Sandkassinn mun á næstunni fara yfir stefnu allra flokka í innflytjendamálum og málum flóttafólks og hælisleitenda sem bjóða fram í alþingiskosningum sem fara fram þann 28. Október 2017. Við munum síðan gefa út lista yfir stefnuskrá allra flokka í útlendingamálum. Sandkassinn mun að sjálfsögðu vega stefnu flokkanna og síðan gefa út hvaða flokkum við álítum treystandi til að hafa umsjón með útlendingamálum.

Samfylkingin

Samfylkingin fer yfir á grænu ljósi í þessari athugun án athugasemda. Í mati fyrir Samfylkinguna fyrir þingkosningar 2016 sögðumst við “myndum vilja sjá nánar útlistaða stefnu og nákvæmari fyrirætlanir í þessum málaflokki sem snertir líf og velferð m.a. barna, í stefnuskrá flokksins.”

Þessu er enn ábótavant í stefnumörkun á heimasíðu Samfylkingarinnar, en á móti verður að horfa til afgerandi góðrar frammistöðu á þessu kjörtímabili og vel kynntra áforma þeirra á öðrum vettvangi. Það er þó okkar ósk að framboðin almennt setji fram skýr og ítarleg áform á heimasíðu sem seinna sé hægt að vísa til.

Samfylkingin hefur gengið í gegn um talsverða endurnýjun frá síðustu kosningum 2016 og er bæði stefna framboðsins, frammistaða þingflokksins sem og áform í málefnum flóttafólks og hælisleitenda okkur mjög að skapi. Formaður Samfylkingarinnar Logi Einarsson hefur að undanförnu verið í fararbroddi meðal jafningja í þinginu í baráttu fyrir réttarbótum til handa börnum á flótta. Þessi barátta Loga hefur orðið til þess að gerð var breyting rétt fyrir þinglok á Útlendingalögum sem er afturvirk. Þá er Samfylkingin með áform um að koma á samskonar lagabreytingu til frambúðar strax á nýju þingi en þessar breytingar gera flóttabörnum kleift að búa á Íslandi og koma í veg fyrir að þau eigi á hættu að verða send úr landi.

Hér má greina afgerandi áhersluþunga yfir á réttarvernd flóttafólks frá því að vera ágætlega á sveif með flóttafólki fyrir síðustu kosningar, þá var ekki um nein áform að ræða hjá Samfylkingunni fyrir kosningar 2016 um að leggja fram frumvörp eða að koma á aðgerðaráætlun. Engu að síður hafði allt viðhorf og frammistaða Samfylkingarinnar verið með ágætum og vildi flokkurinn taka við 500 kvótaflóttamönnum á 3 ára tímabili. Í aðdraganda þeirra kosninga sem nú eru framundan hefur Logi Einarsson stigið fram fyrir skjöldu og skilgreint talsvert skýr áform um réttarumbætur sem að farið var yfir hér að ofan. Þessi frammistaða Samfylkingarinnar þykir okkur vera öðrum framboðum til eftirbreytni.

Endurnýjun mjög til góðs hjá Samfylkingu

Þá er endurnýjun talsverð á listum Samfylkingarinnar og eru nýir oddvitar þekktir baráttumenn fyrir hagsmunum flóttafólks, þar ber að nefna rithöfundinn Guðmund Andra Thorsson í 1. sæti í Suðvesturkjördæmi og lögmanninn Helgu Völu Helgudóttur í 1. sæti í Reykjavík Norður, þá snýr Ágúst Ólafur Ágústsson aftur í oddvitasætið í Reykjavík Suður en hann hefur m.a. starfað hjá Sameinuðu þjóðunum í New York. Þess utan hefur Ágúst Ólafur hlotið viðurkenningu Barnaheilla fyrir að sérstök störf í þágu barna og að hafa með störfum sínum bætt réttindi og stöðu barna. 

Tillögur okkar

Við myndum vilja sjá áform um afgerandi breytingar í stefnuskrá Samfylkingarinnar á kærunefnd Útlendingamála. Eins og starfsreglum og reglum um skipan í nefndina er háttað í dag þá er pólitískt tak ráðherra á nefndinni óviðeigandi með tilliti til þess að hér er á ferðinni nefnd sem fer með úrskurðarvald. Nefndin er því viðkvæm fyrir pólitískum áherslum og duttlungum sitjandi ráðherra.

