Jóhann Páll Jóhannsson blaðamaður segir á facebook síðu sinni að hann sé hættur störfum á DV og hafi tilkynnt yfirmönnum það. Hér á eftir fer harðorð facebook færsla Jóhanns Páls um málið:

Er hættur á DV og tilkynnti yfirmönnum mínum það áðan. Ég get ekki hugsað mér að vinna á fjölmiðli þar sem
– framkvæmdastjóri og eigandi láta skjöl innan af ritstjórninni berast til auðmanns úti í bæ, sama auðmanns og keypti hlut í blaðinu til að kæfa óþægilega umfjöllun um sjálfan sig
– aðaleigandi blaðrar um launamál undirmanns síns við óviðkomandi aðila og reynir að etja starfsmönnum hverjum gegn öðrum
– blaðamenn sem dirfast að spyrja spurninga um eignarhald DV og ásetning nýrra eigenda eru látnir fjúka.

Eflaust hlakkar í mörgum vegna sviptinganna á DV. Einn af nýju eigendum miðilsins er Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður sem um árabil hefur amast við fréttaflutningi blaðsins, t.d. af Vafningsmálinu og valdníðslu innanríkisráðuneytisins, kallað fréttastjóra DV furðulegum nöfnum og gert honum upp annarlegar hvatir. Auk þess hefur hann staðið í málarekstri gegn DV fyrir Bakkavararbræður og Björn Leifsson. Þeir og aðrir skjólstæðingar Sigurðar – til að mynda sakborningar í málum sérstaks saksóknara – geta skálað fyrir því að lögmaðurinn sé kominn í eigendahóp DV um leið og múrinn milli ritstjórnar og eigenda er að hverfa.

Fleiri eiga hagsmuna að gæta. Lengi hefur legið fyrir að öfl tengd Framsóknarflokknum vilja knésetja DV, enda hefur blaðið fjallað með krítískum hætti um mannréttindamál, spillingu, útlendingahatur, valdníðslu og ljúgandi ráðamenn.

Reynir Traustason lýsir því í nýútkominni bók hvernig skuggaeigandi DV, unnusti Vigdísar Hauksdóttur, kvartaði undan lekamálinu og „dekri við hælisleitendur” og hvernig fréttaflutningur af málefnum Framsóknarflokksins olli titringi í hluthafahópi blaðsins. Þá segir hann frá því þegar Guðni Ágústsson og Óskar Bergsson buðust til að útvega DV hlutafé í sama mund og sá fyrrnefndi lýsti yfir áhyggjum af ímynd Sigmundar Davíðs. Í október hafði svo Kjarninn eftir Ólafi M. Magnússyni, fyrrum stjórnarformanni DV, að Hrólfur Ölvisson, framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins, hefði þrívegis fundað með sér og reynt að koma því til leiðar að menn tengdir Framsóknarflokknum eignuðust hlut í DV.

Eftir að blaðið skipti um eigendur í ágúst hefur gegndarlaust niðurrif átt sér stað. Nú eru skemmdarverkin á lokastigi. Björn Ingi Hrafnsson, áhrifamaður í Framsóknarflokknum, hefur eignast meirihluta í DV og gert vin sinn úr sama flokki, Eggert Skúlason, að ritstjóra. Síðasta föstudag tilkynnti Eggert á fréttafundi að blaðamennska á borð við þá sem tíðkaðist í máli Hönnu Birnu yrði ekki liðin á hans vakt.”

Fjársterk öfl í íslensku samfélagi hatast við frjálsa fjölmiðlun og hamast gegn henni á öllum vígstöðvum. Yfirtakan á DV er ein ljótasta birtingarmynd þess. Sá hlær best sem á spilltustu vinina.

Jóhann Páll yfirgefur DV

| Samantekt |
About The Author
- Ritstjórn