Náttúruhamfarir dynja yfir ákveðinn bæ á Íslandi. Margir deyja og þeir sem komast af hafa tapað öllu sínu og eiga sér engan samastað. Í stað þess að allir nái sátt um að hjálpa fólkinu sem á um sárt að binda er farið í skotgrafahernað til að hindra frekari tilverurétt þess á Íslandi.

 

Sumir myndu segja fólkið bara tilheyra ákveðnum bæ og ætti að halda sig þar.

 

Aðrir myndu segja fólkið vera að svindla á kerfinu með að flytjast til nýrra landshluta.

 

Svo myndu aðrir segja fólkið bara eiga að flytja til næsta bæjar sem myndi taka við þeim öllum.

 

Osfrv. Osfrv. Osfrv.

 

Væru þetta viðbrögðin við náttúruhamförum á Íslandi?

 

Ekki er hægt að ímynda sér að viðmót Íslendinga til annara Íslendinga í neyð yrðu með þessum hætti. Reikna má með að þverpólitísk sátt myndi nást um að hjálpa fólkinu sem hefði misst allt sitt.

 

Myndi samúðin með Íslendingunum í ímynduðu stöðunni hafa eitthvað með það að gera að flest þeirra væru ekki með mikil litarefni í húðinni og aðhylltust líklega ekki trúarbrögð sem ættu sér langa sögu á Íslandi?

 

Um 65 milljónir manna eru á vergangi í heiminum núna og leita skjóls í öðrum löndum. Ástand þeirra er i raun verra en þeirra sem væru fórnarlömb náttúruhamfara að því leytinu til að fólkið hefur upplifað hörmungarnar yfir lengri tíma og vegabréf þeirra eru orðin að gagnslausum pappír.

 

Neyðaraðstoð er ekki pólitískt ágreiningsefni

 

Í öllum skoðana- og viðhorfskönnunum hefur komið fram að 75-85% Íslendinga vilja gera betur í málaflokki flóttamanna og hælisleitenda. Þessi afstaða endurspeglast þó ekki á Alþingi né í stefnu stjórnvalda. Í nýju frumvarpi sem miðar af því að veita tveimur barnungum stúlkum ásamt fjölskyldum þeirra hér ríkisborgararétt eru aðeins 23 flutningsmenn.

 

Hjálp til handa fólki í neyð á aldrei að verða að pólitískum ágreiningi. Um það eiga allir stjórnmálaflokkar að ná sáttum um. Geti ákveðnir stjórnmálaflokkur ekki undirgengist þá sátt er ekkert óeðlilegt að skilgreina þá sem ómannúðlega rasistaflokka. Þeir geta vælt yfir því og kallað sig fórnarlömb en fórnarlömbin eru raunverulega það fólk sem flokkarnir vilja ekki hjálpa.

 

Allir geta lent í neyð. Ef við hjálpum fólki að stíga upp úr neyð öðlast það betra líf. Engin ástæða er fyrir Ísland til að standa uppi með blóðstorknar hendur og ónýtt orðspor út á við vegna þess að við hjálpuðum ekki fólki og þ.á.m. börnum sem þrá ekkert heitar en að gerast góðir þjóðfélagsþegnar.

 

Neyð er Neyð – Við Eigum Að Hjálpa Fólki Í Neyð

| Gunnar Hjartarson |
About The Author
-