgi flokksins sem var 0,6% við fyrstu mælingar hefur nú náð 3,2% í könnunum.

fr_20160922_046303b

Þann 7. Október gerðist hins vegar nokkuð sem varpaði rýrð á flokkinn en þá var Magnús Þór Hafsteinsson kynntur sem oddviti flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður. Þetta vakti bæði mikla athygli og reiði enda vita þeir sem þekkja sögu Magnúsar hvaða mannfjandsamlegu viðhorf hann hefur gagnvart þeim sem hafa annan lit og trú en hann sjálfur. Magnús beitti sér á sínum tíma að fullu í rasistaáróðri Frjálslynda Flokksins gegn bæði innflytjendum og flóttamönnum. Þekktasta dæmið er án vafa andstaða hans við að Palestínskar flóttakonur og börn þeirra fengju að setjast að á Akranesi. Hin síðari ár hefur Magnús fengist við ýmis ritstörf og hefur m.a. þýtt hatursbókina “Þjóðarplágan Íslam” eftir Hege Storhaug. Magnús er mikill andstæðingur múslima og telur að þeir skaði Evrópsk samfélög.

Á samfélagsmiðlum skapaðist töluverð reiði gagnvart þessari skipan og miðað við umfang umræðunnar er ólíklegt að meðlimir Flokks Fólksins hafi ekki orðið hennar varir. Þeir létu þó alveg vera að gagnrýna skipanina á nokkurn hátt. Einnig var þess vænst að Flokkur Fólksins myndi draga skipan Magnúsar til baka og góð rök færð fyrir því hvaða sjónarmið þessi maður stendur fyrir. Engin svör fengust frá flokksstjórn um hvort að þeir vildu virkilega bendla flokkinn við svona mann og málflutning. Allur vafi var þó tekinn af þann 11. Október þegar Magnús birtist opinberlega sem fulltrúi flokksins Í umræðum stjórnmálaflokkana á RÚV er fjallaði um auðlinda og umhverfismál. Í málflutningi Magnúsar mátti greina þjóðernispopulisma að nokkru leyti þótt umræðan fjallaði ekki um innflytjendamál á nokkurn hátt.

159618aInga Sæland var gestur RÚV seinna sama kvöld í þættinum “Forystusætið” en þar er rætt við formann hvers flokks fyrir sig. Umræðan beindist nokkuð að aðkomu Magnúsar og hvort Flokkur Fólksins hefði einhverja stefnu í málefnum innflytjenda og flóttafólks. Inga svaraði því til að hún þekkti Magnús bara af góðu og hefði ekki hugmynd um hver forsaga hans væri. Þarna tel ég Ingu hafa reynt að sleppa billega því ef við gefum okkur að hún hafi ekki þekkt sögu hans áður en hann gekk í flokkinn þá er nokkuð ljóst að hún hefði átt að vita það eftir allan fréttaflutninginn sem birtist um Magnús eftir skipan hans og frá öllum þeim umræðum sem voru um málið á netmiðlum. Hún bætti því svo við að hvað sem Magnús hefði aðhafst síðustu 10 árin skipti hana engu máli enda yrði flokkurinn ekki rasistaflokkur svo lengi sem hún væri í stjórn. Það má túlka þetta þannig líka að allir séu velkomnir í flokkinn burtséð frá því hver forsaga þeirra er.

inga-saelandÍ umræðum um flóttamenn taldi Inga að stjórnvöld hefðu staðið sig afar vel í málaflokknum og að Flokkur Fólksins myndi halda því starfi áfram. Þetta er þvert á álit þeirra sem gagnrýnt hafa stefnu stjórnvalda í móttöku flóttamanna en Ísland hefur tekið við sáralitlum fjölda fólks í samanburði við löndin í kringum okkur og stjórnvöld hafa ekki hikað við að vísa fólki úr landi sem á dauðann vísan verði það sent aftur til heimalandsins. Sömuleiðis vildi hún taka upp öflugt vegabréfaeftirlit. Flokkur Fólksins leggur einnig mikla áheyrslu á kristin gildi sem er undarlegt viðhorf í fjölmenningarsamfélagi þar sem trúfrelsi ríkir.

