Gunnar Hjartarson skrifar –

Haustið 2008 var ákveðið að Akranesbær tæki við 8 einstæðum flóttakonum frá Palestínu ásamt 21 barni þeirra. Konurnar höfðu lengi búið við skelfilegar aðstæður í flóttamannabúðum í Írak en þær höfðu stöðu flóttamanna í Írak vegna þess að forfeður þeirra höfðu verið gerðir brottrækir frá Palestínu eftir stofnun Ísraelsríkis árið 1948. Þrátt fyrir flóttamannastöðu sína höfðu þær lifað ágætis lífi í Írak eða allt þar til þær misstu allt sitt í loftárásum Bandaríkjamanna á landið árið 2003.

Almenn samstaða var á Íslandi um mótöku flóttafólksins nema hjá einum flokki. Frjálslyndi Flokkurinn, sem var stofnaður að mestu eingöngu sem afl gegn kvótagreifunum, hafði um tveimur árum áður sætt yfirtöku rasískra afla sem hafði tekist að breyta grunnstefi flokksins í átt til haturs og fordóma.

Magnús Þór Hafsteinsson var á þessum tíma formaður félagsmálaráðs bæjarins. Magnús hafði ásamt Jóni Magnússyni átt mestan þátt í að innleiða rasisma inn i stefnu Frjálslynda Flokksins og voru þeir félagar komnir með viðurnefnin Magnús Hagen og Jón Le Pen.

logoMagnúsi var illa við að flóttamenn kæmu til Akranesar og reyndi eftir sinni bestu getu að gera allt til að svo yrði ekki. Hann setti á fót undirskriftalista gegn komu flóttakvennana og barna þeirra sem voru farnir að sjást víða í bænum. Hann sagði að menning þeirra passaði ekki inn í Íslenskt samfélag og betra væri að hjálpa konunum heima fyrir ef það þyrfti þá að hjálpa þeim á annað borð. Magnús settist svo niður og skrifaði langa greinargerð um að það væri ótækt að Akranesbær tæki við þessum konum ásamt börnum þeirra. Í greinargerðinni voru nánast öll ný-rasistarök sem þekkjast tekin til.

Flokksfélagar Magnúsar þau Karen Emilía Jónsdóttir og Gísli S. Einarsson bæjarstjóri ákváðu eftir að hafa lesið greinargerð Magnúsar að ganga til liðs við Sjálfstæðisflokkinn og þar með var meirihluti Magnúsar í bænum sprunginn og því vonlaust mál að hindra komu flóttamanna í bæinn. Andstaða fólks á Akranesi og á landinu öllu við rasisma Magnúsar var mikil. Hann var hafður að háði og spotti og hreinlega sagður vera illmenni af mörgum. Frjálslyndi Flokkurinn hvarf af þingi árið eftir og lognaðist út af nokkru síðar þó hann sé enn til að nafninu einu saman. Magnús hröklaðist úr pólitík á sama tíma og þá héldu flestir að framgöngu Magnúsar og félaga hans í pólitík væri lokið.

Þessi ár sem Magnús hefur verið lítt sjáanlegur í umræðunni hefur hann m.a. þýtt bókina “Þjóðaplágan Íslam” eftir Hege Storhaug. Höfundur þeirrar bókar hefur verið sakaður um að ala á hatri í garð múslima og innflytjenda með skrifum sínum. Magnús hefur sömuleiðis poppað upp annað slagið m.a. á vefmiðlum og látið miður falleg orð falla um múslima.

Þeir sem héldu að framgöngu Magnúsar og félaga í pólitík væri lokið höfðu rangt fyrir sér en nýlega var Magnús kynntur sem oddviti Flokks Fólksins í Reykjavíkurkjördæmi norður. Flokkur Fólksins hefur gengið nokkuð vasklega fram í þessari kosningabaráttu en lítið sem ekkert hefur borið á yfirlýstri útlendingaandúð hjá þeim. Þvert á móti þá hafa þeir beitt sér fyrst og fremst fyrir bættum kjörum eldri borgara og landsmanna almennt.

Í stjórnmálaflokknum Dögun hafa fyrrverandi meðlimir Frjálslyndra einnig komið sér vel fyrir en í efstu sætum Dögunar í Norðvesturkördæmi má finna Sigurjón Þórðarson (1. sæti) og Guðjón Arnar Kristjánsson (5. sæti). Sigurjón var einn helsti stuðningsmaður Magnúsar og Jóns á þeim umrótartíma sem Frjálslyndi Flokkurinn breyttist í rasistaflokk og þegar innflytjendaumræðan stóð sem hæst. Guðjón Arnar var formaður flokksins og því ábyrgðarmaður alls þess rasisma sem kom frá flokknum 2006-2009. Sturla Jónsson fyrrverandi frambjóðandi Frjálslyndra er oddviti Dögunnar í Suðurkjördæmi en hann hefur lýst yfir andúð á fjölmenningarstefnu nú í aðdraganda kosninga.

Alþingiskosningarnar 2016 eru sögulegar að því leitinu til að þjóðernis populismi hefur aldrei áður verið jafn áberandi í kosningabaráttunni. Í fyrsta skipti frá síðari heimstyrjöld býður hér einnig sig fram rasistaflokkur sem gerir út á andúð á múslimum og innflytjendum.

Dögun sem var yfirlýst fjölmenningarframboð fyrir síðustu borgarkosningar virðist vera að breytast til hins verra með komu fyrrverandi meðlima Frjálslyndra í flokkinn og góðir menn hafa nú yfirgefið flokkinn því þeim lýst ekki á í hvað stefnir. Þar má helst nefna Salmann Tamimi og Þorleif Gunnlaugsson. Flokkur Fólksins býður skipsbrot með að fá menn eins og Magnús Þór Hafsteinsson til liðs við sig og mun álit fólks á flokknum koma til að minnka mjög vegna þessarar aðkomu hans enda Magnús fyrst og fremst þekktur fyrir rasisma og íslamsfóbíu, nokkuð sem erfitt er að trúa upp á meirihluta samflokksmanna hans.

Þjóðernis populisma hefur sömuleiðis mátt finna í Viðreisn, Framsókn og Sjálfstæðisflokki þó nokkuð hafi dregið úr fyrirbærinu innan Framsóknar nú nýlega. Þetta þýðir að 6 flokkar af 13 hefur fundist í lagi að róa á þessi vafasömu mið, hver með sínum hætti.

Að mörgu leyti má þó segja að Dögun og Flokkur Fólksins hafi fengið þennan stimpil á sig vegna tengsla við fyrrverandi meðlimi Frjálslynda Flokksins. Enginn flokkur ætti nokkurntíman að samþykkja gamla rasistaliðið úr Frjálslyndum inn í flokksraðir sínar enda sýnir sagan það að þessir menn hafa engan áhuga á flokksstarfinu eða stefnu flokkana á nokkurn hátt. Þeir nota flokkana einfaldlega sem verkfæri fyrir sínar skoðanir og á endanum mun þeim takast að fara með þá til fjandans likt og þeim tókst að eyðileggja Frjálslynda Flokkinn á sínum tíma.

Að lokum vil ég aðeins gefa Dögun og Flokki Fólksins eitt ráð sem myndi nýtast þeim vel: Rekið þessa skemmdarvarga úr flokknum og fordæmið rasisma opinberlega. Með því mætti bjarga sökkvandi skipi.

 

 

Magnúsar saga

| Gunnar Hjartarson |
About The Author
-