Hatur gegn hinsegin samfélaginu hefur hingað til verið nokkuð opinskátt hjá þeim sem það stunda. Þeir hafa talað um að hinsegin fólk passi ekki inn í normið og séu óboðleg guði. Inn í subbulegan málflutninginn er svo blandað gervivísindum og rugli frá mönnum og stofnunum sem hafa fyrir löngu verið afskrifaðar í fræðisamfélaginu. Við getum kallað hatursberana hómófóbíska, LGBT+ hatara eða hommahatara þó vissulega sé síðastnefnda orðið engan veginn nógu gott þar sem hatrið beinist ekki eingöngu gegn hommum heldur einnig lesbíum, transfólki o.s.frv.

Nasisminn og rasisminn hafa tekið miklum breytingum undanfarna áratugi. Upprunalegu hugmyndirnar hafa verið gjörsigraðar og njóta algjörrar fyrirlitningar hjá meginþorra fólks. Það hefur orðið til þess að nasistar og rasistar hafa reynt að breyta ásjónum hugmynda sinna til að komast í meginstrauminn. Við köllum nýju útgáfur þessara hugmynda ný-nasisma og ný-rasisma í daglegu tali. Ný-nasistinn er ekki endilega alltaf að flagga hakakrossi og ný-rasistinn ekki alltaf að tala um kynþætti.

Það sem veldur umbreytingu hugmyndanna er hnignun þeirra upprunalegu. Á undanförnum árum hefur hinsegin fólk notið síaukinna réttinda í samfélaginu. Hatur gegn þeim er sömuleiðis orðin algjör jaðarskoðun. Í stað þess að láta hatrið deyja út fara þeir sem hatast við hinseginsamfélagið að breyta ásjónum hugmynda sinna líkt og nasistarnir og rasistarnir. Leiðara Guðna Gíslasonar, ritstjóra Fjarðarfrétta, tel ég vera eitt fyrsta merki þess að ný-hómófóbísk stefna sé að koma upp á yfirborðið.

Transkonan Eva Ágústa Aradóttir var fjallkona Hafnarfjarðar þetta árið og það gramdist Guðna. Í blaðinu var hún hvergi nefnd í texta né á nafn. Á einum stað í blaðinu mátti sjá pínulitla mynd af henni. Í stað þess að segja hreint út að hann væri á móti því að transkona hafi verið valin þá vitnaði hann í leiðaranum í stjórnarskrána um jafnréttisreglur sem ástæðu fyrir því að hún hafi verið óboðlegur kostur. Svo blandaði hann inn vangaveltum um að valið hafi verið sýndarmennska.

Þennan málflutning hans má bera saman við málflutning ný-rasistans Jóns Magnússonar sem beitir iðulega svipað lágkúrulegum aðferðum við að koma höggi á fólk vegna litar, trúar og þjóðernis. Á meðan gömlu rasistarnir voru berorðir þá reyna ný-rasistarnir að fela viðurstyggilegan hugsunarhátt sinn á bakvið fagurgala um mannréttindi og jafnrétti. Þeir reyna t.d. að afbaka lög og stjórnarskrá til að pakka skoðunum sínum í fallegri búning. Nýju útgáfur nasismans, rasismans og hómófóbíunnar eru í raun mun óheiðarlegri en hinar gömlu.

Að sumu leyti má þó fagna því að hómófóbískir einstaklingar séu byrjaðir að átta sig á því að flestu fólki er nákvæmlega sama þótt karlar elski karla og konur elski konur. Fólki er líka slétt sama þó kona hafi fæðst í karlmannslíkama eða karl í kvenmannslíkama. Þeir geta reynt að breyta sínum málflutningi að vild en það breytir ekki innræti þeirra. Við þurfum þó að vera viðbúin því að berjast gegn hinni nýju útgáfu haturs sem mun ryðjast fram gegn hinsegin fólki á næstu árum og áratugum. Það þarf alltaf að vera á varðbergi gagnvart því að skipt sé um pakkningar á mannvonsku því að hið vonda innihald pakkans er ávallt hið sama.

Ný-Hómófóbía

| Gunnar Hjartarson |
About The Author
-