Hugsanlega er það út af svona sjónarmiðum sem Magnús telur sig eiga samleið með Flokki Fólksins en líklegra er þó að hann sjái tækifæri í að breyta stefnunni algjörlega og umbylta flokknum líkt og honum tókst að breyta Frjálslynda Flokknum í rasistaflokk, ásamt félögum sínum, árið 2006. Stefnuleysi í stefnuskrá Flokks Fólksins um innflytjendamál og daður Ingu Sæland við þjóðernispopulisk viðhorf er eitthvað sem Magnúsi líkar vel og telur hann grundvöll vera fyrir enn meiri harðlínustefnu.

Ljóst varð í síðustu viku að Íslenska Þjóðfylkingin næði ekki að bjóða fram í nema tveimur kjördæmum á landsvísu. Flokkurinn hefur allt frá stofnun sinni alið á hatri og ótta gegn innflytjendum, flóttamönnum og trúarbrögðunum Islam. Flokkurinn hefur sömuleiðis myndað tengsl við nýnasista og leyft LGBT höturum að blómsta innan sinna raða. Borðliggjandi er að sumir meðlimir flokksins hika ekki við að beita ofbeldi og hótunum til að ná sínu fram. Þegar menn hata þá miðast hatrið sjaldnast við einn hóp og á það til að breiða úr sér, jafnvel gagnvart öðrum flokksmeðlimum en það hefur gerst nú þegar innan Þjóðfylkingar en þar logar allt í innbyrðisdeilum um þessar mundir.

Þar sem Íslenska Þjóðfylkingin nær ekki að bjóða fram í fjórum kjördæmum þá líta meðlimir á Flokk Fólksins sem sinn annan valkost enda Magnús Þór Hafsteinsson í miklum metum hjá rasistum landsins. Jón Valur Jensson, einn virkasti meðlimur Þjóðfylkingarinnar, var í þriðja sæti flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður en þar náðist ekki framboð. Hann hvetur á bloggsíðu sinni alla meðlimi í þeim kjördæmum, sem flokkur hans nær ekki að bjóða fram, til að kjósa Flokk Fólksins. Á Facebook síðu Þjóðfylkingar hvetja margir félagar Jóns til hins sama. Greina má alla umræðu á þeim vettvangi á þann hátt að hver einasti maður sem tjáir sig um málið telur Flokk Fólksins vera fýsilegasta kostinn til að kjósa í þeim kjördæmum sem Íslenska Þjóðfylkingin nær ekki að bjóða fram í. Flokkur Fólksins hefur hvergi lýst því yfir að þau séu eitthvað ósátt við að hirða drjúgan hluta rasistafylgisins.

inga-saeland-2Meðlimir Flokks Fólksins eru flestir gott fólk sem hafa komið fram með málefnalega og þarfa umræðu. Það fólk vill ekkert með rasisma hafa að gera og hefur aldrei tjáð sig á nokkurn slíkan hátt í opinberri umræðu. Fólkið þyrfti þó að kynna sér sögu Frjálslynda Flokksins og kynna sér hvernig yfirtaka rasista átti sér þar stað. Hún byrjaði með ofstæki fárra manna og þögn nær allra meðlima sem töldu sig vera að gera flokknum greiða með því að þegja um málið. Ef að Flokkur Fólksins nær í þessum kosningum inn á þing eða fjárstyrkjum frá hinu opinbera (30 milljónir yfir kjörtímabilið ef 2,5% atkvæða nást) þá má reikna með því að fleiri rasistar en Magnús skrái sig í flokkinn og reyni að hafa þar áhrif. Slíkt hefur heppnast áður og það er engin ástæða til að halda að það geti ekki gerst aftur. Inga Sæland er óreynd í pólitík og þær yfirlýsingar hennar um að flokkurinn verði ekki rasistaflokkur undir hennar stjórn eru hlægilegar í ljósi þess að hún mun koma til með að eiga í valdabaráttu við reynda pólitíska refi sem hafa reynsluna og viljann til að breyta flokknum til hins illa.

Heimildir:

http://www.ruv.is/sarpurinn/ruv/althingiskosningar-2016-forystusaetid/20161014

http://www.ruv.is/sarpurinn/ruv/althingiskosningar-2016/20161014

http://jonvalurjensson.blog.is/blog/jonvalurjensson/entry/2182154/

http://stundin.is/frett/gallhardur-thjodernissinni-leidir-lista-flokks-fol/

 

Hinir Nýju Kyndilberar Haturs?

| Gunnar Hjartarson |
About The Author
-