Íslenskir rasistar alþjóðavæðast

Vakur – samtök um evrópska menningu gætu virkað sakleysisleg á yfirborðinu en ekki þarf að skyggnast langt undir yfirborðið til að sjá að einungis er um sæmilega dulbúin rasistasamtök að ræða. Eins og iðulega með slík jaðarsamtök hérlendis vill enginn leggja nafn sitt við þau. Vefsíða samtakanna er vel upp sett og sömuleiðis Facebook síða þeirra. Ekki er um neitt fúsk að ræða þar en málflutningurinn hljómar kunnuglega. Andúð á fjölmenningu, lítillækkun á íslam, and-feminismi og samsæriskenningar um að menningar-marxismi sé allsráðandi í Evrópu.

Við höfum nokkur rasistasamtök fyrir á Íslandi en það sem virðist einkenna þau öll er ófagmennska í vinnubrögðum og heimskan sem vellur út úr meðlimunum sem tala af slíku þekkingarleysi að óvitar virka gáfaðir í samanburði. Rasistar á Íslandi eru hreinlega aðhlátursefni að miklu leyti þó svo að ekkert hlægilegt sé við hugmyndafræðina sem þeir boða. Í stað þess að taka þátt í þeim trúðasamkomum sem fyrir eru þá virðast samtökin Vakur frekar vilja sverja sig í ætt við alvörugefna fasista. Þjóðinni stafar hætta af því að slík samtök séu nú að koma fram á sjónarsviðið.

Robert Spencer

Eitt af fyrstu verkum Vakurs var að tilkynna fyrirlestur manns að nafni Robert Spencer. Hann er forstöðumaður vefsíðunnar JihadWatch sem er þekktasta múslimahatursvefsíða heimsins. Nánasta samstarfskona hans er Pamela Gellar sem hann hefur í slagtogi við stofnað samtökin Stop Islamization of America (SIOA) og Freedom Defense Initiative. Bæði samtökin hafa verið flokkuð sem haturssamtök af Anti-Defamation League og Southern Poverty Law Center.

Árið 2013 ætluðu þau Spencer og Gellar að tala á samkomu English Defence League (EDL) í Englandi en var meinuð innganga inn í landið á grundvelli þess að þau væru ógn við almannahagsmuni vegna þess haturs sem þau boða. EDL eru þekkt fyrir tengsl sín við nýnasista og fótboltabullur og hafa staðið markvisst fyrir ofbeldi og hótunum. Tommy Robinson, stofnandi EDL, yfirgaf samtökin seinna sama ár eftir að hafa áttað sig á ógninni sem stafaði af rasistum og hægri-öfgamönnum innan EDL. Ekki er þó hægt að tala um hugarfarsbreytingu hjá Robinson þar sem hann er enn sama sinnis. Skoðanir hans flokkast þó frekar undir nýrasisma en þann gamla erfðafræðilega.

Fræðileg umfjöllun um íslam eða vísvitandi rangtúlkanir?

Robert Spencer og samstarfsmenn hans gefa sig út fyrir að fjalla eingöngu um íslam á fræðilegum grunni og segjast ekki hvetja til haturs á múslimum en fljótt verður þó ljóst að tilgangur hans er að rangtúlka íslam eftir hentugleika og kynda þannig undir hatri fólks á trúnni og fylgjendum hennar.

Sjálfstæða fjölmiðlaeftirlitsnefndin Fairness & Accuracy in Reporting (FAIR) hefur flokkað Spencer sem einn af tólf einstaklingum í flokknum “Dirty Dozen: America’s Leading Islamophobes” og segja hann kerfisbundið stuðla að ótta, fordómum og dreifa fölskum upplýsingum. Ennfremur segir: “Með því að hunsa eftir hentugleika þá texta í íslam og álit sem honum hentar illa, ályktar Spencer að íslam sé í eðli sínu öfgafull og ofbeldisfull trú.”

Dáður af hryðjuverkamanninum Anders Breivik

Anders Breivik

Þann 22. Júlí 2011 átti sér stað mannskæðasta hryðjuverkaárás í Noregi fyrr og síðar er Anders Breivik myrti samtals 77 manns annarsvegar í sprengjuárás og hinsvegar í skotárás. Fórnarlömb hans voru mestmegnis börn og unglingar. Í huga Breivik var verið að íslamsvæða Noreg og hryðjuverkin taldi hann vera sinn þátt í að hindra það. En hver kom þessum fáránlegu ranghugmyndum inn í kollinn á manninum?

