Í upphafi. Alltaf kemur lífið manni á óvart, þegar maður þykist hafa glöggvað sig á umhverfinu, og sett sig í skorður. Nú er maður, á gamals aldri, kallaður til í sæti ritstjórnar vefmiðilsins Sandkassans, sem er mörgum kunnur, ýmist að góðu eða illu, eins gengur og gerist um miðla sem ekki lúta þrýstingi. Ég þurfti að hugsa mig dálítið um, því það setur mann í ákveðna stöðu skotmarks, og það ekki síst í tilfelli umdeilds miðils, að setja sig undir þá ábyrgð, að svara fyrir miðilinn.

Reynslu af ritstjórnarstörfum hef ég enga, en hef unnið að félagsmálum, og verið í starfi mínu sem rakari undanfarna áratugi, bæði hér heima og í UK, haft þau forréttindi að vera í stöðugum samskiptum við fólk úr öllum stöðum og stéttum samfélagsins, og tel mig því hafa sæmilega sýn á samfélagið. Skoðanir mínar á ýmsum málum eru fólki svosem kunnar, en þær hafa ekki alltaf fallið í góðan jarðveg, og svo verður örugglega áfram.

Frekari kynning á sjálfum mér held ég að sé óþarfi, enda stefnan að vera síður en svo í einhverjum feluleik, svo ég verð sjálfum mér ósköp samkvæmur hér á þessum miðli. Hingað til hefur vettvangur Sandkassans verið mannréttindamál ýmiskonar, og þá ekki síst hvað varðar innflytjendur og aðra útlendinga, sem af einhverjum orsökum vilja setjast hér að. Réttindi annarra hér á landi verða vefnum einnig hugleikin, og leitast verður við að vaka yfir mannréttindabrotum almennt, en ekki einungis þeim brotum er snúa að innflytjendum. Sandkassinn hefur orðið þeim sem hvað harðast hafa staðið í áróðri gegn útlendingum, ansi erfiður ljár í þúfu, og uppskorið gífurlega heift og hatur, amk tiljafns á viðþá ánægju sem miðillinn hefur vakið.

Þessu verður ekki reynt að breyta, og frekar gefið í en hitt. Því sem verður breytt hinsvegar, er að ritstjórnina skipa nú 3 aðilar, og mun þessi ritstjórn leitast við að hafa sjálfa sig eins óþarfa og atkvæðalitla og hægt er, þeas, lesendur munu fá að hafa síaukin áhrif á ritjórnina, sem verður einnig stækkuð með tímanum. Leitast verður við að varpa sem björtustum ljósum á málefni mannréttinda, leitast verður við að vekja athygli á, og skapa umræðu um það ofstæki heimahaganna, sem hefur verið að skjóta upp kollinum, í formi þjóðernishreyfinga og hreinna og klárra ný-nasista.

Fylgst verður grannt með uppgangi og þróun þessara hópa, og flett ofan af lygum þeirra og villandi upplýsingaflóði, og leitast verður við að sýna glögglega ofbeldisfullar afleiðingar af starfsemi slíkra hópa. Einnig mun verða farið í saumana á kerfislægum rasisma og þjóðernishyggju, sem og lúðskrumi misviturra stjórnmálamanna, sem daðra og dufla við þessi aðskilnaðaröfl, í þeim tilgangi að veiða sér atkvæði…án minnstu hugsunar um afleiðingar þess, að opna dyrnar fyrir ofstæki af þessu tagi í samfélaginu.

Ég hef velt því alvarlega fyrir mér að draga úr í málflutningi mínum og orðavali, en tekið þá ákvörðun að breyta engu þar um, og lofa þessvegna því einu, að vera erfiður og óvæginn. Öllum spurningum lesenda mun ritstjórn svara, kurteislega eftir atvikum, allar hugmyndir og aðsenda pistla mun ritstjórn skoða, og athugið að ritskoðun mun einungis miðast við almennt velsæmi, og nafnleysi er ekki liðið, og verður aldrei. Hafi menn eitthvað að segja, gera menn það undir eigin nafni, eða alls ekki. Á sömu nótum mun ég einn bera ábyrgð á orðum mínum´. Ég vona svo sannarlega að ég muni angra suma stöðugt, en verða hinum vonandi til upplýsingar og skemmtunar.

Með bestu kveðju, Haraldur Davíðsson.

Latest posts by Haraldur Davíðsson (see all)

Í upphafi – Haraldur Davíðsson

About The Author
-