Nánar úr stefnu Samfylkingarinnar:

“Við leggjum áherslu á að:

    Bjóða fleiri fjölskyldur frá stríðshrjáðum ríkjum velkomnar til Íslands.
    Sameina fjölskyldur á flótta.
    Hælisleitendum sem koma til Íslands á eigin vegum sé mætt af mannúð, tekið sé hratt á þeirra málum og börnum  sé veitt sérstök þjónusta.
    Hælisleitendur fái fljótt skorið úr sínum málum og að þeir komist fljótt á vinnumarkaðinn eða í starfstengt nám.
    Foreldrar verði virkir þátttakendur í samfélaginu og myndi tengsl við Íslendinga.
    Flóttafjölskyldur geti átt gott líf hér á landi.
    Vinna gegn útbreiðslu andúðar í garð fjölmenningar.
    Íslenskt samfélag sé alþjóðlegt og byggi á fjölbreytni og frjálsu flæði einstaklinga og fjölskyldna milli landa.

Samfylkingin leggur höfuðáherslu á uppbyggilega samræðu og fræðslu um fjölmenningarsamfélagið og gagnkvæma aðlögun, hvort sem er í skólastarfi, á vettvangi þings og sveitarstjórna eða í samfélaginu almennt. Þannig mótum við samfélag þar sem borgarar bera virðingu hver fyrir öðrum og njóta jafnréttis.

Ísland er heimili okkar allra.”

Þingmenn Sjálfstæðisflokks greiddu atkvæði á móti breytingum á útlendingalögum

Formenn sex flokka á þingi lögðu fram frumvarp sem koma á í veg fyrir að börnum hælisleitenda verði vísað úr landi. Þingmenn þeirra flokka samþykktu frumvarpið og varð það að lögum í nótt. Þingmenn Sjálfstæðisflokks greiddu einir atkvæði gegn því.

Gunnar Waage

Gunnar Waage

- Gunnar Waage er blaðamaður og ritstjóri Sandkassans frá árinu 2013.

Hann er Trommari, Tónskáld og skólastjóri Trommuskólans, fyrrverandi deildarstjóri og einn af stofnendum Tónlistarháskóla G. Martell í Mexíkóborg. Hann lauk burtfararprófi frá McNally Smith College of Music, en duflar við kerfisfræði og er áhugamaður um bardagaíþróttir. Hann rýnir í þjóðfélagsmál og lætur sig flest varða.Hann er einstæður faðir, jafnréttissinni, fjölmenningarsinni og áhugamaður um velferð barna. Starfar við túlkun og þýðingar og fæst við spænskukennslu.


Hann er pistlahöfundur á Kvennablaðinu og var pistlahöfundur á DV en hætti skrifum á DV ásamt fleirum, í þeim tilgangi að sýna blaðamönnum og ritstjórn blaðsins samstöðu í kjölfar yfirtöku á félaginu í September 2014.
Gunnar Waage

Kosningavakt 2017. Samfylkingin: Grænt ljós

| Kosningavakt 2017 |
About The Author
- - Gunnar Waage er blaðamaður og ritstjóri Sandkassans frá árinu 2013. Hann er Trommari, Tónskáld og skólastjóri Trommuskólans, fyrrverandi deildarstjóri og einn af stofnendum Tónlistarháskóla G. Martell í Mexíkóborg. Hann lauk burtfararprófi frá McNally Smith College of Music, en duflar við kerfisfræði og er áhugamaður um bardagaíþróttir. Hann rýnir í þjóðfélagsmál og lætur sig flest varða.Hann er einstæður faðir, jafnréttissinni, fjölmenningarsinni og áhugamaður um velferð barna. Starfar við túlkun og þýðingar og fæst við spænskukennslu. Hann er pistlahöfundur á Kvennablaðinu og var pistlahöfundur á DV en hætti skrifum á DV ásamt fleirum, í þeim tilgangi að sýna blaðamönnum og ritstjórn blaðsins samstöðu í kjölfar yfirtöku á félaginu í September 2014.