Breivik hafði álit á fjölda öfgamanna en á engum hafði hann jafn mikið dálæti á og Spencer. Í pólitísku hatursriti sínu 2083 – A European Declaration Of Independence vitnar hann í skrif Spencer oftar en 50 sinnum. Hann stakk meira að segja upp á því að Spencer yrðu veitt friðarverðlaun Nóbels. Hatursorðræða sú er Spencer stundar miðar af því að æsa upp óstöðuga einstaklinga, fá þá til að taka hatrið skrefinu lengra en fyrra sig svo jafnframt ábyrgð á því að hafa haft eitthvað með gjörðir þessara fylgjenda sinna að gera. Það eru menn eins og Robert Spencer sem búa til menn eins og Anders Breivik.

Alþjóðlegt tengslanet við ný-nasista og fasista

Íslenskir rasistar hafa löngum reynt að tengjast sterkum erlendum rasistahreyfingum nánum böndum. Má þar nefna sem dæmi Blood and Honour – Combat 18, Soldiers of Odin og Nordfront. Ekki er samt vitað til þess að nokkur á vegum áðurnefndra samtaka hafi komið til Íslands eða verið í persónulegu sambandi við þá sem reynt hafa að koma á fót sérlegri Íslandsdeild haturshópana. Tilraun Vakurs til að koma á tengslum við Spencer og þau haturssamtök sem hann stjórnar er því nokkuð ný af nálinni. Færa má þó rök fyrir því að um áframhaldandi tilraun sé að ræða í kjölfar komu Norska ný-rasistans Hege Storhaug hingað til lands í fyrra. Storhaug á þó lítið í Spencer þegar kemur að því að vera umsvifamikil í heimi rasismans.

Robert Spencer og samstarfsmenn hans eru þó með mjög umsvifamikil tengsl við bæði einstaklinga og samtök sem boða nýnasisma og fasisma. Um er að ræða m.a. tengsl eins og við Danska nasistann Julius Børgesen sem hefur verið virkur i Dansk Front og Blood and Honour – Combat 18. Hann var árið 2007 dæmdur fyrir að hvetja til þess að innflytjendaráðherra Danmerkur yrði brenndur lifandi. Tengsl Spencer ná einnig inn í hreyfingu Danska Nasistaflokksins.

Tengslin ná líka til landa eins og t.d. Spánar, Búlgaríu og Rússlands. Nýnasistar sem bera á sér húðflúraða hakakrossa taka iðulega þátt í samkomum Spencer. Einnig hafa þeir beint samband við hann og aðra sem tilheyra haturssamtökum hans. Töluvert af þeim einstaklingum eru dæmdir ofbeldismenn.

Christine Williams

Upphaflega var aðeins Robert Spencer boðaður sem fyrirlesari en vegna öfga hans hefur verið reynt að mýkja ásjónu fundarins með að fá Christine Williams líka. Hún er múslimahatari eins og Spencer en þó ekki jafn öfgafull og hann. Hún tilheyrir hugveitunni Gatestone Institute sem boðar íslamsfóbísk viðhorf. Á síðu hugveitunnar hefur Hollenski fasistaleiðtoginn Geert Wilders m.a. fengið greinar birtar eftir sig. Það er varla þess virði að fjalla nánar um Williams þar sem Spencer er augljóslega sá fyrirlesari sem á að trekkja á haturssamkomuna.

Fyrirhuguð ráðstefna á Grand Hótel

Á ótrúlegan hátt hefur hið annars virta Grand Hótel blandast inn í alþjóðlegan hring fasisma. Í stað þess að kynna sér fyrirlesara og tilgang ráðstefnunnar leigði hótelið rasistum sal sinn undir fundarhöld og hefur um leið skapað sér þá verstu auglýsingu sem hægt er að fá. Ég er þó ekki að ýja að því að fyrirtækið styðji rasisma en þá ákvörðun um að leigja sal sinn út til þessara hættulegu öfgamanna ætti að endurskoða.

