Sandkassinn mun á næstunni fara yfir stefnu allra flokka í innflytjendamálum og málum flóttafólks og hælisleitenda sem bjóða fram í alþingiskosningum sem fara fram þann 28. Október 2017. Við munum síðan gefa út lista yfir stefnuskrá allra flokka í útlendingamálum. Sandkassinn mun að sjálfsögðu vega stefnu flokkanna og síðan gefa út hvaða flokkum við álítum treystandi til að hafa umsjón með útlendingamálum.

Flokkur Fólksins

Við eigum varla til nógu sterk lýsingarorð til að vara við þessum flokki hægri öfga-þjóðernissinna. Sjaldan ef nokkru sinni á undanförnum áratugum hefur skapast jafn rík ástæða til að hafna alfarið neinum framboðslista. Tengsl flokksins við Íslensku Þjóðfylkinguna eru ótvíræð enda hafa gengið boð innan Þjóðfylkingarinnar um að kjósa Flokk fólksins eftir að upp komst um fölsun Þjóðfylkingarmanna á kjörgögnum.

Formaður Flokks Fólksins gerði ítrekaðar tilraunir til sameiningar Flokks Fólksins og Þjóðfylkingarinnar og fjallaði Sandkassinn ítarlega um þau mál. Þar var einnig gerð tilraun til þess að svindla á reglum um fjárveitingar til stjórnmálahreyfinga.

Fyrir kosningarnar 2016 vöruðum við kjósendur við þessum flokki. Síðan þá hefur öfgaþjóðernisstefna flokksins færst hratt í aukana og flokkurinn færst en lengra út á jaðar.

Fyrir kosningarnar 2016 vöruðum við sérstaklega við Flokki Fólksins með eftirfarandi orðum:

“Ástæða er til að vara við stefnuleysi Flokks Fólksins í innflytjendamálum og málum flóttafólks og hælisleitenda, einnig er tilkoma oddvita flokksins í Reykjavík Norður sem er þekktur Ný-rasisti, til þess að stimpla flokkinn sem Þjóðernispoppúlískan öfgaflokk. Við vörum sterklega við flokknum.

En frekari ástæða er til að sniðganga þennan flokk í kosningum eftir upplýsingar komu fram um tilraunir Flokks fólksins til að sameinast Íslensku Þjóðfylkingunni og gangast þar með undir stefnu Þjóðfylkingarinnar í málefnum flóttafólks og hælisleitenda”

Við mælum með að lesendur kynni sér vel innihald mats okkar á Flokki Fólksins fyrir kosningarnar í fyrra og má skoða það hér neðar á síðunni.

“Þjóðfylkingin, flokkur fólksins með nýju afli”

Í kafla um utanríkismál segir:

“Flokkur fólksins styður endurskoðun á Schengensamkomulaginu líkt og aðrar eyþjóðir hafa gert með því að herða á landamæraeftirliti landsins með auknu vegabréfaeftirliti. Endurskoða skal þátttöku Íslands í viðskiptabanni gegn Rússlandi.”

Við eigum erfitt með að átta okkur á hvað vaki fyrir þessum flokki með yfirlýsingum um að herða landamæraeftirlit. Landamæri okkar snúa jú að sjó og ef einhverjir liðsmenn flokksins hafa áhyggjur af Schengen reglum varðandi skoðun á því fólki sem kemur hingað til lands með flugi, þá myndum við telja eðlilegast að flokksmenn yrðu sér úti um fræðslu í því efni. Í öllu falli þá eru þessar yfirlýsingar í stefnuskrá óútskýrðar fyrir lesendum og líklegast einnig fyrir félagsmönnum Flokks Fólksins.

Utanríkismál eru svo sem ekki viðfangsefni okkar en þar sem Flokkur Fólksins vill hræra þessu saman þá neyðumst við líklegast til að bregðast einnig við því. 

Sú skoðun hefur verið hávær meðal fámenns hóps fiskverkenda að endurskoðuð sé þáttaka Íslands í viðskiptabanni gegn Rússum. Sandkassinn hlýtur að ganga út frá því að Flokkur Fólksins sé með þessu að taka upp þetta kröfumál þessara hagsmunaaðila. En um leið og viðskiptabann skaðar alltaf báða aðila, þá má ekki gleymast af hvaða ástæðum viðskiptabannið er sett á. Endurskoðun á aðild okkar að viðskiptabanninu gæti aldrei komið til nema þá með því að Rússar létu af ofbeldi sínu og yfirgangi gegn íbúum á Krímsskaga.

Það einfaldlega eru engin gild rök í málinu að hagsmunaaðilar hér á landi krefjist afléttingar. En það verður að teljast athyglisvert að svo nýr flokkur sem gefur sig út fyrir að berjast fyrst og fremst fyrir hagsmunum eldri borgara og öryrkja, sé svo opin fyrir sérhagsmunum Íslenskra fiskútflytjenda og þessi áform sýna berlega.

