Undanfarið hefur verið talsverður fréttaflutningur af lokuðum facebook hópi sem gengur undir nafninu “Beauty Tips”.  Talað er um byltingu, konur stíga fram og segja frá kynferðisofbeldi sem þær hafi orðið fyrir og meintir gerendur nafngreindir.

Ég þekki alveg ofbeldi og þetta er færsla sem ég ætti alls ekki að birta og ég tek fram að einungis brot af þessu kemur hér fram. Ætli foreldrar barnanna sem ég hef kennt tónlist undanfarin 20 ár, hefðu sent börn sín til mín ef þau vissu þetta allt ? Ég veit ekki. Eða ríkisstjórinn í Tabasco, ætli hann hefði boðið mér í mat hefði hann vitað allt þetta ? Hefði ég orðið deildarstjóri við vinsælasta tónlistarháskóla í suður ameríku hefðu menn vitað allt þetta ? Hefði Stefán Edelstein (nú) vinur minn boðið mér starf við Tónmenntaskólann í Reykjavík þegar ég kom heim, hefði hann vitað ?

Ég tala nú ekki oft um þau mál sem ég hef lent í enda geri ég ráð fyrir að ég sé af einhverri tegund sem ætlað er að komast frá ýmsu, sleppa vel. Ég er einnig á þeirri skoðun að þetta sé ekkert sérstakt, allir eiga sína sögu og mín er ekki merkilegri en hver önnur. Allar götur frá því ég var 15 ára hefur ofbeldi elt mig uppi, kannski má segja að ég hefði getað komið mér hjá heilmiklu af því með annarri og heilbrigðari stefnu í lífinu, en kannski er alltaf hægt að segja svona. Ég var í daglegri umgengni á mínum unglingsárum við handrukkara og fólk sem var vopnað hnífum. Auðvitað tókst mér að koma mér 16 ára í 9 daga í Síðumúlafangelsi.

Til að gera mér dvöl mína minna þægilega, þá ákváð lögreglan að loka kærustuna mína inni í næsta klefa við hliðina á mínum. Þeir sögðust verða að gera það því hún bara hlyti að vera meðsek í mínum alvarlegu glæpum, en mín daglega iðja var, að sendast eftir hassi fyrir hina og þessa. Staðreyndin er þó sú að þetta gerðu þeir einungis í skepnuskap, þeir vissu að ég myndi brotna vitandi af kærustunni minni lokaðri inni.Þetta var ljótt, lögregluofbeldi árið 1982. Já á þeim tíma þótti í lagi að setja 16 ára strák í einangrun í Síðumúla og einnig að loka kærustuna inni án þess að neinir rannsóknarhagsmunir lægu þar að baki.

Dagarnir liðu svona bara á þessum tíma, hótannir og ofbeldi voru daglegt brauð allt í kring um mig. Sjálfur var ég alls ekki mikill eða öflugur á velli á þessum tíma og þurfti ég því að nota mitt sterkasta vopn ótæpilega til að lenda ekki illa í því, það vopn var hausinn á mér. Ég hef alltaf verið með einskonar 6. skilningarvit, átt gott með að greina hættur og sjá hvert atburðarrás er að leiða. Þetta kallast að vera street smart. Seinna komu hörðu efnin og harðari heimur og en síðar nýttist þetta 6. skilningarvit mér afar vel óteljandi nætur þegar ég túraði með böndum í Mexíkó, ég slapp t.d. við rúsnesku rúlettuna sem Anthony lenti í, ég var farin heim að sofa.

Sem sagt nei, ég er ekki bara trommari eða kennari, ég á mér fortíð. Ég hef lent í miðri skotárás og ég varð fyrir mannráni sem ég bjóst alls ekki við að sleppa lifandi frá. Blindaður með skammbyssu þrýst í magann og haglabyssu beint að höfði, ekki ýkja skemmtilegt. Það sem var verst í eftirmálanum af þessu var að ég þekkti ekki mannræningjana í sjón, því sá ég þá alls staðar. Ég fór til Panama í frí nokkrum dögum seinna en fór alveg á taugum, þurfti að snúa við fyrr en áætlað var, fá miðanum breytt. Var barasta í klessu, búin á því, jams.

Gott og vel, þrátt fyrir þetta þá hef ég sloppið blessunarlega við að þurfa að beita aðra persónu ofbeldi. Til þess hefur aldrei komið. Nei ég lýg, þegar ég var 12 ára þá var strákur sem ætlaði að lemja mig. Ég sló hann eins fast og ég gat með hnefanum á gagnaugað, hann hljóp skælandi í burtu og ég var með gifs í 3 mánuði. Kannski hefur sú þraut komið í veg fyrir að ég gengi um sláandi menn, ég veit ekki.

Eiginkona mín nmr. 2, sló mig rétt áður en ég flutti heim til Íslands. Við fórum á markað í Mexíkóborg, rétt hjá húsinu okkar. Þá gengum við fram á menn sem gerðu grín að mér, en þar sem þeir gerðu það á frumbyggjamáli þá skildi ég þá ekki. En hún skildi allt og varð öskureið, ég fékk högg, jams.

Sambýliskona mín nmr. 4 eða 5, var afar afbrýðisöm, eitt sinn vaknaði ég við að hún sló mig aftur og aftur í hausinn með mínum eigin farsíma. Hún fór reglulega í gegn um símann hjá mér og hafði þarna komist að þeirri röngu niðurstöðu að ég væri í tygjum við aðra konu. Seinna kom ég eitt sinn heim úr vinnunni og þá tók á móti mér skæðadrífa innan úr eldhúsinu af leirtaui, steikarhnífum og hnífapörum. Hvað á maður að segja um svona lagað ? Eitt sinn stökk hún á bak mér og ætlaði að banna mér að fara út um útidyrnar, og lamdi mig og lamdi. En ég komst út ;).

