graentSandkassinn mun á næstunni fara yfir stefnu allra flokka í innflytjendamálum og málum flóttafólks og hælisleitenda sem bjóða fram í alþingiskosningum sem fara fram þann 29. Október 2016. Við munum síðan gefa út lista yfir stefnuskrá allra flokka í útlendingamálum. Sandkassinn mun að sjálfsögðu vega stefnu flokkanna og síðan gefa út hvaða flokkum við álítum treystandi til að hafa umsjón með útlendingamálum.

Alþýðufylkingin

 

Við lestur á Stefnuskrá Alþýðufylkingarinnar er ekki minnst á þessa málaflokka einu orði. En okkur hefur borist ábending um ítarlegri stefnuskrá og hækkar hún matið upp í grænt ljós. Við viljum mæla með því að komið verði fyrir krækju í stefnuskránni í viðbótarupplýsingarnar ásamt tilvísun.

Stefna Alþýðufylkingarinnar í innflytjendamálum og málum flóttafólks og hælisleitenda lítur ágætlega út þegar að lesin er viðauki við stefnuskrá flokksins “Fjögurra ára áætlun Alþýðufylkingarinnar 2016-2020“.

Hér má lesa kafla um flóttamenn úr fjögura ára áætlun flokksins og verðum við að segja að við erum hrifin, þetta er skýr og góð stefna, eftir sem áður mættu vera þarna skýrari sértæk áform og frumvörp sem flokkurinn hefði hugsað sér að leggja fram :

  ” Flóttamenn
        Almennt trúum við á rétt fólks til að lifa með reisn við öryggi og velferð. Við fordæmum þá sem hrekja saklaust fólk á vergang og lítum á það sem skyldu okkar að hjálpa þeim sem við getum hjálpað. Við vildum stela slagorðinu af fótstalli Frelsisstyttunnar og gera það að okkar: Gefið mér ykkar þreyttu, fátæku og kúguðu sem þrá að draga andann frjálsir.

        Við viljum að Íslendingar búi sig undir að taka við miklum fjölda flóttamanna sem flýja stríð, hungursneyðir, ofsóknir og kúgun. Við viljum byggja upp þá innviði sem þarf til að veita húsaskjól, heilbrigðisþjónustu, menntun og annað sem flóttafólk þarfnast og bjóða það svo velkomið svo hratt og í þeim mæli sem samfélagið þolir að taka við því. Nauðsynlegt er að vanda vel til verka svo að sem mest sátt geti skapast, því öðruvísi er það ekki hægt.

        Við viljum ekki að aðstoð við flóttafólk (frekar en aðra bágstadda) sé ölmusa og ekki að það sé misnotað sem ódýrt vinnuafl, heldur taka á móti því sem jafningjum og í samstöðu. Það þýðir að það geti unnið fyrir sér á sömu kjörum og aðrir, það njóti sömu réttinda og aðrir.

        Við viljum líka styðja hjálparstörf í flóttamannabúðum erlendis, þar sem fólk býr víða við hryllilegar aðstæður sem ráðamenn heykjast á að bæta úr og þykjast ekki hafa efni á því, sitjandi sjálfir mettir og spariklæddir í allsnægtum.

        Baráttan gegn hörmungum er samt veigamesta flóttamannahjálpin: barátta gegn heimsvaldastefnu, gegn farsóttum, gegn kúgun og gegn umhverfisspjöllum. Mesta hjálpin við flóttamenn er að hrekja þá ekki á flótta til að byrja með.”

Ekki koma fram nein áform um að leggja fram frumvörp eða að koma á aðgerðaráætlun.

Engin áform er að finna hjá Alþýðufylkingu í málefnum Útlendingastofnunar, aðkomu ráðherra að þeirri stofnun eða kærunefnd Útlendingamála. Engar nákvæmar vísanir eru til þeirra títt umtöluðu vandamála sem að stofnunin stendur frammi fyrir eða pólitískri harðlínu í garð hælisleitenda.

Sandkassinn vill beina því til Alþýðufylkingarinnar að flokkurinn lagi þetta fyrir kosningar svo að hægt sé að uppfæra matið á hæfi flokksins til að fara með stjórn útlendingamála.

Kosningavakt 2016. Alþýðufylkingin: Grænt ljós (uppfært)

| Kosningavakt 2016 |
About The Author
- Ritstjórn