Fari ráðstefnan fram má reikna með margvíslegum afleiðingum:

  1. Hatur í garð múslima mun stigmagnast líkt og gerðist eftir heimsókn Norska ný-rasistans Hege Storhaug hingað til lands í fyrra.
  2. Hatursorðræða mun verða meira áberandi á netmiðlum.
  3. Múslimar munu koma til með að verða fyrir auknu áreiti á götum úti.
  4. Hatursglæpir verða framdir.
  5. Allir minnihlutahópar munu líða fyrir hið aukna hatur enda sést á tengslaneti Spencer að fylgjendur hans hatast ekki einungis við einn þjóðfélagshóp.
  6. Íslenskir rasistar munu fá vítamínsprautu og telja sig hluta af stærra batterí en jaðarhreyfingum hérlendis.
  7. Lagður verður grunnurinn af því að skapa annan Anders Breivik á Íslandi. Gleymum því ekki að Robert Spencer var helsti áhrifavaldur hryðjuverkamannsins.

Hver tekur ábyrgð?

Margir eru þeirrar skoðunnar að í nafni tjáningarfrelsis sé Robert Spencer heimilt að tjá sig að vild hér og muni svo þurfa að taka ábyrgð á orðum sínum. Staðreyndin er þó sú að hann mun ekki þurfa að bera ábyrgð á nokkrum sköpuðum hlut. Til þess að átta sig á því þurfa menn að skilja muninn á Evrópskri hatursglæpalöggjöf og Bandarískri löggjöf þar sem ekkert bann er við hatursáróðri.

Bandaríkin eru heimaland Spencer. Hann mun koma til Íslands í nokkra daga og fara svo aftur þangað. Ef málflutningur hans á ráðstefnunni brýtur í bága við landslög myndi taka langan tíma að gefa út ákæru á hendur honum. Þegar sú ákæra yrði loks gefin út væri Spencer löngu kominn heim til sín. Bandaríkin munu ekki framselja eigin ríkisborgara vegna einhvers sem er fullkomlega löglegt þar og því yrði málið á hendur honum aldrei tekið fyrir hér.

Skilningsleysi er orðið sem mætti nota um afstöðu margra Íslendinga til fundarhaldana. Margir þeirra sem tala um að þetta snúist eingöngu um tjáningarfrelsið gleyma að setja sig í fótspor þeirra sem hatursáróðurinn mun bitna á. Gefum greinahöfundinum Söru Mansour orðið:

“Ég mun hins vegar vera hrædd við að koma aftur til landsins. Ég mun óttast um sjálfa mig og ég mun óttast um fjölskyldu mína. Ég er skotmark rasista á Íslandi. Margir af þeim sem eru “attending” fyrirlesturinn hafa persónulega hótað mér ofbeldi, lífláti og öðru sem einhverjir myndu segja að væri jafnvel verra en dauðinn.”

Getum við gert eitthvað?

Ég vil byrja á því að skora á Íslensk stjórnvöld að fara að fordæmi Breta og meina þeim Robert Spencer og Christine Williams inngöngu inn í landið til verndar almannahagsmunum. Ef það verður ekki gert og ef Grand Hótel aflýsir ekki ráðstefnunni er fátt annað að gera en að grípa til fjöldamótmæla. Það er alveg ljóst að við sem þjóð megum ekki leyfa öfgaöflunum að sigra. Við stöndum með minnihlutahópum samfélagsins gegn rasisma.

 

Heimildaskrá:

http://www.ibtimes.co.uk/english-defence-league-islam-woolwish-483499

http://www.bbc.com/news/uk-politics-24442953

http://www.bostonglobe.com/metro/2013/01/31/roman-catholic-diocese-worcester-cancels-speech-critic-islam/I7NCZ8XFtPB8PXXQuAct1J/story.html

http://www.islamophobia.org/islamophobic-individuals/robert-spencer/78-robert-spencer.html

http://www.dailymail.co.uk/news/article-2018976/Norway-shooting-Anders-Behring-Breivik-inspired-Robert-Spencer-Unabomber.html

http://www.alternet.org/news-amp-politics/notorious-islamophobic-think-tank-inspiring-more-far-right-terrorism

http://shoebat.com/2016/12/23/bombshell-major-scandal-uncovered-pamella-geller-and-robert-spencer-running-an-international-scam-involving-neo-nazis-anti-christian-neo-pagans-mafia-thuggery-and-terrorism/

Íslenskir rasistar alþjóðavæðast

| Gunnar Hjartarson |
About The Author
-