Gunnar Waage ritstjóri

Ég er fegin að hafa nú lokið við gerð mats á stefnu flokkanna í innflytjendamálum, flóttafólks & hælisleitenda. Þetta er á margan hátt lærdómsríkt en einnig er þetta talsverð vinna.

Það viðmiðunarmódel sem ég setti upp fyrir síðustu alþingiskosningar og notast aftur við núna, byggist upp á nokkrum þáttum.

Í fyrsta lagi ber að hafa í huga að ég nota ekki scala frá 0 – 10 eða 100. Ástæðan er sú að of margir þættir spila inn í mat hvers framboðs til að hægt sé að gefa svo nákvæma staðsetningu. Einungis með stöðluðum spurningalista væri hægt að gefa flokkunum einkunir með þeim hætti og ekki væri hægt að taka marga matskenndari þætti inn sem krefjast talsverðrar rýnivinnu.

Niðurstaðan úr slíku mati sem byggðist á hreinni einkun en tæki ekki tillit til frammistöðu t.d. gæti ekki gefið nema mjög takmarkaða mynd af framboðinu. Matið byggist ekki nema að hluta upp á birtri stefnu flokka, matið byggist ekki síður á mati á raunstefnu flokksins sem ekki er alltaf sú stefna sem lesandanum er ætlað að skilja. Oft á tíðum er það hreinlega ætlun þeirra sem hanna þessar stefnuskrár, að sem flestir kjósendur rangtúlki stefnuna, en að hægt sé að rauntúlka stefnuna seinna meir ef þörf krefur.

Tökum dæmi Stefnu Framsóknarflokksins í málefnum flóttafólks í heild sinni (hún er rýr):

“Innanríkismál

Framsókn vill stytta þann tíma sem tekur að meðhöndla óskir um alþjóðlega vernd

Setja þarf skýrari reglur varðandi fólk sem óskar eftir alþjóðlegri vernd. Það er ómannúðlegt að láta fólk dvelja hér í langan tíma í óvissu um framtíð sína. Setja þarf aukin kraft í meðhöndlun umsókna og aukna fjármuni til að sinna þeim sem líklega munu fá alþjóðlega vernd.

Framsókn vill efla þróunarsamvinnu og neyðaraðstoð við fólk á flótta

Framsókn vill auka framlög til neyðaraðstoðar til að aðstoða fólk sem er á flótta.”

Rýnum aðeins í þennan texta og skýrum hvað hann þýðir í raun og veru, hvað felst í orðunum með tilliti til ríkjandi kerfis. Því þetta er ekki einungis innantómur fagurgali heldur er hvert orð rýnt og framsett af ásetningi. Nú skulum við gagnrýna þennan texta,

ekki að fullu því í það færu nokkrar blaðasíður,

bara eilítið:

Fyrri hluti: “Framsókn vill stytta þann tíma sem tekur að meðhöndla óskir um alþjóðlega vernd. Setja þarf skýrari reglur varðandi fólk sem óskar eftir alþjóðlegri vernd. Það er ómannúðlegt að láta fólk dvelja hér í langan tíma í óvissu um framtíð sína. Setja þarf aukin kraft í meðhöndlun umsókna og aukna fjármuni til að sinna þeim sem líklega munu fá alþjóðlega vernd.”

Vissulega er mikil þörf á að stytta þann tím sem fer í svokallaða fyrstu skimun á hælisleitendum. Þessi frumskoðun á málefni hvers og eins hælisleitanda er lögboðin samkvæmt Flóttamannasamningi Sameinuðu Þjóðanna og Dyflinarreglugerð Evrópusambandsins. Fjöldabrottvísanir hælisleitenda er skýlaust og alvarlegt brot á alþjóðalögum. Ekki er því hægt að taka ákvörðun um hvort mál hælisleitanda sé tekið til efnislegra meðferðar eða viðkomandi vísað frá, fyrr en að lokinni þessari skimun.

Ekki er alltaf hægt að ljúka þessari skimun á máli hvers og eins hælisleitanda með hraði. Kalla getur þurft eftir gögnum varðandi viðkomandi sem getur tekið mislangan tíma. Sá hraði sem hægt er að setja í þessa skimun ákvarðast því af mörgum þáttum öðrum en ákvörðun yfirvalda um að hafa þann tíma svo og svo langan. Þetta mál er einfaldlega ekki þannig vaxið að stjórnmálaflokkur geti sett um það reglur og þá gjörbreytist lengd afgreiðslutíma umsókna hjá Útlendingastofnun.

