semaerla

Sema Erla Serdar skrifar –

Íslensk stjórnvöld axli ábyrgð og hætti að vísa á brott fólki sem leitar eftir alþjóðlegri vernd!

Það snerti mig djúpt að hlusta á sögu Isabel Alejandra Díaz í Kastljósi í gær. Saga þessarar frábæru ungu konu og fjölskyldu hennar er átakanleg en sem barn bjó Alejandra við stöðugan ótta um að vera vísað úr landi af íslenskum stjórnvöldum. Í meira en áratug bjó hún við óvissu og ótta en saga Alejöndru er dæmi um hversu ónýtt kerfið er sem heldur utan um málefni útlendinga, flóttamanna og hælisleitenda og mikilvægt er að endurskoða og byggja upp með mannúð og réttlæti að leiðarljósi.

Sem betur fer endaði saga Alejöndru vel. Það er hins vegar alls ekki hægt að segja um alla sem er á flótta.

Samkvæmt Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna eru meira en 60 milljónir á flótta í heiminum í dag. Helmingurinn af þeim er börn, sem eiga m.a. á hættu að verða fórnarlömb kynferðisofbeldis, vændis og mansals ef þau komast lífs af yfir til Evrópu. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna áætlar að meira en ein milljón einstaklinga hafi komið sjóleiðina til Evrópu árið 2015. Það er dropi í hafið ef litið er á heildarmyndina. Meira en helmingurinn af þeim sem hafa komist lífs af yfir til Evrópu eru konur og börn en 30% þeirra sem drukknuðu á Miðjarðarhafinu í fyrra voru börn.

Vegna aukinna átaka, borgarastyrjalda og ofbeldis í Mið-Austurlöndum og Afríku hefur hlutfall þeirra sem óskað hafa eftir alþjóðlegri vernd vaxið svo um munar síðustu ár og ljóst er að ekkert lát verður þar á á næstu mánuðum og jafnvel árum. Í síðustu viku drukknuðu hátt í 1000 flóttamenn á Miðjarðarhafinu og margir kvíða nú sumrinu en með hækkandi sól má gera ráð fyrir því að enn fleiri leggja á flótta yfir Miðjarðarhafið.

Ljóst er að ástandið er grafalvarlegt. Evrópa stendur frammi fyrir gríðarlegri áskorun og getuleysi evrópskra stjórnvalda til þess að taka á auknum straumi flóttamanna er mikið áhyggjuefni. Kerfin eru hrunin, gaddavírsgirðingar eru settar upp innan landamæra Evrópu, lík rekur upp á strendur Evrópu, örvæntingarfullir hælisleitendur krækja sér undir lestarvagna, eigur flóttamanna eru teknar af þeim, fjölskyldum er gert erfitt að sameinast, fjölgun er á ofbeldisfullum árásum sem gerðar eru á flóttamannamiðstöðvar í Evrópu sem uppfylla ekki lágmarkskröfur um hvað telst mannúðlegt.

Ísland hefur lögfest Mannréttindasáttmála Evrópu, Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Íslensk stjórnvöld verða tafarlaust að hætta að vísa á brott hælisleitendum og öðrum sem hingað leita eftir aðstoð. Íslensk stjórnvöld verða að gangast við ábyrgð sinni og leggja sitt af mörkum til þess að hægt sé að takast á við straum flóttamanna til Evrópu sem er ekki mál einstaka ríkja eða einstaklinga heldur mál sem snertir okkur öll.

Almenn skynsemi segir okkur að nú, þegar meira en milljón flóttamanna, karlar, konur og börn, eru komin til Evrópu, sé ekki tíminn til þess að nýta valkvæðar lagaheimildir til þess að réttlæta brottvísanir fólks sem hefur þurft að yfirgefa heimili sitt og land vegna átaka eða ofsókna og er tilbúið til þess að fórna lífi sínu og fjölskyldu sinnar með þá einu von að einhvers staðar geti það mögulega lifað.

Það eru kannski landamæri á milli ríkja en það eru engin landamæri á milli fólks. Við eigum ekki að senda flóttamenn sem hingað koma úr landi – við eigum þvert á móti að bjóða fleiri flóttamönnum til landsins. Annað er ómannúðlegt og til háborinnar skammar!

 

Sema Erla Serdar

Sema Erla Serdar

29 ára stjórnmála- og Evrópufræðingur sem berst fyrir friði, frelsi og jafnrétti þegar hún er ekki að horfa á fótbolta eða leika við hundana sína.

Formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi. Fyrrverandi formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar. Ungur jafnaðarmaður!
Sema Erla Serdar

Latest posts by Sema Erla Serdar (see all)

Íslensk stjórnvöld axli ábyrgð !!

| Sema Erla Serdar |
About The Author
- 29 ára stjórnmála- og Evrópufræðingur sem berst fyrir friði, frelsi og jafnrétti þegar hún er ekki að horfa á fótbolta eða leika við hundana sína. Formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi. Fyrrverandi formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar. Ungur jafnaðarmaður!