Netákall Amnesty International

flóttamenn í Skopje, höfuðborg Makedóníu

flóttamenn í Skopje, höfuðborg Makedóníu

Hundruðum flóttamanna, hælisleitenda og farandfólks á öllum aldri er haldið ólöglega í Móttökumiðstöð fyrir útlendinga, „Gazi Baba“, í Skopje, höfuðborg Makedóníu. Þrengsli eru mikil og aðstæður ómannúðlegar og niðurlægjandi. Aðgengi að hreinlætisaðstöðu og heilbrigðisþjónustu er mjög ábótavant. Sumir þurfa að sofa á gólfinu og aðgengi að lögfræðilegri aðstoð er ekki fyrir hendi.

Flest þetta fólk, stundum heilu fjölskyldurnar, er að flýja vopnuð átök í Sýrlandi og er í haldi svo að yfirvöld geti gengið úr skugga um hvert það er og til að hjálpa við málarekstur gegn smyglurum. Sumir hafa verið í haldi svo mánuðum skiptir, jafnvel lengur en hálft ár, án þess að geta leitað á náðir dómstóla til að skera úr um lögmæti varðhaldsins.

Amnesty International hefur fengið upplýsingar með beinum og óbeinum hætti varðandi þá niðurlægjandi og ómannúðlegu meðferð sem fólk sætir í „Gazi Baba. Miðstöðin er gerð fyrir 12-150 manns en í tölum innanríkisráðuneytis landsins kemur fram að um 200 einstaklingum er að jafnaði haldið í niðurníddu húsnæðinu. Aðrar heimildir herma að allt að 350 manns hafi stundum verið haldið í miðstöðinni. Amnesty International hefur ekki fengið að heimsækja miðstöðina, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir.

Tveir hælisleitendur frá Afganistan lýstu aðstæðum fyrir rannsóknarfólki frá Amnesty International. Þeir sögðust hafa séð fjölskyldur sem haldið hafi verið í marga mánuði, meðal annars afganskan mann með þriggja til fjögurra ára gamalt barn, sem hefði liðið mjög illa við þessar aðstæður. Mennirnir sögðu einnig að annar þeirra hafi verið barinn fyrir að fara í sturtu á óviðeigandi tíma og að maður sem hafi virst vera í hjartnauð hafi bara fengið verkjalyf og enga læknisþjónustu.

Gríptu til aðgerða og þrýstu á innanríkisráðuneyti Makedóníu að hætta nú þegar við ólöglega varðhaldsvist flóttafólks, hælisleitenda og farandfólks í Móttökumiðstöð fyrir útlendinga, bæta aðstæður þeirra sem er haldið í varðhaldi með lögmætum hætti og gefa þeim, sem haldið er, kost á að sækja um hæli og tryggja að vel sé farið yfir umsókn hvers og eins og af sanngirni.

Makedónía: Hundruðum haldið ólöglega við ómannúðlegar aðstæður

| Sandkassinn |
About The Author
- Ritstjórn