En flokkarnir sumir hverjir, n.t. þeir flokkar sem standa höllum fæti í þessu mati sem ég hef nú gert annað árið í röð, gefa væntanlegum kjósendum sínum þá fölsku von, að hér sé á ferðinni mál sem hægt sé að redda með einfaldri lagasetningu, svo sem 48 stunda reglu að Norskri fyrirmynd. Þetta er í flestum tilfellum lygi enda vita frambjóðendur betur. Í einhverjum tilfellum eins og í Flokki Fólksins sem dæmi þá er líklegast einnig um að ræða hreinan skort frambjóðenda á þekkingu. Hvað varðar “Setja þarf skýrari reglur varðandi fólk sem óskar eftir alþjóðlegri vernd.” Þá verða þær reglur ekki mikið skýrari en þær eru nú þegar í vinnureglum sem gefnar eru út í viðauka við Flóttamannasamninginn. Málið er og verður erfitt. Eina leiðin til að stytta að einhverju leyti afgreiðslutímann er með því að setja einfaldlega meiri fjármuni og mannafla í málið. En það er að sjálfsögðu ekki stefna Framsóknarflokksins  😉

Seinni hluti:”Framsókn vill efla þróunarsamvinnu og neyðaraðstoð við fólk á flótta. Framsókn vill auka framlög til neyðaraðstoðar til að aðstoða fólk sem er á flótta.”

Í þessari fögru yfirlýsingu um þróunarsamvinnu og neyðaraðstoð felst allt annar og í raun skelfilegur boðskapur. Hér er verið að kynna þá stefnu Framsóknarflokksins að leggja aukna fjármuni til aðstoðar við flóttafólk í flóttamannabúðum, nær þeim heimkynnum sem fólkið flýr. Langt í burtu frá Íslandi. Hér birtast nöturleg áform Framsóknarflokksins sem heimfærast upp á skilgreiningar um menningarlegan rasisma. Þær skilgreiningar ganga út á að menningarlegur munur á fólki af svo fjarlægum uppruna sé óbrúanlegur. að heppilegra sé að fólk flytjist ekki til okkar í norðri þar sem einungis muni koma út úr slíkum fólksflutningum menningarlegir árekstrar.

Fýsilegra sé því að greiða fjármuni til reksturs flóttamannabúða. Á bak við þessar bollaleggingar eru síðan alls kyns vangaveltur um að hægt sé með þessu móti að spara heilmikla fjármuni sem annars færu í þjónustu við flóttafólk hér á landi. Síðan eru menn yfirleitt með vel mótaðar hugmyndir um í hvað sparnaður af þessu skuli fara, venjulega í allt annan málaflokk eða gæluverkefni.

Ýmsir af hugmyndafræðingum hægri flokka eins og Framsóknar og Sjálfstæðis hafa rekið þessa stefnu með greinarskrifum og bloggfærslum til áratuga og er það alls ekkert launungarmál að þessi menningarlega andfjölmenningarstefna er ríkjandi innan þessara tveggja risa á hinu pólitíska leiksviði hér á landi.

Afstöðuleysi, engin stefna

Þið sem lesið matið takið fljótlega eftir að ég tek mjög hart á afstöðuleysi flokkanna. Í grunninn þá eiga flokkar um þrennt að velja,

a) að kynna sína stefnu og laða til sín kjósendur sem sannarlega eru fylgjendur við þá stefnu.

b) að koma sér hjá því að taka neina stefnu í þeirri von að fæla ekki frá sér ruslfylgi.

c) að kynna stefnu í málaflokki sem lesendum hættir til að rangtúlka eða misskilja.

C er að sjálfsögðu mjög alvarleg óheilindi í garð kjósenda. Í raun beinar lygar. Silgt er undir fölskum fána.

B er kannski hættulegast leiðin enda fær flokkurinn frítt spil þegar hann er komin í valdastöðu.

A er sú leið til framsetningar á stefnu sem óskandi væri að allir flokkar færu eftir. Því miður er raunveruleikinn allt annar.

Til að komast að einhverri raunverulegri niðurstöðu í mati sem þessu þá verður því að setja stefnuskrár flokkanna í gegn þessa rýnivinnu. Því næst þarf að gera samanburð á niðurstöðu þessarar rýnivinnu annars vegar og hins vegar frammistöðu flokkanna á þingi.

Vídeó

Sú aðferð er að ryðja sér til rúms hjá lélegum framboðum að fleygja einhverju margra klukkustunda löngu myndbandi af einhverjum fundi framboðsins upp á vefsvæði framboðsins. Slíkum myndböndum fylgir engin tímalína eða skrifleg fundargerð og ef kjósandi nennir ekki eða hefur ekki tíma til að horfa á alla dýrðina, þá missir hann/hún mögulega af einhverju stórkostlegu.

