Sandkassinn mun á næstunni fara yfir stefnu allra flokka í innflytjendamálum og málum flóttafólks og hælisleitenda sem bjóða fram í alþingiskosningum sem fara fram þann 29. Október 2016. Við munum síðan gefa út lista yfir stefnuskrá allra flokka í útlendingamálum. Sandkassinn mun að sjálfsögðu vega stefnu flokkanna og síðan gefa út hvaða flokkum við álítum treystandi til að hafa umsjón með útlendingamálum.

Viðreisn

gultÁstæða er til að vara við stefnuleysi Viðreisnar í innflytjendamálum og málum flóttafólks og hælisleitenda. Lestur á stefnuskrá Viðreisnar vekur upp margar spurningar. Það eina sem kemur fram í stefnuskránni sem hægt er að henda reiður á er að stytta þurfi málsmeðferðartíma eins og kostur er, það má því segja að stefna Viðreisnar í þessum málaflokki beri keim af stefnu Sjálfstæðisflokksins.

“Stytta þarf málsmeðferðartíma eins og kostur er,,,,”

Það er ekki hægt að fjalla um viðreisn sem er nýr flokkur, öðruvísi en að fjalla um frammistöðu Sjálfstæðisflokksins á því kjörtímabili sem er að líða enda má segja sem svo að hér sé á ferðinni glænýtt klofningsframboð úr Sjálfstæðisflokknum, þannig að nei, Viðreisn sleppur ekki við sinn eigin skugga í þessu mati.

Um leið og flestir eru sammála um að stytta þurfi afgreiðslutíma á hælisumsóknum, m.t.t. þess tíma sem fer í að ákveða hvort mál viðkomandi verði tekið til efnislegrar meðferðar eða ekki, þá er þetta þó alls ekki einfalt mál. Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrum Innanríkisráðherra Sjálfstæðisflokksins hafði þetta atriði sem sína einu stefnu í málefnum hælisleitenda, gekk raunar svo langt að segjast ætla að innleiða 48 klst. afgreiðslutíma að Norskri fyrirmynd, raunar má leiða að því líkum að helstu mistök Hönnu Birnu í starfi hafi verið það ofurkapp sem hún lagði á að koma á styttingu á þessum afgreiðslutíma og að ólögleg brottvísun Tony Omos hafi í raun verið hluti af þeim áformum ráðherra. En flestir gera sér grein fyrir að vanda þarf til verka við þessa greiningu og leggja þarf til þann tíma og vinnu sem rannsóknarskylda stjórnvalda kallar eftir, annað er brot á alþjóðalögum. Æði margt fleira ætti því að vera í farvatninu hjá Viðreisn en einungis hugmyndir um styttingu afgreiðlsutíma.

Ekki koma fram nein áform um að leggja fram frumvörp eða að koma á aðgerðaráætlun. Á einum stað í stefnuskránni er talað um að gera lagabreytingar í þeim tilgangi að gera fólki sem kemur frá löndum utan Schengen svæðisins, auðveldara fyrir að koma hingað og setjast hér að, þetta hljómar ekki illa en alla frekari skilgreiningu vantar þó í þá yfirlýsingu svo að hún verði eitthvað annað en fagurgali.

Engin áform er að finna hjá Viðreisn í málefnum Útlendingastofnunar, aðkomu ráðherra að þeirri stofnun eða kærunefnd Útlendingamála. Engar nákvæmar vísanir eru til þeirra títt umtöluðu vandamála sem að stofnunin stendur fyrir eða pólitískri harðlínu í garð hælisleitenda.

Sandkassinn vill beina því til Viðreisnar að flokkurinn lagi þetta fyrir kosningar svo að hægt sé að uppfæra matið á hæfi flokksins til að fara með stjórn útlendingamála. Með því að setja fram fullnægjandi stefnu í innflytjendamálaum og málefnum flóttafólks og hælisleitenda, þá á flokkurinn möguleika á að fá gula ljósinu hér til hliðar breytt í grænt.

Kosningavakt 2016. Viðreisn: Falleinkun

| Kosningavakt 2016, Sandkassinn |
About The Author
- Ritstjórn