Forsætisráðherra Danmerkur, kratinn Helle Thorning-Schmidt, hefur blásið til sóknar gegn flóttamönnum og innflytjendum. Mér finnst ekkert ósanngjarnt að orða það þannig, því óháð hvötunum þarna að baki (sem ég leyfi mér reyndar líka að efast um að séu góðir) tel ég mjög líklegt að helstu áhrifin af þessum málflutningi verði að ýtt er enn frekar undir tortryggni í garð þessa fólks og þrengt að lífskjörum þess. Tónninn í tilkynningu forsætisráðherrans er sá að Danmörk sé í grunninn frábært land, það besta í heimi hvorki meira né minna, sem stafi hins vegar ákveðin ógn af utanaðkomandi fólki og ef Danir passa sig ekki verður landið þeirra óþekkjanlegt.

Málflutningur af þessu tagi, þar sem veruleikinn er flokkaður í ‘okkur’ og ‘þau’ er sorglega kunnuglegur. Hann byggist alltaf á því að stjórnmálamaður talar meðvitað eða ómeðvitað til eins hóps sem er stillt upp á móti öðrum, sem yfirvöld ætla að taka á til að vernda hinn hópinn. Sá hópur er alltaf hópur sem stjórnmálamaðurinn býst við að fá atkvæði frá. Þegar stór hluti hópsins sem er verið að ‘verja’ hinn gegn er ekki einu sinni með atkvæðisrétt, eins og er í tilfelli flóttafólks og innflytjenda, er litlu fórnað fyrir gróðann sem af þessu hlýst. Svo lengi auðvitað sem hópurinn sem er lofað ‘vernd’ kaupir málflutninginn. Það gerist því miður oft enda er spilað þarna inn á rótgrónar og djúpstæðar tilfinningar sem ég tel að stjórnmálamenn ættu að varast að misnota með völdum sínum og áhrifum.

Þessi tækni hefur verið kölluð hundaflautupólitík, þar sem talað er undir rós en ekki beint út og þeir sem er verið að tala til átta sig jafnvel ekki endilega sjálfir almennilega á því hvaða hvata hún höfðar til hjá þeim. Fordómar eru nefnilega lúmskt fyrirbæri og ómeðvitað. Jafnvel við sem erum nokkuð fordómalaus og leitumst við að taka eftir eigin fordómum og leiðrétta þá erum mótuð af umhverfi okkar og haldin ýmsum ómeðvituðum hugsunum og hvötum sem stýra hegðun okkar án þess að við áttum okkur almennilega á því. Sálfræðirannsóknir hafa dregið þetta ágætlega fram með snjöllum hætti. Það er töluverð einföldun að líta á fordóma sem einungis eitthvað sem fólk er algjörlega meðvitað um og lýsir fjálglega með hatursfullu orðalagi. Fordómar eru nefnilega mun djúpstæðara kerfisbundið vandamál og stjórnmálamenn þurfa að átta sig á þessu og leitast við að draga úr fordómum í stað þess að kynda undir þá. Ef við tökum það virkilega alvarlega að axla okkar ábyrgð á því að halda samfélaginu heilbrigðu er baráttan gegn fordómum ekki síst mikilvægari en baráttan gegn til dæmis vandamálum í innflytjendakerfinu. Það er nefnilega allt og sumt – ef vandamál eru til staðar í einhverju ríki í þessum efnum liggja þau í kerfum þess og borgarar þess þurfa að taka ábyrgð á því að laga þau. Tal um innflytjendurna sem vandamál í sjálfu sér er hins vegar stórvarasamt.

