rautSandkassinn mun á næstunni fara yfir stefnu allra flokka í innflytjendamálum og málum flóttafólks og hælisleitenda sem bjóða fram í alþingiskosningum sem fara fram þann 29. Október 2016. Við munum síðan gefa út lista yfir stefnuskrá allra flokka í útlendingamálum. Sandkassinn mun að sjálfsögðu vega stefnu flokkanna og síðan gefa út hvaða flokkum við álítum treystandi til að hafa umsjón með útlendingamálum.

Dögun

Ástæða er til að vara við stefnuleysi Dögunar í innflytjendamálum og málum flóttafólks og hælisleitenda. Við lestur á stefnu Dögunar er lítið talað um þessa málaflokka. Þess ber að geta að stefna flokksins hefur nýlega verið uppfærð og virðast breytingarnar fyrst og fremst ganga út á að fegra orðalag smávægilega. En fram að þessum nýgerðu breytingum var stefna Dögunar neikvæð í garð flóttafólks. Hér fyrir neðan er skjáskot af báðum stefnum (fyrir og eftir) og metum við nýja stefnu ótrúverðuga.

Vinstra megin er nýja stefnan, eina breytingin  felst í að orðin “litlum hópum” hafa verið tekið út. Ef að raunverulega væri stefnubreyting á ferðinni hjá Dögun, þá hefði aldrei komið til greina annað en að skipta þesssari setningu út alfarið. Hér er því frekar verið að fela raunveruleg áform og viðhorf innan Dögunar sem eru að taka við fáum flóttamönnum.

Ástæðan fyrir því að laumast er með þessum hætti í þessa breytingu, er grein hér á Sandkassanum frá 7. September sem rituð var í framhaldi af öfgafullum yfirlýsingum í garð flóttafólks frá oddvita Dögunar í Suðurkjördæmi. Sturlu Jónssyni. Í greininni er sýnt fram á að hrein þjóðernisstefna ríki í dag innan Dögunar í anda National Front í Frakklandi og systurflokksins, Íslensku Þjóðfylkingarinnar.

dogun-samanburdur

Stefna Dögunar í málefnum innflytjenda, flóttafólks og hælisleitenda veldur vonbrigðum því stutt er síðan að um öfgalausan miðjuflokk var að ræða. Nú er ekki annað í stöðunni en að vara kjósendur við flokknum. Breyting er gerð á stefnu flokksins og er breytingin gerð í þeim tilgangi að villa um fyrir kjósendum fremur en nokkuð annað.

Að öðru leyti er stefna Dögunar í þessum málaflokkum engin. Ekki koma fram nein áform um að leggja fram frumvörp eða að koma á aðgerðaráætlun.

Engin áform er að finna hjá Dögun í málefnum Útlendingastofnunar, aðkomu ráðherra að þeirri stofnun eða kærunefnd Útlendingamála. Engar nákvæmar vísanir eru til þeirra títt umtöluðu vandamála sem að stofnunin stendur fyrir eða pólitískri harðlínu í garð hælisleitenda.

Flokkurinn hefur tækifæri til úrbóta fram að kosningum. Ef að flokkurinn mótar og setur fram raunhæfa stefnu með tilheyrandi þingmálum og áformum um frumvörp til úrbóta í málefnum innflytjenda og flóttafólks, þá mun koma til skoðunar að hækka matið á flokknum, þetta er sagt með miklum fyrirvara um að við teljum stefnu flokksins lýsa þekkingu og raunverulegum áformum og að endurbætt stefna þyki trúverðug.

Kosningavakt 2016. Dögun: Varúð

| Kosningavakt 2016 |
About The Author
- Ritstjórn