Að máli málanna

Inga Sæland, hefur í félagi við stjórnendur Útvarps Sögu, farið hamförum á þessu ári þar sem að att hefur verið saman hagsmunum flóttafólks og hælisleitenda annars vegar og eldri borgara og öryrkja hins vegar, inn í þetta hefur formaðurinn blandað áhyggjum sínum af mögulegum hryðjuverkaárásum. Þegar bent hefur verið á þessa polaríseringu hjá Flokki Fólksins, þá hafa talsmenn flokksins brugðist ókvæða við. Svo langt hefur þessi úlfúð formanns flokks Fólksins við gagnrýnendur flokksins náð að Inga Sæland formaður flokksins sagðist myndi sækja ristjórana á Sandkassanum, þá Gunnar Waage og Gunnar Hjartarson til saka fyrir dómstólum.

Í framhaldi ritaði Gunnar Waage ritstjóri Sandkassans grein á eyjuna þar sem hann svaraði Ingu Sæland og ræddi einnig um polaríseringu hennar þar sem hún stillir hagsmunum aldraðra og öryrkja upp gegn hagsmunum flóttafólks.

Inga Sæland í málaferli á kostnað Alþingis

Gunnar Waage skrifar: Ég fagna áformum Ingu Sæland formanns Flokks Fólksins um að kæra þann sem þetta ritar ásamt Gunnar Hjartarsyni. Margir hafa viljað kæra mig á undanförnum árum og er röð þeirra metnaðarfullu manna og kvenna orðin æði löng og telur á annan tug fólks.

Inga Sæland hefur fest Flokk Fólksins í sessi sem öfgaþjóðernisstefnuflokk og hefur hún líkt sjálfri sér við Marine Le Pen formann Frönsku Þjóðfylkingarinnar, en sá flokkur er í raun gamall nasistaflokkur sem gengið hefur í gegn um nokkra andlitslyftingu.

Við gætum eytt fleiri blaðsíðum í að rekja framferði Ingu Sæland á þessu ári. Við gætum einnig eytt blaðsíðum í að fjalla um einn af oddvitum flokksins, Magnús Þór Hafsteinsson. Við gætum einnig eytt blaðsíðum í að fjalla um andúð Ingu Sæland á fjölmiðlum sem virðist standa henni talsvert fyrir þrifum.

Stefna Flokks Fólksins í málefnum Flóttafólks og hælisleitenda er að sjálfsögðu fyrir neðan allar hellur og er gengur í berhögg við alþjóðalög.

“Flokkur fólksins styður móttöku kvótaflóttafólks til landsins og leggur áherslu á góðan aðbúnað þess og aðlögun að
íslensku samfélagi. Málefni hælisleitenda séu afgreidd með skilvirkum hætti að norskri fyrirmynd innan 48 klukkustunda.”

Áætlanir flokksins um að taka upp 48 klukkustundaregluna að norskri fyrirmynd, þýða að taka upp starfsaðferðir Norðmanna sem eru að byggja veggi og háar gyrðingar, bjóða flóttafólki frá Sýrlandi fé fyrir að snúa frá landinu og snúa fólki umsvifalaust frá án skimunar ect. Þetta eru þær starfsaðferðir sem skilað hafa árangri, ef árangur má kalla í flóttamannamálum í Noregi. Þessar starfsaðferðir eru áform Áform Flokks Fólksins.

Þá hefur Inga Sæland hvað eftir annað sagt hælisleitendur ekki vera flóttafólk.

Niðurstaða

Við vörum alla unnendur fjölmenningar við því að kjósa þennan flokk og í raun alla þá sem vilja að stjórn útlendingamála fari fram með mennsk gildi að leiðarljósi þar sem að forðast er að hafa útlendinga fyrir rangri sök eins og raunar alla aðra þjóðfélagshópa. Flokkur Fólksins er úlfur í sauðgæru, þjóðernispopúlistaflokkur sem elur á samskonar málflutningi og finna má í málflutningi helstu öfgaþjóðernissina í Evrópu í dag. Sams konar málflutning má finna í Mein Kampf þar sem höfundur leitaðist við að kenna Gyðingum um allar ófarir Þjóðverja.

“Sérsveit lögreglunnar undir alvæpni sýnir sig á almannafæri og það án þess að hættustig sé aukið opinberlega.

Hvað vita þeir sem við vitum ekki? Hvers vegna vill enginn taka umræðuna um ástandið í Evrópu og þá staðreynd að Ísland tilheyrir henni, þótt enginn hafi verið sprengdur eða myrtur hér í hryðjuverkaárás enn sem komið er? Ráðamenn þegja þunnu hljóði um ástandið, þegja um það hvernig við eigum að mæta þessari yfirvofandi ógn með fyrirbyggjandi hætti. Hafa þó sett á laggirnar þjóðaröryggisráð sem fundar í kjarnorkubyrgi á Keflarvíkurflugvelli til að funda á nógu „öruggum stað“.

Það er kominn tími til að taka umræðuna og löngu kominn tími til að taka á árásum þeirra samlanda okkar sem vilja og munu kalla okkur öllum illum nöfnum. Þeirra sömu og vilja breiða út faðminn og bjarga öllum heiminum. Falleg er hugsunin og full af kærleika en skammsýn er hún svo ekki sé meira sagt.Hættum að láta háværan minnihlutahóp stofna allri framtíð okkar og öryggi í hættu. Tökum umræðuna hvað sem á okkur dynur !” grein eftir Ingu Sæland í Morgunblaðinu 21.júní 2017

Kosningavakt 2017. Flokkur Fólksins: Aðvörun

| Kosningavakt 2017 |
About The Author
- Ritstjórn