Hundaflautupólíkin hefur verið notuð með áhrifaríkum hætti í Bandaríkjunum. Ekki bara til að hala inn atkvæðum heldur til að stýra pólitíkinni í þá átt sem þeir sem beita henni vilja að hún fari í. Sögulega séð hefur á flautuna verið spilað mikið á ótta við blökkumenn og hún notuð til að berja niður tilburði til að taka á kerfislægum vandamálum sem halda þeim niðri en þess í stað farið í mun yfirborðskenndari og ómannúðlegri aðgerðir. Velferð og forvörnum er rústað á meðan löggæsla er hert. Gefist er leynt og ljóst upp gagnvart því að sumum (helst blökkumönnum) sé bara ekki við bjargandi. Gettóvæðing og fangelsun á blökkumönnum í massavís eru ágætur vitnisburður um þetta. Í Bandaríkjunum helst hundaflautupólitíkin í hendur við pólitík þar sem grafið er undan velferðarkerfinu en skattar á hina ríku eru lækkaðir og dregið úr fyrirtækjaregluverki. Ríkið (eða ákveðnar hliðar þess; vernd þess gegn þeim hópum sem eru taldir ógna samfélaginu í formi löggæslu og eftirlits er til dæmis undanþegin) er útmálað sem vandamál í sjálfu sér – og það gengur mjög vel ofan í fólk sem telur sér meðvitað eða ómeðvitað trú um að velferðarríkið þjóni bara einhverjum öðrum en því sjálfu. Velferðarkerfum er ætlað að þjóna öllum og veita þeim stuðning sem ekki geta staðið sjálfir uppi, hvort sem það er tímabundið eða varanlega. Það er auðvelt að grafa undan þeim smátt og smátt með því að fá fólk til að telja að kerfið virki ekki þannig í raun, að of margir séu afætur á kerfið og duglegt fólk sé að halda uppi lötum afætum. Það er þeim mun auðveldara að gera þetta með því að skipta fólki í hópa þar sem fólk í einum hópnum finnst það vera duglega fólkið en að svo sé eitthvað annað fólk sem er ekki duglegt. Eins og ég segi þarf þetta ekki að vera meðvitað en fólk á mjög auðvelt með að detta ofan í svona þankagang og hugsa því málin ekki lengra og gleypa allt of fljótt við málflutningi sem gerir út á fordómana. Ég hef séð ótrúlegasta fólk sem er mjög samfélagslega meðvitað og styður velferðarkerfi til dæmis detta í þann gír að við þurfum nú fyrst að sjá um ‘okkar’ fólk áður en við getum tekið við fleirum.

Það er þó full ástæða til að hugsa málin lengra. Margir í hópi flóttafólks eru ófærir um að vinna fyrst um sinn, enda eru þeir að flýja stríðshrjáð ríki og þurfa á stuðningi að halda við að til dæmis jafna sig á áfallastreituröskun. Þegar það er orðið vinnufært getur það farið að vinna og hafa verður í huga, ef við erum að hugsa út frá köldum hagfræðistaðreyndum, að jafnvel þó það geti kostað sitt að gera slíkt fólk vinnufært er það ekkert miðað við það sem það kostar samfélagið að gera innfætt barn vinnufært. Tal hins danska forsætisráðherra tekur hins vegar ekkert tillit til þessa – sú stríðsyfirlýsing að fólk sem komi til landsins eigi bara að vinna er ekki í samræmi við hinn flóknari undirliggjandi veruleika. Það má vel vera að þrengja mætti einhver skilyrði en það breytir engu um að framsetningin er ömurleg og tekur lítið á ábyrgð danska ríkisins og danskra borgara sjálfra. Það er rík ástæða fyrir því að danski Rauði Krossinn varar við þessu enda þekkir fólkið þar hinn undirliggjandi veruleika og staðreyndir örugglega mun betur en stjórnmálamenn sem fyrst og fremst er umhugað um að selja ímynd og orðræðu.

Það skiptir mjög miklu máli hvernig hlutirnir eru orðaðir – það er pólitík út af fyrir sig. Og pólitík sem er gefið að kyndir undir fordóma og ósamheldni er pólitík sem ég kæri mig ekkert um.

Halldór Auðar Svansson

Halldór Auðar Svansson

Tölvunarfræðingur.
Hugsjónanjörður.
Borgarfulltrúi Pírata.
Formaður stjórnkerfis- og lýðræðisráðs Reykjavíkurborgar.
Zen-lærlingur.
Halldór Auðar Svansson

Hundaflautan blæs í Danaveldi

About The Author
- Tölvunarfræðingur. Hugsjónanjörður. Borgarfulltrúi Pírata. Formaður stjórnkerfis- og lýðræðisráðs Reykjavíkurborgar. Zen-lærlingur.