En það er ástæða til að benda á að framboð til alþingis ættu að sjá sóma sinn í að setja stefnu sína fram skýrt og skilmerkilega á heimasíðum sínum enda eru þær sá vettvangur sem allur almenningur leitar í til að fletta upp í. Það er illa gert að ætlast til að fólk vitni seinna meir til munnmæla einstakra fulltrúa á einhverjum fundi á myndbandi sem jafnan er í slæmum gæðum. Þegar að framboð svíkst síðan um að framfylgja stefnu sinni þá eru tilvísanir í slík gögn í besta falli langsóttar, vafasamar og oft gagnslausar. Fátt er í raun meiri vanvirðing við kjósendur en að gera leit að mögulegri stefnuskrá flokksins að gestaþraut með þessum hætti og verður ekki séð að með þessu sé verið að reyna að koma stefnu flokksins til skila heldur þvert á móti, fela hana.

Slík ruslamennska sem ég kalla er því ekki tekin til greina í matinu enda er það mín skoðun að kjósendur eigi fulla heimtingu á að frambjóðendur setji fram stefnu með aðgengilegum hætti.

Margt fleira gæti ég fjallað um hér í tengslum við aðferðarfræðina við gerð þessa mats en ég ætla að stoppa hér. Í öllu falli þá er ekki á ferðinni einföld stigagjöf heldur heildrænt mat og aðvaranir í bland við meðmæli og eftir atvikum, ábendingar til flokkanna.

Dæmi:

Tillögur okkar

Við myndum vilja sjá áform um afgerandi breytingar í stefnuskrá Pírata á kærunefnd Útlendingamála. Eins og starfsreglum og reglum um skipan í nefndina er háttað í dag þá er pólitískt tak ráðherra á nefndinni óviðeigandi með tilliti til þess að hér er á ferðinni nefnd sem fer með úrskurðarvald. Nefndin er því viðkvæm fyrir pólitískum áherslum og duttlungum sitjandi ráðherra.

Það er ekkert einfalt mál að framkvæma vinnu sem þessa. En ef þið lesið mat allra flokka, bæði fyrir 2016 og 2017, þá sjáið þið staðlaðan texta, staðlaðar ábendingar til flokkanna, staðlaðar spurningar og stöðluð viðmið, bæði milli matsgerða á einstökum framboðum og einnig á milli 2016 og 2017.

lifið heil

Gunnar Waage

 

 

Gunnar Waage

Gunnar Waage

- Gunnar Waage er blaðamaður og ritstjóri Sandkassans frá árinu 2013.

Hann er Trommari, Tónskáld og skólastjóri Trommuskólans, fyrrverandi deildarstjóri og einn af stofnendum Tónlistarháskóla G. Martell í Mexíkóborg. Hann lauk burtfararprófi frá McNally Smith College of Music, en duflar við kerfisfræði og er áhugamaður um bardagaíþróttir. Hann rýnir í þjóðfélagsmál og lætur sig flest varða.Hann er einstæður faðir, jafnréttissinni, fjölmenningarsinni og áhugamaður um velferð barna. Starfar við túlkun og þýðingar og fæst við spænskukennslu.


Hann er pistlahöfundur á Kvennablaðinu og var pistlahöfundur á DV en hætti skrifum á DV ásamt fleirum, í þeim tilgangi að sýna blaðamönnum og ritstjórn blaðsins samstöðu í kjölfar yfirtöku á félaginu í September 2014.
Gunnar Waage

Kosningavakt 2017 – þegar upp er staðið

| Kosningavakt 2017 |
About The Author
- - Gunnar Waage er blaðamaður og ritstjóri Sandkassans frá árinu 2013. Hann er Trommari, Tónskáld og skólastjóri Trommuskólans, fyrrverandi deildarstjóri og einn af stofnendum Tónlistarháskóla G. Martell í Mexíkóborg. Hann lauk burtfararprófi frá McNally Smith College of Music, en duflar við kerfisfræði og er áhugamaður um bardagaíþróttir. Hann rýnir í þjóðfélagsmál og lætur sig flest varða.Hann er einstæður faðir, jafnréttissinni, fjölmenningarsinni og áhugamaður um velferð barna. Starfar við túlkun og þýðingar og fæst við spænskukennslu. Hann er pistlahöfundur á Kvennablaðinu og var pistlahöfundur á DV en hætti skrifum á DV ásamt fleirum, í þeim tilgangi að sýna blaðamönnum og ritstjórn blaðsins samstöðu í kjölfar yfirtöku á félaginu í September 2014.