Hvað meira, ja jú, ég vann í tvö ár á erfiðustu geðdeildum landsins, maður kom nú í ófá skiptin lemstraður heim úr vinnunni, enda voru einstaka sjúklingar með þá árráttu að ætla virkilega að koma manni bara fyrir kattarnef. En það var þó vinna, ég upplifði slagsmálin á geðdeildinni aldrei sem ofbeldi gagnvart mér, ég hafði þó oft áhyggjur af upplifun ýmissa sjúklinga af því að vera beittir valdi af starfsfólki, ég var afar mótfallin slíku að ástæðulausu og mér fannst sjúklingar allt of oft beittir valdi að ástæðulausu, lét það óspart í ljós við mína yfirboðara. Raunar er það mín tilfinning að sú staða hafi líklega lítið breyst á geðdeildum landsins.

Ég gæti haldið þessu áfram og sagt sögur af átökum við menn og vætti hér á Íslandi eða í suðurhöfum en ég nenni því ekki. Varð ég fyrir ofbeldi ? Já. Hef ég upplifað ofskynjannir og átt erfitt með hreyfingar, öndun ect mánuðum saman í framhaldi af því að verða fyrir ofbeldi ? Vissulega. Hef ég frosið í krítískum aðstæðum ? Oft. Hef ég eytt nótt eftir nótt, mánuð eftir mánuð í hreinni skelfingu ?

Tjaa,,,

Það sem ég vil þó benda á varðandi ‘Beauty Tips’, lokuðu facebook grúppuna þar sem konur af öllum stærðum og gerðum lýsa ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir og nafngreina menn sem þær segja vera gerendur. Ekki er hægt að horfa fram hjá þeirri staðreynd að visst hlutfall af þessum konum er að segja ósatt. Ástæðurnar fyrir slíkum sögum geta líklega verið ýmiskonar. Höfnun er algengt motif. Peningamál er annað, geðræn vandamál viðkomandi og síðan eru forræðisdeilur oft kveikjan að því að fölskum sögum af ofbeldi sé komið á kreik, jafnvel rata slík mál inn í dómsali en þó allt of sjaldan. Viðkomandi kýs frekar að breiða út sögur.

Því þarf að komast að einhverri niðurstöðu með þessa aðferð. Það að bera sakir á nafngreindan einstakling á opinberum vettvangi án þess að hann hafi hlotið dóm er bannað samkvæmt lögum. Sú hugmyndafræði gengur því ekki alveg upp.

Annað er að allur lokaður umræðuvettvangur þar sem fjallað er af hömluleysi um alvarleg og viðkvæm mál, er dæmdur til að granda sjálfum sér hratt og örugglega. Lokaður umræðuvettvangur þar sem ekki er notast við stífar reglur um hvað er sett fram og hvernig, er kjörlendi fyrir einelti og andlegt ofbeldi. Í raun er slíkur vettvangur sérhannaður fyrir ofbeldisverk, hægt er að fara á svig við lög og reglur í skjóli, þar sem engin sér til. Þetta eru kjöraðstæður fyrir siðblint fólk, jafnvel þá sem haldnir eru kvalalosta.

Þannig að Beauty Tips er ekki alveg svarið, ekki endanleg lausn. Þótt vissulega þurfi allt fólk að fá að tjá sig, þá þarf kannski aðra hugsun, aðra hugmyndafræði. Minna hatur kannski. Meiri ást.

g

 

Gunnar Waage

Gunnar Waage

- Gunnar Waage er blaðamaður og ritstjóri Sandkassans frá árinu 2013.

Hann er Trommari, Tónskáld og skólastjóri Trommuskólans, fyrrverandi deildarstjóri og einn af stofnendum Tónlistarháskóla G. Martell í Mexíkóborg. Hann lauk burtfararprófi frá McNally Smith College of Music, en duflar við kerfisfræði og er áhugamaður um bardagaíþróttir. Hann rýnir í þjóðfélagsmál og lætur sig flest varða.Hann er einstæður faðir, jafnréttissinni, fjölmenningarsinni og áhugamaður um velferð barna. Starfar við túlkun og þýðingar og fæst við spænskukennslu.


Hann er pistlahöfundur á Kvennablaðinu og var pistlahöfundur á DV en hætti skrifum á DV ásamt fleirum, í þeim tilgangi að sýna blaðamönnum og ritstjórn blaðsins samstöðu í kjölfar yfirtöku á félaginu í September 2014.
Gunnar Waage

Lítil heimskuleg færsla

| Gunnar Waage |
About The Author
- - Gunnar Waage er blaðamaður og ritstjóri Sandkassans frá árinu 2013. Hann er Trommari, Tónskáld og skólastjóri Trommuskólans, fyrrverandi deildarstjóri og einn af stofnendum Tónlistarháskóla G. Martell í Mexíkóborg. Hann lauk burtfararprófi frá McNally Smith College of Music, en duflar við kerfisfræði og er áhugamaður um bardagaíþróttir. Hann rýnir í þjóðfélagsmál og lætur sig flest varða.Hann er einstæður faðir, jafnréttissinni, fjölmenningarsinni og áhugamaður um velferð barna. Starfar við túlkun og þýðingar og fæst við spænskukennslu. Hann er pistlahöfundur á Kvennablaðinu og var pistlahöfundur á DV en hætti skrifum á DV ásamt fleirum, í þeim tilgangi að sýna blaðamönnum og ritstjórn blaðsins samstöðu í kjölfar yfirtöku á félaginu í September 2014.